10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (4085)

148. mál, bygging iðnskóla í Keflavík

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 180 að flytja till. um byggingu iðnskólahúss í Keflavík. Sjálf tillgr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á menntmrh. að hraða undirbúningi að byggingu nýs iðnskólahúss í Keflavík fyrir byggðirnar sunnan Hafnarfjarðar í samræmi við óskir sveitarfélaganna á Suðurnesjum til menntmrn. og tryggja jafnframt fjárveitingu í fjárlögum 1971 til þessara framkvæmda. Skal að því stefnt, að skólahúsið verði tilbúið fyrir skólaárið 1972–1973.“

Eins og sést af sjálfri tillgr., er hún flutt áður en fjárlög voru afgreidd fyrir árið 1971. Hún hefur legið nokkuð lengi í hv. d. án þess að koma til umr.

Iðnskólinn í Keflavík hefur starfað sem síðdegis- og kvöldskóli óslitið frá því haustið 1943. Auk þess tvo vetur áður eða alls 29 skólaár. Skólinn hefur verið til húsa í barnaskólanum í Keflavík, eftir að kennslu er lokið þar. Með breytingu á iðnfræðslulögunum frá 11. maí 1966 var nauðsynlegt að breyta skólanum í dagskóla, og var tekið á leigu húsnæði haustið 1969, og 1. bekk, 26 nemendum, var kennt þar s.l. vetur, en 3. bekk kennt síðdegis og á kvöldin í barnaskólanum. Í vetur er þessu hagað þannig, að 1. bekkur er til húsa í leiguhúsnæðinu, þar sem aðeins er hægt að kenna einni bekkjardeild í einu. Verður 2. bekk kennt þar seinni hluta vetrar, þegar 1. bekk er lokið um miðjan jan.

Verður það þó miklum erfiðleikum háð, þar sem skipta þarf 2. bekk í sérgreinakennslu, sem samkv. námsskrá hefst þá. 4. bekkur er aftur á móti til húsa síðdegis og á kvöldin í barnaskólanum eins og áður. Eigi skólinn að geta starfað með eðlilegum hætti næsta vetur, er óhjákvæmilegt, að hann fái aukið húsnæði til umráða, þar sem þá þarf að starfrækja 1., 2. og 3. bekk sem dagskóla. Auk þess þarf að skipta 2. og 3. bekk í fagteiknikennslu og aðrar sérgreinar. Búast má og við, að 1. bekkur verði fjölmennari en svo, að nemendur hans rúmist í einni bekkjardeild.

Í iðnskólanum í Keflavík hefur nemendafjöldi verið sem hér segir: Árin 1943–1953 að meðaltali 24 nemendur, 1953–1963 50 nemendur, 1963–1964 71 nemandi, 1964–1965 81 nemandi, 1965–1966 81 nemandi, 1966–1967 98 nemendur, 1967–1968 103 nemendur, 1968–1969 104 nemendur, 1969–1970 90 nemendur, og á þessu skólaári munu þeir verða eitthvað á annað hundrað.

Í 12. gr. laga frá 11. maí 1966 segir m.a., að iðnskólar skuli vera einn í hverju kjördæmi landsins, þeirra, sem nú eru, svo og starfandi skólar með minnst 60 nemendum, er lög þessi taka gildi. Löggjafinn gerir því tvímælalaust ráð fyrir því, að áfram verði starfræktur iðnskóli í Keflavík, en þar sem framangreindar upplýsingar bera með sér, að það verður ekki gert án þess að byggt verði nýtt skólahús yfir þá starfsemi, þá er þessi till. til þál. flutt.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um till. þessa verði frestað og henni vísað til hv. menntmn.

ATK