25.11.1970
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (4052)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við umr. þá, sem fram fer um þáltill. á þskj. 105, vil ég taka fram nokkur atriði. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að það er hin mesta nauðsyn, þegar á að taka veigamiklar ákvarðanir, ekki hvað sízt í efnahagsmálum, að þá sé reynt að láta fara um meðferð á því máli með þeim hætti, að það sé ekki augljóst eða auglýst, að slíkar aðgerðir eigi fram að fara. Ég hef áður við umr. tekið það fram hér á hv. Alþ.,hæstv. ríkisstj. hafi ekki gætt þess sem skyldi að fara þannig að. Og í því sambandi hef ég minnt á aðgerðir í efnahagsmálum 1968, þegar gengisbreytingin var gerð. Upphaflega voru ákvarðanir eða aðgerðir þá gerðar með 20% hækkun á aðflutningsgjöldum, sem var beinlínis auglýsing á því, að hverju væri stefnt. Enda sýndi það sig þá, að þá varð hér kaupæði, svo að vöruþurrð var orðin og gjaldeyrisskortur. Þetta var afleiðing af þeirri aðgerð, sem gerð var þá í septemberbyrjun, og þeim umr., sem fram fóru um efnahagsaðgerðirnar. Ég vil líka taka undir það, að það er nauðsynlegt, að Alþ. skapi aðhald í þessum efnum. Og þess vegna getur rannsókn á slíkum aðgerðum verið nauðsynleg, og hv. Alþ. á ekki að vera jafnviðkvæmt fyrir því eins og hér er. Það þarf að skapa aðhald við slíkar framkvæmdir, og það ber nauðsyn til, að það verði gert.

Í sambandi við þær umr., sem fram fóru hér um frv. það, sem hæstv. ríkisstj. tengdi verðstöðvuninni, deildum við framsóknarmenn á hæstv. ríkisstj. fyrir meðferð málsins. Við héldum því fram í þeim umr., að í haust og í sumar hefðu orðið óeðlilega miklar verðhækkanir m.a. vegna meðferðar málsins. Hæstv. ríkisstj. hefði haft tök á því að festa verðlagið eða hafa fullkomið vald á verðhækkunum, ef hún hefði haft áhuga fyrir því. Lögin, sem notuð voru við ákvörðun á verðstöðvuninni 1. nóv. s.l. voru ekki ný, heldur löggjöf, sem var til staðar og hæstv. ríkisstj. gat haft sér til varnar í verðlagsmálunum hér í sumar, ef hún hefði óskað að gera það. Ég vil minna á það hér, eins og gert var í þeim umr. af okkur framsóknarmönnum, að einmitt í allt sumar eða seinni part sumarsins, eftir að verðlagsskriðan var komin af stað og umr. fóru að verða um þau mál, þá var ljóst, að að einhverjum slíkum aðgerðum yrði stefnt, sem gerðar hafa verið. Í samræmi við þessa skoðun vil ég benda á það, að þegar hæstv. ríkisstj. boðaði fulltrúa stéttarfélaganna og atvinnurekendanna til viðræðna við sig um stöðvun á víxlhækkun verðlags og kaupgjalds, eins og tekið var fram í sambandi við tilkynningar þar um, þá var nauðsyn að gera þá þegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á verðlaginu í landinu. Þegar hæstv. forsrh. lét hafa eftir sér ummæli um hugsanlega möguleika á kosningum og umr. fóru fram um kosningar í haust, þá vissu allir, að þær voru tengdar því ástandi, sem var að skapast í efnahagsmálum. Það voru ekki forsendur fyrir því, að kosningar gætu átt sér stað, nema vegna þeirra viðhorfa, sem hæstv. ríkisstj. eða hæstv. forsrh. og hans flokkur taldi, að væru að skapast í efnahagsmálum.

Þessar umr. hafa því allar leitt til þess, að þróunin í verðlagsmálum hefur orðið slík sem raun ber vitni um. Þó að hæstv. stjórnarsinnar haldi því nú fram, að þar hafi ekkert gerzt, sem óeðlilegt megi teljast, þá er því til að svara, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki farið að gera þær ráðstafanir, sem hún hefur nú þegar gert, að grípa til stórfelldra niðurgreiðslna, ef það hefði ekki verið vegna þess, að þróunin í efnahagsmálunum í sumar og haust var slík, að hún treysti því ekki, að atvinnuvegirnir gætu starfað með eðlilegum hætti, nema til aðgerða kæmi. Það er því alveg þýðingarlaust að tala um það, að verðhækkanir hafi ekki orðið óeðlilegar eða miklar, því ef svo hefði ekki orðið, þá hefði ekki þurft að grípa til aðgerða. Það var undirstrikað í umr. um verðstöðvunarfrv., þar sem sýnt var fram á það með rökum, að þróunin í verðlagsmálum og útflutningsframleiðslu þjóðarinnar hefur verið sú á síðari hluta þessa árs, að hún hefur öll gengið til hins betra. Þess vegna þurfum við ekkert að eyða neinum orðum að því, að ástæðan fyrir því, að aðgerðir þær, sem nú er búið að gera, og ákvörðun hæstv. ríkisstj. frá 1. nóv. byggjast á því, að þróunin í verðlagsmálunum var slík, að hæstv. ríkisstj. treysti ekki atvinnuvegunum til þess að þola hana.

Þáltill. á þskj. 105 gengur út á það að rannsaka aðeins þær verðhækkanir, sem orðið hafa síðan hið fræga sjónvarpsviðtal hæstv. forsrh. átti sér stað. Við framsóknarmenn teljum hins vegar, að hér sé um allt of takmarkaða aðgerð að ræða. Það, sem eigi að rannsaka í þessu tilfelli, sé verðlagshækkunin, ekki eingöngu sú, sem var ákvörðuð af verðlagsstjóra, heldur verðlagsþróunin í landinu, síðan kjarasamningarnir voru gerðir. Við höfum þess vegna leyft okkur að flytja þáltill. um þetta efni á þskj. 164. Sú till. er þannig gerð, að hún nær yfir það, að rannsökuð verði verðlagsþróunin, síðan kaupgjaldssamningarnir voru gerðir, og að gerðar verði aðgerðir til þess að leiðrétta það, ef um óeðlilegar verðhækkanir hefur verið að ræða. Þessi till. okkar gengur í þá átt, sem rétt er, til þess að fá þetta mál afgr. á þann hátt, sem nauðsyn ber til, svo að hið sanna komi fram í þessum málum og augljóst verði, að vegna þessarar þróunar hafi orðið að taka þær efnahagsákvarðanir, sem nú hafa verið teknar, og það sé nauðsynlegt, að Alþ. sýni það svart á hvítu með rannsókn sinni, að það sé forsendan fyrir þessu. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja till. um þetta efni, sem er, eins og ég áðan sagði, á allan hátt víðtækari en till. þeirra hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, og hans félaga. Við gerum ráð fyrir, að við fáum hana afgreidda fljótlega hér á hinu hv. Alþingi. Af þeim ástæðum munum við bíða með fylgi okkar við þessa rannsókn eftir afgreiðslu hennar, en ekki geta fylgt þeirri till., sem hv. 6. þm. Reykv. hefur flutt, enda hrekkur hún það skammt, að hún nær ekki til þess að skýra það mál, sem raunverulega er um spurt og nauðsyn ber til, að skýrt verði.