28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (4137)

314. mál, Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Hinn 16. sept. s.l. sendi starfsfólk hinnar svo nefndu Siglóverksmiðju á Siglufirði iðnrn. áskorun, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Starfsfólk Sigló-verksmiðjunnar á Siglufirði beinir þeim tilmælum til iðnrn., að það veiti nú þegar fjárhagslega fyrirgreiðslu, til þess að verksmiðjan geti keypt a.m.k. 10 þús. tunnur af síld, ef hún býðst í haust og vetur.“

Þessari áskorun var stuttu síðar fylgt eftir af hálfu stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, sem fer með stjórn Sigló-verksmiðjunnar, en stjórnin samþykkti með 6:1 atkv. eindregnar undirtektir undir þessa áskorun. Ástæðan til þessarar áskorunar er sú, að hráefni verksmiðjunnar var á þrotum, og nú sennilega alveg þrotið, og ef ekki væri að gert, mundu 100 manns, sem vinna við verksmiðjuna, missa atvinnu sína. Og þetta gerist, þegar atvinnuhorfur eru að öðru leyti með allra versta móti á Siglufirði. Það er því óhætt að fullyrða, að beðið mun með nokkurri óþreyju eftir svari við fsp. þeirri, sem ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 20, svo hljóðandi:

„Hver hafa verið viðbrögð iðnrn. við áskorun starfsfólks Sigló-verksmiðjunnar um, að verksmiðjunni verði veitt fyrirgreiðsla til þess að kaupa hráefni til vinnslu?“