04.03.1971
Efri deild: 57. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (4126)

223. mál, neysluvatnsleit

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er raunar kunnugra en svo, að um þurfi að ræða hér, að allar kröfur um meðferð matvæla hafa mjög aukizt upp á síðkastið. Það má segja, að það sé einn þáttur í þeirri viðleitni að reyna að stuðla að betri meðferð umhverfis og heilsu manns. M.a. var rætt um sláturhúsin hér í gær í sambandi við Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Ef ég man rétt, þá er aðeins eitt sláturhús hér á landi með leyfi til þess að flytja sauðfjárafurðir á Bandaríkjamarkað.

Á sviði fiskvinnslu hafa verið uppi svipaðar raddir. Árið 1966 var lagt fram frv. í Bandaríkjaþingi um mjög strangt eftirlit og kröfur um vinnslu á fiski, og síðan hafa hvorki meira né minna en sex skyld frv. séð þar dagsins ljós. Er fullyrt, að slíkt frv. verði að lögum á þessu ári.

Við þessu var réttilega brugðizt, þannig að 25. ágúst 1969 var sett á fót tillögunefnd um hollustuhætti í frystiiðnaði, og er hennar hlutverk fyrst og fremst það að fylgjast með gangi þessara mála í Bandaríkjunum og leiðbeina íslenzkum aðilum um endurbætur á sviði fiskvinnslu, sem í því sambandi verða nauðsynlegar. Ég ætla ekki að rekja hér ítarlega, hverjar þær eru, en í fáum orðum má skipta þeim í tvennt. Annars vegar endurbætur, sem nauðsynlegar verða af hálfu frystihúsanna sjálfra, og hins vegar endurbætur, sem sveitarfélögin verða að sjá um og eru einkum á umhverfi og aðbúnaði frystihúsanna á hverjum stað. Þetta hefur einnig verið mikið rætt m.a. á ráðstefnu sveitarfélaga um umhverfismál, sem haldin var fyrir tveimur helgum. Kom þar fram, hverjar þessar kröfur eru. Jafnframt kom þar fram, að nefndin hafði gert ráð fyrir því og lagt til, að hið opinbera réði sérfræðinga til leiðbeiningar fyrir sveitarfélög og frystihús um þær ráðstafanir, sem gera þarf, en það hafði ekki fengizt. Sé ég ástæðu til þess að harma það.

Ég ætla ekki að ræða um hina fjölmörgu þætti, sem þarna koma við mál. Þeir eru mjög mikilvægir, og verður að vinda bráðan bug að undirbúningi og endurbótum, ekki sízt með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir því, að frestur til þess að koma hlutunum í viðeigandi lag verði aðeins veittur í tvö ár, eftir því sem sumir segja, en aðrir jafnvel í eitt ár, eins og kom fram í viðtali við Kanadamenn.

Einn er þó sá þáttur, sem hér er tekinn út úr með þessari þáltill. Það er aðstoð vegna rannsókna á neyzluvatni eða vegna neyzluvatnsleitar. Það er gert vegna þess, að slík rannsókn er tímafrek og við flm. teljum, að með undirbúning megi alls ekki bíða með tilliti til þess stutta frests, sem veittur er á framkvæmdum á þessu sviði. En væntanlega er óllum ljóst, að neyzluvatn er mjög mikilvægur þáttur í þeim endurbótum, sem víða þarf að gera. Það er þáttur, sem hvílir á sveitarfélögunum. Víða hefur verið leitað að fersku og góðu vatni, en það hefur víða mistekizt, vegna þess að grundvallarupplýsingar hafa ekki legið fyrir. Um þetta var sérstaklega rætt í tveimur erindum á þeirri fyrrnefndu ráðstefnu, sem ég gat um áðan, m.a. í erindi hjá Jóni Jónssyni jarðfræðingi, þar sem hann skýrði allítarlega frá ástandi þessara mála. Þar kom fram, að á svo nefndu blágrýtissvæði landsins, sem er nokkurn veginn Vestfirðir, Norðvesturland, Austfirðir og jafnvei Suðausturland, sé af jarðfræðilegum ástæðum vissum erfiðleikum bundið að benda á neyzluvatnslindir. Hann sagði orðrétt, eins og tekið er fram í grg., að von um neyzluvatn á því svæði væri einkum bundin við staði, „þar sem færa má sönnur á tilvist meiri háttar sprungukerfis. Varla er þetta hugsanlegt án meiri háttar jarðfræðirannsókna.“

Rannsóknaráð ríkisins gerði sér grein fyrir þessu, og var því m.a. með tilliti til þessa verkefnis lagt til á s.l. ári, að við Orkustofnun yrði komið upp svo nefndri jarðkönnunardeild, sem hefði það hlutverk í fáum orðum að sinna ýmsum hagnýtum jarðfræðiverkefnum fyrir framkvæmdaaðila í landinu, eins og t.d. vegagerð, hafnargerð og leit að neyzluvatni, og margt fleira mætti nefna. Gert var ráð fyrir því, að stofnunin tæki að sér slík verkefni, þar sem um það væri að ræða, samkv. beiðni og fyrir ákveðið gjald, en engu að síður hefur ávallt verið talið ljóst, að stofnunin yrði að sinna ýmsum umfangsmiklum grundvallarrannsóknum til þess að geta gert sínar áætlanir um þær rannsóknir, sem nær eru framkvæmdum og stundum eru nefndar hagnýtar. Það skal viðurkennt, að fjárhagsáætlun þessarar deildar kom seint fram, og náðist því ekki fjárveiting inn á fjárlög þessa árs. Er varla við nokkurn að sakast um þetta, því um töluverðan undirbúning að þessu máli var að ræða. Hins vegar hefur verið leitað eftir fjármagni síðar og ekki fengizt, þrátt fyrir mjög sterkan stuðning sérfræðinga, sem á sviðum fiskvinnslu starfa. Okkur flm. sýnist, að við svo búið megi ekki sitja, og töldum við því nauðsynlegt að hreyfa þessu máli hér á Alþ.

Þess má geta, að 28. jan. s.l. var haldinn fundur á vegum Orkustofnunar, þar sem til voru fengnir ýmsir sérfræðingar úr fiskiðnaðinum og málin rædd. Þetta verkefni hlaut þar, eins og raunar í fyrri viðræðum, sem fóru þar fram við sérfræðingana, mjög ákveðinn stuðning. Var gerð nokkur úttekt á ástandi þessara mála hér á landi. Þar kemur m.a. fram, að af 58 stöðum eru 33 staðir með viðunandi neyzluvatn, 16 staðir eru með lélegt neyzluvatn, þar sem þörf er brýnna aðgerða og mikil þörf fyrir rannsóknir, en 9 staðir eru merktir þannig, að úrbóta sé þörf. Þessir staðir eru taldir upp í fundargerð, en ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að fara yfir það.

Þarna er einnig getið um verkefni slíkrar jarðkönnunardeildar. Kom mönnum saman um, að það þyrfti að vera: Að rannsaka jarðvísindalega og tæknilega, hvaða framtíðarmöguleikar eru á hverjum stað til neyzlu- og iðnaðarvatnsöflunar; að safna saman á einn stað upplýsingum um rannsóknir, sem til þessa hafa farið fram á öflun neyzluvatns til almenningsnota og iðnaðar á Íslandi; að gera sér grein fyrir því, hversu vel er séð fyrir vatnsþörfinni á hverjum stað; að gera áætlanir um framtíðarþarfir fyrir neyzluvatn á hverjum stað og að gera till. um ráðstafanir til þess að friða svæði og varðveita þá möguleika til vatnsöflunar, sem fyrir hendi eru frá náttúrunnar hendi. Verkefni þessarar deildar eru þannig töluvert viðamikil, og var áætlað, að þessi starfsemi gæti komizt sæmilega af stað á þessu ári með fjárveitingu að upphæð u.þ.b. í millj. kr.

Einnig hefur Orkustofnun athugað völ á sérfræðingum, og kemur í ljós, að það ætti að vera hægt að sinna á þessu ári mikilvægri jarðkönnun með þeim sérfræðingum, sem fyrir hendi eru, og aðstoðarmönnum, sem fengjust á næsta sumri.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál meira, enda er grg. með þáltill. nokkuð ítarleg, og koma þar fram þau meginsjónarmið, sem ég hef nú minnzt á. Ég vil þó að lokum leggja áherzlu á það, að hér er um grundvallarrannsókn að ræða, sem alls ekki er hægt að ætlast til, að sveitarfélögin á hverjum stað sinni. Slíkum rannsóknum fylgir oft töluverð áhætta og óvissa um niðurstöður, enda hefur það ávallt verið viðurkennt sem eitt af þjónustuhlutverkum hins opinbera að sinna slíkum grundvallarrannsóknum og veita þeim, sem þurfa, aðgang að þeim upplýsingum, sem þannig fást. Þessar rannsóknir eru hins vegar töluvert umfangsmiklar og taka sinn tíma, og vil ég því að lokum enn leggja áherzlu á það, að rannsóknunum og athugununum má ekki fresta með tilliti til þess skamma tíma, sem við Íslendingar höfum til ráðstöfunar til þess að bæta okkar frystiiðnað, m.a. gæði þess vatns, sem þar er notað. Legg ég svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til heilbr.- og félmn.