27.03.1971
Neðri deild: 74. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (4117)

290. mál, hlutafélag til kaupa og reksturs á verksmiðjutogara

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hlutafélagið Úthaf var algert aukaatriði í mínu máli, eins og ég held, að allir þm. hafi skilið, nema þessi síðasti hv. ræðumaður. Ég sagði það, að ég ætlaði ekki að skipta mér af því máli, nefndi bara, að ríkisstj. hefði fengið neikvæðar umsagnir í sambandi við málið og þeir sérfræðingar, sem þar hefðu tjáð sig um, yrðu að svara fyrir sig. Þetta var alveg aukaatriði. Aðalatriði ræðu minnar var þetta, að ég vil ekki standa að því að gera út verksmiðjutogara frá Íslandi á fjarlæg mið á sama tíma sem ég óttast langmest þennan ófögnuð á íslenzk mið. Við skulum hagnýta okkar mið fyrir okkar skip og okkar verksmiðjur, sem eru í landi. Okkar stóri verksmiðjutogari, það er landið sjálft. Við skulum vera lausir við það, að aðrir bendi á okkur og segi: Þið gerið út togara á mið hjá öðrum löndum. Því skyldum við ekki koma á ykkar mið? Þetta er aðalatriðið.