09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (3969)

197. mál, móðurmálskennsla í barna- og gagnfræðaskólum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend upp aftur, vegna þess að ég sé ekki ástæðu til þess að láta niður falla þetta notalega rabb okkar hér um móðurmálið. Það er fámennt í salnum að vísu, en góðmennt, að ég hygg. Það eru þrír Alþb.-þm., tveir eins og stendur, einn var að fara fram, ég veit, að hann kemur aftur rétt strax, og þrír framsóknarþm. og einn fulltrúi ríkisstj. eða stjórnarflokkanna, og þarna kemur þriðji Alþb.- þm. inn aftur, og fulltrúi stjórnarflokkanna er forseti. Og nú sé ég, að hæstv. forseti Nd. gengur í salinu, og þar með hefur stjórnarflokkunum aukizt fylgi um 100% í salnum.

Ég vil ekki láta niður falla þetta rabb okkar strax. Ég vil gjarnan halda þessu áfram, og ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 5. þm. Austf., um ritgerðir barna. Ég er feginn því, að hann skildi rétt það, sem ég sagði, þó ekki alveg rétt, að því er virðist. Ég átti við það, að lifandi móðurmálskennsla á að sjálfsögðu að hefjast sem allra fyrst, og það mátti að sjálfsögðu skilja það af tali mínu um það að gera sem mestar kröfur til barnanna á þessu sviði, enda skildi hann þetta þannig og skildi það þar með rétt.

En það er eitt atriði í því, sem hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson nefndi, sem gjarnan mátti hugleiða nokkru nánar, þar sem hann talar um ritgerðir barna og gildi þeirra. Hann segir alveg réttilega, að gildi þessara ritgerða, sé ekki hvað sízt fólgið í einlægninni. Börnin eru óbundin, þau eru ótrufluð af ýmsu, sem seinna kemur til sögunnar og heftir hugsun þeirra og veldur þá alls konar tilgerð og erfiðleikum í framsetningu. En þetta sýnist mér rökstyðja það, sem ég hef áður sagt um málfræðistaglið. Það er ásamt mörgu öðru málfræðistaglið, sem að mínum dómi veldur þessari þvingun, því miður. En vandamálið hjá barnakennurunum og þá enn meira hjá unglingakennurum, sem taka við þeim nemendum, sem eru komnir á það skeið, þegar ýmiss konar tilgerð fer að segja meira til sín, það vandamál er að viðhalda þessari einlægni. Og hér er reyndar um að ræða vandamál, sem snertir allt ritað mál. Ritað mál, árangurinn á því sviði, byggist einfaldlega fyrst og fremst á einlægni. Sá mæti maður Bernhard Shaw var einu sinni spurður að því, hvað stíll væri, og hann svaraði: Stíll er sama og einlægni. Og ég er hræddastur um það, að skilningur margra kennara sé ekki nógu mikill einmitt á þessu, að viðhalda einlægni nemendanna að því er snertir alla framsetningu. Reynsla mín sem nemanda í skóla var t.a.m. sú, að kennarar höfðu tilhneigingu til að vera með ýmiss konar spíssfyndugheit út af smámunum, sem ég leyfði mér um daginn að nefna tæknileg atriði. Þeir býsnuðust yfir atriðum, sem voru í skyldleika við svona minni háttar slys, eins og það að segja mér langar í staðinn fyrir mig langar. Mér dettur í hug að nefna dæmi um það, hvað hægt er að ganga langt í því að venja blessuð börnin af svo kallaðri þágufallssýki.

Ég var einu sinni staddur þar, sem tvær litlar telpur voru að flýta sér mikið í hádeginu, og sú eldri, sem taldi sig vera menntaðri, setti ofan í við systur sína, sem var að flýta sér og þurfti að fá eitthvað, og sagði við hina eldri: Mér liggur á. Þá sagði sú eldri: Þú átt ekki að segja mér liggur á, þú átt að segja ég ligg á. Mér virðist, að þetta standi í sambandi við það, sem síðasti íslenzkutími þessarar telpu fjallaði um. Hann hefur eflaust fjallað um þetta, að maður á að segja ég kvíði fyrir og ég hlakka til, en ekki mig eða mér. Þetta er nú aðeins sagt til gamans, en þó er fólgin í þessu nokkur viðvörun. Og mér er ekki grunlaust um t.d., að viðkomandi kennari hafi verið farinn að binda íslenzkunámið helzt til mikið við svona hluti.

En svo að við komum aftur að einlægninni, þá vildi ég einmitt taka undir þetta með hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni, að það á að sjálfsögðu að láta börnin semja ritgerðir sem allra fyrst og leggja mikið upp úr því. Og ég er ekki fjarri því, að ef góðir kennarar fjalla um, þá mætti fá frá börnum nokkuð svo merkilegar bókmenntir og fullt eins merkilegar og þær ýmsar, sem á markað koma hér hjá okkur og eru samdar af ýmsum þeim, sem eldri eru, en hafa því miður glatað þeirri einlægni, sem börnin hafa.

Og af því að ég er nú farinn að tala um eldri rithöfunda, þá ætla ég að ljúka þessu með aths., sem ég leyfi mér oft að gera, þegar ég er spurður um bókmenntir eða rithöfunda. Ástæðan til þess, að sá maður, sem ég hygg, að megi telja, að hafi haft mest áhrif á íslenzkar nútímabókmenntir, a.m.k. að því er varðar stílinn, ástæðan til þess, að hann hefur náð svona miklum árangri og haft svona mikil áhrif og bókstaflega orðið byltingarmaðurinn í bókmenntum þjóðarinnar, þ.e. Þórbergur Þórðarson, ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að hann hefur alltaf haldið einlægninni, ekki glatað henni, þeirri einlægni, sem hann öðlaðist sem barn og unglingur austur í Suðursveit.