27.03.1971
Neðri deild: 74. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (4115)

290. mál, hlutafélag til kaupa og reksturs á verksmiðjutogara

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekkert um það dæma, hvort það hefur kostað þjóðina hundruð millj. kr., að hlutafélagið Úthaf hafi ekki fest kaup á verksmiðjutogurum fyrir nokkru síðan eða 1–2 árum. Um það vil ég aðeins segja það, að þær umsagnir, sem ríkisstj. fékk um þau skipakaup, voru þannig, að þær voru neikvæðar að skoðun ríkisstj. Þeir sérfræðingar, sem um þau mál fjölluðu fyrir hönd ríkisstj., geta svarað fyrir sig um það. En það er eitt mál, sem ég vil nefna í þessu sambandi, og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs. Af hverju eigum við Íslendingar að vera að kaupa verksmiðjuskip? Það eru þau hættulegustu skip, sem gætu komið á okkar landgrunn, og á meðan við erum að berjast fyrir því að tileinka okkur sjálfir landgrunnið og eigum verksmiðjurnar hér í landi, þá vil ég ekki stuðla að því, að við hefjum rekstur verksmiðjutogara. Það eru ekki aðeins þessir togarar, sem hv. þm. talaði um. Menn tala nú um verksmiðjuskip, sem með rafmagnsgeislum og annarri tækni beinlínis sópa upp miðin. Ég vil heldur standa þannig að vígi, ef til þess skyldi koma, að við þyrftum að beita mikilli hörku til þess að reka slíka áþján af okkar miðum, að við sjálfir hefðum ekki stofnað til slíkrar útgerðar til þess að reka á fjarlægum miðum hjá öðrum þjóðum.