25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (4098)

167. mál, Landssmiðjan

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Á síðustu þingum hef ég stundum gert málefni Landssmiðjunnar að umtalsefni, vegna þess að það merka fyrirtæki hefur óneitanlega verið olnbogabarn hæstv. ríkisstj. núna um alllangt skeið. Starfsemi þessa fyrirtækis, sem um skeið hafði forustu í málmiðnaði á Íslandi, hefur dregizt stórlega saman, og ástæðan er ómótmælanlega hrein óvild af hálfu ráðamanna. Fyrirtækið hefur ekki fengið þá fyrirgreiðslu og þá fjárhagslegu aðstoð, sem þurft hefði, til þess að það gæti fylgzt með þróuninni og haldið áfram þeirri forustu, sem það hafði áður í járniðnaði á Íslandi. Þessi afstaða til fyrirtækisins hefur oft komið fram á hinu háa Alþingi. Ég vil minna á það, að þegar ég ræddi um hag Landssmiðjunnar, ég held, að það hafi verið á s.l. ári, þá kom hæstv. iðnrh. hér upp og taldi, að þetta fyrirtæki væri í miklum fjárhagslegum þrengingum og fengi engan veginn staðizt nema með annarlegri aðstoð af hálfu ríkisins. Ég gat þá nokkru síðar vitnað í sjálfa reikninga fyrirtækisins til sönnunar því, að fyrirtækið hafði raunar skilað smávegis ágóða á árinu á undan. Þá urðu viðbrögð hæstv. ráðh. þau, að hann gaf það mjög ótvírætt í skyn hér í þessum stóli, að þessir reikningar væru ekki heiðarlega samansettir. Ég bað hæstv. ráðh. að gera grein fyrir því þá, hvernig á þeim ásökunum stæði, en hann gerði það nú raunar ekki og hefur ekki gert það síðan. Hins vegar bar þetta vott um mjög takmarkaða velvild í garð þessa fyrirtækis, og sú afstaða náði reyndar hámarki á s.l. ári, þegar Sjálfstfl. lagði það til, að Landssmiðjan yrði lögð niður. Um þetta var flutt sérstök till. innan ríkisstj. Hins vegar náði sú till. ekki fram að ganga, vegna þess að ráðherrar Alþfl. vildu ekki á hana fallast. Þegar þessi staðreynd kom í ljós hér á hinu háa Alþingi, þá lagði ég til ásamt hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að Alþ. yrði látið skera úr um það, hvort Landssmiðjan ætti að halda áfram störfum eða ekki. Ég taldi, og við flm. töldum fullar líkur á því, að meiri hl. Alþ. vildi, að Landssmiðjan starfaði áfram og fengi þá aðstöðu af hálfu ríkisins, sem til þess þyrfti, og ef það hefði fengið að koma í ljós þá, var það að sjálfsögðu skylda ríkisstj. að framkvæma þá stefnu. Hins vegar fór svo um þessa till., eins og ýmsar aðrar till., sem við stjórnarandstæðingar flytjum, að hún var svæfð í nefnd. Þess vegna hef ég enn einu sinni tekið þetta mál upp hér á þingi ásamt hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, og við leggjum til, að gerðar verði áætlanir um endurskipulagningu Landssmiðjunnar í þeim tilgangi, að afkastageta fyrirtækisins verði nýtt til fullnustu. Skulu þær áætlanir m.a. taka mið af áformunum um þurrkví í Reykjavík og endurskipulagningu verkstæða, sem starfrækt eru á vegum ríkis og ríkisstofnana. Áætlanir þessar skulu lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ. ásamt till. um fjáröflun til þess að koma vélakosti og rekstri Landssmiðjunnar í nútímalegt horf.

Ég mun ekki að þessu sinni fara frekar út í sögu Landssmiðjunnar, ég hef minnzt á hana hér áður á undanförnum þingum og sé ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka þá frásögn. Hins vegar er ástæða til þess að vekja athygli á því, að ástæðan til þess, að Landssmiðjan hefur verið olnbogabarn hjá hæstv. ríkisstj., er pólitísk kredda, sérstaklega annars stjórnarflokksins, Sjálfstfl. Það er afstaða hans, almenn afstaða hans, að það eigi að vera verkefni einkaaðila að standa fyrir atvinnurekstri á Íslandi og að það sé rangt, að opinberir aðilar séu aðilar að slíkum atvinnurekstri yfirleitt. Í samræmi við það reyndi ríkisstj. sérstaklega í upphafi göngu sinnar að skerða opinber fyrirtæki á Íslandi. Ég vil minna á, hvernig farið var með Viðtækjaverzlun ríkisins einmitt á sama tíma og óvenjulegar tekjur sköpuðust af innflutningi sjónvarpstækja. Þá var þetta ríkisfyrirtæki lagt niður og þessir miklu tekjuöflunarmöguleikar afhentir einstaklingum. Ég vil minna á mál, að vísu ekki sérlega stórt, en þó athyglisvert. Það var ákveðið hér á síðasta þingi að skerða tekjur sjálfrar áfengiseinkasölu ríkisins, sem er nú afkastamesta mjólkurkýr hæstv. ríkisstj., með því að skerða þær vörur, sem verzlunin hafði á boðstólum, og afhenda þær einkaaðilum. Þetta skerti tekjur áfengiseinkasölunnar um nokkrar millj. kr. á ári og átti að vera eins konar snuð upp í fjáraflamenn, sem vilja sitja yfir slíkum gróða. Það er af þessum ástæðum, sem sú ósk hefur verið uppi innan hæstv. ríkisstj. að leggja Landssmiðjuna niður.

En það er mjög fróðlegt í þessu sambandi að velta því fyrir sér, að þessi stefna ríkisstj. hefur engan veginn staðizt. Þvert á móti hefur það verið eitt veigamesta verkefni stjórnarvaldanna um langt skeið að skipuleggja hvers kyns opinbera aðstoð við atvinnufyrirtæki, sem verið hafa í höndum einstaklinga, og leggja fram stórfellda opinbera fjármuni til þess að bjarga slíkum fyrirtækjum, þegar þau hafa lent í vandræðum. Þar hefur viðhorfið verið býsna ólíkt því, sem viðhorfið til Landssmiðjunnar hefur verið. Má ég minna á fyrirtæki eins og t.d. Álafoss? Árið 1967 lá það fyrir, að það fyrirtæki var að sökkva í botnlaust skuldafen óreiðu og vanskila upp á tugi millj. kr. Þá var gripið til þess ráðs, að Framkvæmdasjóður var látinn leggja fram stórfé til þess að halda fyrirtækinu gangandi, bjarga því. 28 millj. af skuldum fyrirtækisins við Framkvæmdasjóð var breytt í hlutabréf, og síðan var samið um það, að 43 millj. skyldu greiðast upp á 10 árum með 81/2% vöxtum. Jafnframt var hlutur eignaraðilanna hækkaður og metinn upp í 2 millj. kr., en opinbert fjármagn var orðið mikill meiri hluti af eigum fyrirtækisins, þegar þessari endurskipulagningu var lokið. Allt var þetta ákaflega óvenjulegt, en þarna var af hálfu ríkisstj. gripið inn í á félagslegan hátt til þess að bjarga þessu fyrirtæki frá hruni. Þarna var um að ræða ákaflega einkennilega tegund þjóðnýtingar, ef svo mætti að orði komast. Það var tekið almannafé til þess að bjarga einkaaðila. Og vissulega var fullur skilningur á því, að þetta mikilvæga fyrirtæki þyrfti að halda áfram störfum. En anzi er ég hræddur um, að það hafi ekki aðeins verið þetta, sem rak á eftir hæstv. ríkisstj. í þessu máli, heldur hitt, að þarna var um að ræða einstaklinga, sem höfðu góð sambönd, og það þurfti að bjarga fyrirtæki þeirra. Og mér er ekki grunlaust um, að þegar það hefur tekizt, ef það tekst þá, að koma þessu fyrirtæki aftur á fjárhagslega heilbrigðan grundvöll, þá sé það ætlun ríkisstj. að afhenda þetta fyrirtæki aftur hinum upphaflegu einkaaðilum, sem voru búnir að steypa því í glötun. Þetta er dæmi um það, að ríkisstj. telur það engan veginn óeðlilegt að nota fjármagn almennings til þess að bjarga atvinnufyrirtækjum. Þessi meginregla Sjálfstfl. var þverbrotin í þessu dæmi, og dæmin um það eru ákaflega mörg önnur.

Má ég minna menn á annað dæmi, alþekkt. Það er Slippstöðin á Akureyri. Það fyrirtæki er gott dæmi um það, hvernig farið er að því að stofna atvinnufyrirtæki á Íslandi. Þegar þetta fyrirtæki er stofnað, er hlutafé þeirra einkaaðila, sem taldir eru eiga fyrirtækið, 145 þús. kr. Það eru tæplega tveggja mánaða laun ráðh. um þessar mundir. Síðan var fyrirtækið þróað með almennu lánsfé úr lánastofnunum, þ.e. með sparifé almennings, með eigin fjármagni bankanna og opinberum sjóðum. Þarna var sem sé um að ræða almennt fjármagn almennings, og auðvitað var það þetta fjármagn, sem var hið raunverulega hlutafé, þótt það væri ekki skráð sem hlutafé. Það voru aðeins þessar 145 þús. kr., sem voru skráðar sem hlutafé, og þeir menn, sem taldir voru eiga þessar 145 þús. kr., voru taldir eiga fyrirtækið. Síðan lenti þetta fyrirtæki í miklum vandræðum, þannig að samkv. hinum venjulegum reglum í auðvaldsþjóðfélagi, sem Sjálfstfl. telur sig aðhyllast, hefði það fyrirtæki átt að vera gjaldþrota. En þá er ákveðið að hlaupa undir bagga. Ríkissjóður leggur fram 10 millj. kr. af almannafé. Það voru skuldir fyrirtækisins við ríkissjóð. Akureyrarbær leggur fram 15 millj. Það voru skuldir fyrirtækisins við Akureyrarbæ. KEA lagði fram 5 millj., Eimskipafélagið 2 millj., og síðan var hlutur einkaaðilanna, þessar 145 þús., hækkaður upp í 6 millj. Það er 4000% ávöxtun og þykir gott, jafnvel á verðbólgutímum. En á þennan hátt var þetta fyrirtæki gert að félagslegri eign. Þau fyrirtæki, sem þarna er um að ræða, ríkissjóður og Akureyrarbær og KEA og jafnvel Eimskipafélagið, eru á vissan hátt félagslegs eðlis og sérstaklega auðvitað ríkissjóður og Akureyrarbær, þannig að þarna er um að ræða félagslega eign. Þetta er gert til þess að bjarga þessu fyrirtæki, vegna þess að það er viðurkennt, að það verði að halda því gangandi, það sé mikilvægt af þjóðhagslegum ástæðum og til þess að tryggja atvinnu á Akureyri. Og sízt hef ég á móti því sjónarmiði. En einnig þarna grunar mig, að séu að verki hin frægu sambönd og það sé ekki ætlunin að láta þetta fyrirtæki þróast á félagslegum grundvelli áfram, ef það kemur undir sig fótunum, heldur muni þá vera ætlunin að afhenda hinum svo kölluðu einkaeigendum það á nýjan leik. A.m.k. kom það mjög greinilega fram í blaði Sjálfstfl. á Akureyri á s.l. vori, því að þar var komizt svo að orði:

„Það er skoðun sjálfstæðismanna, að bær og ríki eigi að selja hluti sína í Slippstöðinni eins fljótt og viðunandi tilboð fæst í hlutabréf þeirra, þegar rekstur fyrirtækisins er kominn í gott horf.“

Sem sé, það má nota fjármuni almennings, þegar fyrirtækin eru að hrynja, en þegar fyrirtækin fara að græða, þá á að afhenda þau einkaaðilum. Það er tvískinnungur af þessu tagi, sem er auðvitað óeðlilegri en flest annað í þjóðfélaginu. Ef Sjálfstfl. væri alvara með þá stefnu, sem hann þykist fylgja, þá verður hann líka að framkvæma hana á þann hátt, að þeir einkaaðilar, sem reka fyrirtækin, beri ábyrgð á því, þegar þeim tekst ekki að reka þau.

Það væri hægt að minnast á fjölmörg önnur fyrirtæki af svipuðu tagi. Menn muna eftir ölgerðinni Sana á Akureyri, en henni varð að bjarga á hliðstæðan hátt með ýmiss konar opinberri fyrirgreiðslu. M.a. gaf ríkissjóður mjög óvenjulegan gjaldfrest á greiðslum Sana í ríkissjóð, og fór því mjög fjarri, að önnur fyrirtæki nytu slíkrar fyrirgreiðslu. Og meira að segja var Tóbaks- og áfengisverzlun ríkisins látin standa í þjónustustarfsemi fyrir þetta fyrirtæki um skeið. Má ég minna á dæmi eins og stórhýsi Kr. Kristjánssonar við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Þar var um að ræða nýja og mikla verzlunarhöll, sem tekið var að byggja eftir bílavertíðina miklu. Sú bygging komst í þrot, og gjaldþrot blasti við eigendunum. En þá voru það stjórnarvöld, sem hlupu upp til handa og fóta með björgunarstarfsemi, raunar á mjög dularfullum forsendum, en þó þannig, að þessu stórhýsi var breytt í hótel, m.a. með einhvers konar aðild hæstv. ríkisstj. og ríkisbanka.

Ég gæti minnzt á mörg dæmi önnur af þessu tagi, og ég hygg, að allir alþm. viti um slík dæmi. Og eins og ég sagði áðan, er ég síður en svo að hafa á móti því, að ríkisvaldinu sé beitt til þess að tryggja atvinnuöryggi á Íslandi. Það tel ég vera verkefni ríkisvaldsins, jafnvel þó að Sjálfstfl. boði þveröfuga stefnu í orði. En þessi aðferð, sem ég hef verið að greina frá þarna, er ákaflega óeðlileg. Hún býður heim hvers konar mismunun, hún hefur það í för með sér, að sumum fyrirtækjum er hjálpað, en öðrum, sem kannske stendur alveg eins á fyrir, er ekki hjálpað. Þetta býður heim hvers konar spillingu. Þetta býður heim mismunun, sem byggist á hinum frægu samböndum, sem mikið er talað um í þjóðfélaginu. Og það er þetta, sem gerir slíka atburði ákaflega hættulega, vegna þess að þeir grafa undan trausti almennings á stjórnarfarinu í landinu mjög svo eðlilega.

En ástæðan til þess, að jafnvel ríkisstj., sem er á móti opinberum afskiptum, leggur samt út í aðgerðir eins og þessar, er að sjálfsögðu sú, að þjóðfélag okkar er svo lítið, að það er ekki hægt að starfrækja hér kapítalískt þjóðfélag á sama hátt og gert er í stærri þjóðfélögum. Við getum ekki byggt hér upp meiri háttar atvinnutæki og rekið þau nema með mjög virkri aðstoð ríkisins, og þeir menn, sem ekki viðurkenna þetta, eru blindaðir af kreddu. Það er fátt hættulegra en einmitt slík kreddutrú, og mér finnst, að menn, sem lengi eru búnir að starfa að þessum málum, jafnvel áratugum saman sumir, ættu að vera farnir að átta sig á þessari reynslu og þeir ættu að vera horfnir frá kreddum, sem þeir vita, að duga ekki við íslenzkar aðstæður. Það er staðreynd, að ef við ætlum sjálfir að hafa vald á efnahagskerfi okkar, ef við ætlum að gerast stærri heild, þá koma ný lögmál. En ef við ætlum að hafa sjálfvirkt vald á efnahagskerfi okkar, þá verðum við að beita ríkisvaldinu til forustu á sumum sviðum og til virkrar aðstoðar á öðrum sviðum. Og þá eigum við ekki að segja í öðru orðinu, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa afskipti af þessum málum, en vera samt jafnframt önnum kafnir við að veita slíka aðstoð. Við eigum að viðurkenna þessa staðreynd, að ríkisvaldið verður að hafa forustu á þessu sviði og við eigum að efla þau fyrirtæki, sem ríkið á á þessum sviðum, þ. á m. fyrirtæki eins og Landssmiðjuna. Málmsmíði er ákaflega mikilvæg iðngrein hér á landi og hlýtur að verða iðngrein, sem er undirstaða fjölmargra annarra. Þessi iðngrein er enn þá á byrjunarstigi, þótt þar hafi orðið merk þróun. En við þurfum að efla hana eins og við erum menn til. En til þess að það megi takast, verður þáttur ríkisins einnig að verða öflugur. Ég lít svo á, að Landssmiðjan sé einmitt sjálfsagt tæki til þess, að ríkisvaldið geti beitt sér fyrir því, að málmiðnaður eflist á Íslandi, og af þeim ástæðum er þessi till. okkar flutt. Ég vænti þess, að hún fái hér eðlilegar undirtektir, og ég vænti þess, að hún fái raunsæjar undirtektir, einnig hjá Sjálfstfl., einmitt vegna þess, að hann hefur þessa reynslu, að þeir menn, sem ábyrgðina bera, einnig ráðh. Sjálfstfl., komast ekki hjá því að standa í stöðugri fyrirgreiðslu við atvinnufyrirtæki. Og þegar ekki verður komizt hjá slíkri stefnu, þá eiga menn að viðurkenna þá staðreynd í verki.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. iðnn.