26.11.1970
Neðri deild: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (4056)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að bæta miklu við skýra og málefnalega ræðu, sem hv. þm. Lúðvík Jósefsson var að ljúka við að flytja hér. En engu að síður langaði mig til að bæta við örfáum aths. í tilefni af nokkrum atriðum, sem fram komu hér á fundinum í gær.

Ég minntist á það í gær, að mér þætti till. Framsfl. um rannsókn á verðhækkunum í sumar bera keim af þeim vinnubrögðum þess flokks að hirða málefni frá öðrum. En ég hef hugsað þetta mál dálítið frekar, og ég veit ekki nema það felist dálítið alvarlegri hlutur í þessari till. en aðeins þetta, sem þm. eru nú orðnir allkunnugir. Ég varð var við það, þegar till. okkar Alþb.-manna kom fram, að ýmsum þótti hún nokkuð harkaleg og óvenjuleg. Þetta er í fyrsta skipti í þingsögunni, sem í fullri alvöru er vitnað til laga um ábyrgð ráðherra og landsdóm. Þetta er till., sem sker í gegnum allt moldviðri, og hún er nærgöngul við hæstv. ríkisstj. Og ég er anzi hræddur um, að það hafi verið þetta einkenni till., sem gerði það erfitt fyrir ýmsa þm. Framsfl. að vilja fylgja henni. Það er háttur framsóknarmanna að vilja heldur hafa ummæli sín dálítið loðin en að segja þau skýrum orðum. Og það hefur einkennt Framsfl. mjög einmitt á þessu ári, að hann hefur greinilega verið að búa sig undir það að bæta sambúð sína við Sjálfstfl. Það kom ákaflega skýrt fram eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, þar sem samið var um samvinnu við Sjálfstfl. á einum stað eftir annan, og það er alveg ljóst, að a.m.k. öflugir aðilar í Framsfl. stefna að þessu marki. Ég hygg, að þeim aðilum hafi fundizt, að það væri dálítið erfitt fyrir þá að fylgja till., sem var eins nærgöngul við hæstv. ríkisstj. og Sjálfstfl. og till. okkar er. Hins vegar veit ég, að framsóknarleiðtogunum hefur þótt það dálítið erfitt gagnvart kjósendum sínum að vilja ekki styðja slíka till. Og þá var fundin upp sú aðferð að taka hluta af henni, flytja hann sem sjálfstæða till. og segja svo, að þeir sjái ekki ástæðu til að taka þátt í afgreiðslu okkar máls, því að þeir séu með sínar eigin till. sjálfir. Það á sem sé að reyna að skjótast út úr málinu á formlegum rökum einum saman, og einnig þetta er ákaflega framsóknarlegt. Þetta er nýjasta útgáfan af þeirri stefnu, sem kennd hefur verið við já, já–nei, nei, að geta aldrei haft skýra stefnu í nokkru máli, að vilja halda öllum dyrum opnum, að vilja brosa til hægri og vinstri í senn. Það er þetta, sem ég les út úr afstöðu framsóknarmanna, þegar þeir flytja þetta mál, og út úr þeirri ræðu, sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson flutti hér í gær.

Það er, eins og hv. þm. Lúðvík Jósefsson benti á áðan, algerlega rangt, að í till. okkar felist ekki almenn athugun á verðlagsþróuninni í sumar. Till. okkar gerir ráð fyrir tveimur verkefnum fyrir rannsóknarnefnd. Í fyrsta lagi að rannsaka aðdraganda verðstöðvunar þeirrar, sem kom til framkvæmda 1. nóv. s.l. Aðdragandi þeirrar verðstöðvunar er verðbólguþróunin, sem varð eftir kjarasamningana í vor. Allir, sem læsir eru á einfalt mál, skilja þetta. Og séu þá einhverjir, sem hefðu viljað orða þetta eitthvað skýrar, þá er það ákaflega einfalt að flytja við þetta brtt., þótt þess gerðist raunar engin þörf. En eftir þetta atriði í till. kemur punktur og ný setning, og þar segir:

„Sérstaklega skal rannsóknin beinast að þróun verðlagsmála, eftir að Jóhann Hafstein forsrh. boðaði það í sjónvarpsþætti 13. okt. s.l., að til stæði að framkvæma verðstöðvun nokkrum vikum seinna.“

Nefndin á að athuga aðdragandann almennt, og síðan á hún sérstaklega að athuga þetta. Þetta er afar skýrt, og þess er enginn kostur fyrir hv. framsóknarmenn að komast fram hjá þessu með neinum vífilengjum.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að með þeirri afstöðu sinni að vilja ekki taka þátt í að afgreiða till. okkar, ef það er rétt hermt hjá hv. þm. Halldóri E. Sigurðssyni, að það sé almenn afstaða framsóknarþm. hér, sem ég dreg nú að vísu í efa, en sé það rétt hermt, þá eru þessir framsóknarþm. að gerast samábyrgir hæstv. forsrh. um þennan furðulega atburð. Þeir eru að lýsa blessun yfir honum. Þeir eru að taka á sjálfa sig siðferðilega ábyrgð. Og það er staðreynd, sem ástæða er til að muna og verður örugglega munuð.

Á fundinum í gær flutti hv. þm. Matthías Á. Mathiesen alllanga ræðu. Ég hafði raunar dálítið gaman af því að fylgjast með verkaskiptingunni milli þeirra flokksbræðranna, hæstv. forsrh. og hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen. Það var greinilegt, að hv. þm. hafði verið falið það verkefni að sinna moldarverkunum, en hæstv. ráðh. ætlaði svo að koma á eftir og flytja málefnalega ræðu í landsföðurlegum tóni. Ég hugsa nú, að moldarverkin hefðu verið unnin ögn rösklegar og á þróttmeiri hátt, ef hæstv. forsrh. hefði gert það, eins og hann hefur oft áður gert hér í þingsölunum.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson hefur svarað ræðu hv. 1. þm. Reykn. svo mjög, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög mörgum orðum um hana. Mér fannst raunar einnig, að málatilbúnaður hans minnti meira á pex það, sem við höfum vafalaust báðir haft gaman af, þegar við vorum ungir menn í Hafnarfirði, heldur en málflutning, sem ætti heima hér innan veggja Alþ., þessi reyfari, sem hann bjó til um samsærisáform okkar Alþb.-manna. Það eina, sem var fróðlegt í því efni, var það, sem ég benti á í gær, að með þessu er hv. þm. að viðurkenna, að fyrirframvitneskja um verðstöðvun hlýtur að leiða til misnotkunar. Þessi hv. þm. viðurkenndi þetta einnig í gær, og ég held, að það sé algerlega ómaklegt vanmat af hans hálfu á hæstv. forsrh. að telja, að orð hans hafi engin áhrif, en orð okkar Alþb.-manna mjög mikil.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson leiðrétti hér röng ummæli Matthíasar Á. Mathiesen um frásögn verðlagsstjóra. Hins vegar þóttu mér dálítið fróðleg ummæli þm. um eðlilegar og óeðlilegar verðhækkanir. Hann taldi, að ekki hefðu orðið neinar óeðlilegar verðhækkanir eftir sjónvarpsviðtal hæstv. forsrh. Ég minntist á það hér í gær, að verðhækkun sú, sem orðið hefur á fjórum mánuðum, nemur um 12%. Það jafngildir því, að almennt verðlag í landinu hefur hækkað um 2–3 þús. millj. kr. á ársgrundvelli. Þetta gerist á rúmum 100 dögum. Það þýðir það, að meðalhækkunin á hverjum degi er 20–30 millj. kr. á ársgrundvelli. Svona stórfelld er þessi skriða. 20–30 millj. kr. á dag á ársgrundvelli. Það er hægt að fela margs konar minni háttar fjárdrátt innan þessa ramma, ef þessi þróun er eðlileg. Ef þetta er talið það eðlilega, hvað er þá óeðlilegt? En það fróðlega og málefnalega, sem fram kom hér í gær, var að sjálfsögðu ræða hæstv. forsrh. Hann var að reyna að finna málefnaleg rök fyrir stefnu ríkisstj. í þessu efni, og hann minntist í ræðu sinni á þá tilvitnun, sem ég kom hér með, í bókina Viðreisn, þar sem ég rifjaði það upp, að hæstv. ríkisstj. hefði heitið því, að ef launahækkanir yrðu, mundi hún ekki leyfa atvinnurekendum að velta þeim út í verðlagið. Þetta átti að vera einn aðalkjarni hinnar nýju stjórnarstefnu. Þetta var eitt ákveðnasta fyrirheitið, sem hæstv. ríkisstj. gaf. Og hæstv. forsrh. varð að sjálfsögðu að viðurkenna það í gær, að rétt væri hermt. En hann sagði, að það væri ólíku saman að jafna. Árið 1960 hefði ekki verið ákvæði um verðtryggingu launa, en slík ákvæði væru núna, og þetta breytti ákaflega miklu. Ég fæ ekki séð, að þetta breyti neinu fyrir hæstv. ríkisstj. Þetta breytir miklu fyrir launafólk. En fyrir hæstv. ríkisstj. ætti verðtrygging launa, vísitölukerfið, að vera miklu meira aðhald til þess að koma í veg fyrir, að verðhækkanir fari út í verðlagið, en sú skipan, sem var 1960, með engum ákvæðum um vísitölubætur.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefðu verið lagðir fram reikningar í vor fyrir fulltrúa verkalýðssamtakanna, reikningar frá Hagstofunni um það, hver verðlagsþróun yrði, ef þetta og hitt gerðist. Mér er fullkunnugt um það, að þessir reikningar voru þar lagðir fram. Þeir voru gerðir af hálfu Hagstofunnar á þeim forsendum, að sama þróun héldist í landinu eins og verið hefur, að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana. En að sjálfsögðu lagði verkalýðshreyfingin enga blessun yfir þessa útreikninga. Verkalýðshreyfingin hefur ævinlega lagt á það mjög þunga áherzlu, að hún vildi beita afli sínu til að koma í veg fyrir verðbólguþróun á Íslandi og hún teldi verðbólguþróun andstæða hagsmunum vinnandi fólks. Þetta viðhorf verkalýðshreyfingarinnar var einmitt kjarninn í samningum þeim, sem gerðir voru í vor. Verkalýðshreyfingin lagði á það mjög þunga áherzlu að ná á nýjan leik ákvæðum um fulla verðtryggingu launa, einmitt vegna þess að hún treysti því ekki, að hæstv. ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að kauphækkanir færu út í verðlagið. Verkalýðshreyfingin vildi fá tryggingu, til þess að hún yrði ekki fyrir kjaraskerðingu af þessum sökum. Og hún knúði fram þessa tryggingu. En þá átti það einmitt að vera tvöföld röksemd fyrir hæstv. ríkisstj. til að koma í veg fyrir nýja verðbólguskriðu. Alls staðar í löndum, þar sem um er að ræða verðtryggingu launa og vísitölukerfi, er þetta kerfi ákaflega mikið aðhald fyrir stjórnarvöld til þess að draga úr verðbólguþróun. Við þekkjum það frá öðrum Norðurlöndum, þar sem þetta er eitt helzta viðfangsefni ríkisstj. hverju sinni. Af þessu hljótast oft mikil og erfið vandamál, en engu að síður hefur þetta tvímælalaust bremsað verðbólguþróun annars staðar á Norðurlöndum, vegna þess að þar eru ríkisstj., sem eru ábyrgari en stjórnarvöld hér á landi.

Ég komst svo að orði í ræðu minni hér í gær, að það hefði verið sjálfsögð ráðstöfun af hæstv. ríkisstj. að grípa til verðstöðvunar þegar í vor, eftir að samningar voru gerðir. Ég fór ekki dult með þessa afstöðu mína þá. Ég greindi frá henni margsinnis í því blaði, sem ég vinn við, og þetta er engin hugmynd, sem kemur upp eftir á. Um þetta var rætt þegar í vor. Með þessu á ég að sjálfsögðu ekki við það, að verðlagsnefndin hafi getað komið í veg fyrir allar verðhækkanir. Hugmyndir um það efni eru alger fásinna. Ég hef sjaldan orðið eins undrandi á kenningum í kjaramálum eins og þegar ég sá það fyrir tveimur árum eða svo í málgagni Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, að verðlagsnefndin væri orðin einn aðalaðilinn í íslenzku þjóðfélagi og kjarabarátta, venjuleg kjarabarátta ætti ekki lengur við, hún færi fram í verðlagsnefndinni. Kenningar af þessu tagi eru auðvitað barnaskapur. Verðlagsnefndin hefur í sjálfu sér ekki möguleika á að taka ákvarðanir nema um svona frekar minni háttar atriði í sambandi við óðaverðbólguþróun eins og hér. En það eru fleiri aðilar, sem geta gripið inn heldur en verðlagsnefndin.

Ég vil minna á það, hvað við höfum verið að gera hér á Alþ. að undanförnu. Hæstv. ríkisstj. hefur verið að leggja hér fyrir okkur aðgerðir til þess að eyða, eins og hún kallar það, 7.5 vísitölustigum. Hún eyðir að vísu þremur stigum með því að ganga á réttindi og samninga launafólks. En 41/2 stigi eyðir hún á annan hátt. Nákvæmlega þessar sömu aðgerðir gat ríkisstj. gert strax í vor, eftir að kjarasamningarnir höfðu verið gerðir. Og ef hæstv. ríkisstj. hefði gert það eða eitthvað hliðstætt, þá hefði verðlagsþróunin í sumar orðið allt önnur en raun ber vitni, og þá væri staða þjóðfélagsins nú allt önnur en hún er í dag. Í því sambandi er fróðlegt að minna á það, að þjóðarbúið hefur búið við alveg einstaklega ánægjuleg ytri skilyrði að undanförnu. Það eru horfur á því, að þjóðarframleiðsla Íslendinga hækki um 27% að krónutölu frá því í fyrra, 27% að krónutölu. Innan þess ramma rúmast mjög auðveldlega þær kauphækkanir, sem launamenn fengu í vor, án þess að nokkur verðbólguskriða þurfi af því að hljótast. Þessi mikli bati stafar ekki sízt af því, hversu geysileg hækkun hefur orðið á afurðum okkar erlendis. Þær hafa hækkað og hækkað aftur og miklu meira en menn gerðu sér nokkrar vonir um. Þær hafa hækkað miklu meira en þær vörur, sem við flytjum inn til landsins. Ég hygg, að batinn á viðskiptakjörunum nemi nú þegar orðið hátt á annan milljarð kr. á þessu ári. Ég er alveg sannfærður um það, að ef ríkisstj. hefði framkvæmt verðstöðvun eða verðstöðvunaraðgerðir eftir kjarasamningana í vor, hefði verið fullkomlega raunsætt nú í haust að ræða í fullri alvöru um gengishækkun vegna þessara hagstæðu ytri skilyrða. Þá hefðu það ekki verið gervitillögur eins og hjá ríkisstj. í vor, heldur raunverulegt viðfangsefni.

Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisstj. hafi haft af þjóðinni ákaflega mikil tækifæri, sem þjóðin hefði haft nú í haust, með verðbólgustefnu sinni nú í sumar. En ástæðan fyrir þessari öfugþróun og fyrir þessari háskalegu stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt, er að sjálfsögðu sú, að ríkisstj. var þeirrar skoðunar í vor, að kjarasamningarnir, sem gerðir voru, mættu ekki standast. Hæstv. ríkisstj. hefur síðan verið að grafa undan þessum kjarasamningum vitandi vits. Einmitt þess vegna hefur hún látið óðaverðbólguna magnast. Hún hefur látið útborgað kaupgjald hækka hjá almennu launafólki um næstum því 30%, þó að raunveruleg kjarabót sé aðeins 15–18%. Hún hefur látið landbúnaðarvörur hækka upp úr öllu valdi, hún hefur lagt fyrir fjárlög, sem hækkuðu um meira en fjórðung, þegar þau voru lögð hér inn, en mér skilst, að þau muni hafa hækkað um hvað, kannske ein 40%, hæstv. fjmrh., áður en Alþ. hefur lokið við þau. Hæstv. ríkisstj. ætlar að gera nýja kjarasamninga við opinbera starfsmenn, sem munu fela í sér, að mér skilst, allt að 100% hækkun hjá þeim, sem höfðu hæst laun fyrir. Öll þessi þróun er ekki ávísun á kjarabætur fyrir einn eða neinn. Öll þessi þróun stefnir á nýja kollsteypu, nýja óðaverðbólgu og nýja kollsteypu og nýja gengislækkun. Og ég tel, að hæstv. ríkisstj. geri þetta vitandi vits. Ástæðan fyrir þessari þróun er ekki sú, að ráðh. hafi ekki vald á viðfangsefnum sínum. Þeir vita fullvel, hvað þeir eru að gera. En skoðun þeirra er sú, að barátta verkalýðssamtakanna í vor til þess að hnekkja láglaunakerfinu á Íslandi, sú barátta megi ekki verða árangursrík og það verði að hnekkja henni á nýjan leik. Og þessi þokkalega aðferð, þessi óðaverðbólga, er aðferðin til þess.

Um þetta væri hægt að segja margt fleira, en það gefast nú síðar tækifæri til þess. Hins vegar vil ég minna á það, að í umr. um þetta mál, sem er mikið stórmál, hafa tekið þátt fulltrúar þriggja flokka hér á þingi, Alþb., Sjálfstfl. og Framsfl. Það hefur ekki enn heyrzt eitt orð frá Alþfl. Samt hefur mér skilizt það um alllangt skeið, að Alþfl. teldi verðlagsmál og verðlagsþróunina og hagsmuni neytenda mikið sérmál sitt. Ég hef stundum séð á það minnzt í blöðum Alþfl. og heyrt um það talað í ræðum forustumanna hans, að Alþfl. vilji mikið gera til þess að tryggja hagsmuni neytenda. Ég rifjaði það upp hér í gær, að 1. nóv. hefði formaður Alþfl., hæstv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagt um verðstöðvunina 1. nóv.:

„Í síðustu viku var fjallað ítarlega um málið allt í ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar á Alþ. Í þessari viku mun ríkisstj. birta heildartillögur sínar. Það var því sjálfsögð ráðstöfun, að hún skyldi beita sér fyrir því, að engar verðhækkanir ættu sér nú stað. Að öðrum kosti hefðu ýmsir aðilar getað reynt að nota tímann fram til heildarráðstafananna til þess að hækka verð og hagnast á því.“

Þetta sagði formaður Alþfl. Hann var að lýsa því yfir, að fyrirframvitneskja um verðstöðvun yrði til þess, að ýmsir aðilar gætu hækkað verð og hagnazt á því. Mér er nú spurn: Er Alþfl. ekki sammála formanni sínum um þetta? Og ætlar þá Alþfl. að bera ábyrgð á því háttalagi hæstv. forsrh. að auglýsa verðstöðvun með 18 daga fyrirvara? Ef enginn af fulltrúum Alþfl. hér í d. tekur til máls um þetta, þá hlýt ég að líta á það sem þegjandi samþykki við það, að flokkurinn telji þetta hafa verið eðlilega ráðstöfun hjá hæstv, forsrh. En að vísu er það ekki stórmannleg afstaða að lýsa slíku yfir með þögninni einni.