28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (4139)

314. mál, Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, og einnig ber að þakka fyrirgreiðslu hans og annarra aðila. Þetta var að vísu nokkuð löng lesning, og ég verð að játa, að ég áttaði mig ekki fyllilega á niðurstöðunum, en eftir því sem ég kemst næst, þá eru allar horfur á því núna, að Siglóverksmiðjunni verði tryggðar 7400 tunnur til vinnslu, þannig að segja má, að þarna hafi verið orðið við óskum starfsfólksins a.m.k. að 3/4 hlutum. En það vakna að sjálfsögðu fleiri spurningar í þessu sambandi og ekki hvað sízt eftir ræðu hæstv. ráðh. Hvað verður um Sigló-verksmiðjuna í framtíðinni? Hæstv. ráðh. talaði um hallarekstur í þessu sambandi, og tölur sýna það eflaust, þó að mér skiljist nú, að nokkur ágóði hafi stundum orðið. En ástæðan fyrir hallarekstri er án efa sú, hvað lítið hefur farið fyrir fyrirgreiðslu hins opinbera varðandi þetta fyrirtæki. Eins og hæstv. ráðh. vék að, hefur það lengi verið ósk manna, ekki hvað sízt þeirra, sem þarna eiga helzt hagsmuna að gæta, Siglfirðinga sjálfra, og raunar líka stjórnar SR, að Siglóverksmiðjan verði sett undir sérstaka stjórn. En einnig hafa verið uppi grunsemdir um það, að stjórnarvöld gætu hugsað sér að selja þetta fyrirtæki í hendurnar á einstaklingum, og ég býst nú við, að flestir hafi gert ráð fyrir því, að það yrðu þá Íslendingar, en eftir ræðu hæstv. ráðh. að dæma, eru Svíar komnir þarna í spilið. Ég ætla ekki að dæma um, til hvers samningar við sænska aðila kunna að leiða, en hitt er víst, að vilji manna er sá, að þetta verði eftir sem áður ríkisfyrirtæki. En helzti gallinn á þessu hefur verið sá, að stjórn SR hefur haft með stjórn Sigló-verksmiðjunnar að gera ásamt mörgum sínum verkefnum, erfiðum og víðtækum, og einstakir aðilar, sem mestu hafa um þetta ráðið, eru jafnframt helztu postular einkaframtaksins hér á Íslandi, og þess vegna er ekki þess að vænta, að þeir beri svo mjög hag ríkisfyrirtækis fyrir brjósti. Það er ekki að efa, að rekstur þessarar verksmiðju hefði getað verið allur með öðrum hætti, og að sjálfsögðu hefur markaðsöflunin verið hreint kák á undanförnum árum. Ég ætla ekki að fara neitt út í þá sálma að ráði, en ég er sannfærður um það, að gróðamenn mundu eflaust, ef þeir fengju tækifæri til, hugsa gott til þess að reka verksmiðju eins og Sigló-verksmiðjuna, ef þeir teldu sig þá geta treyst því, að áframhald yrði á þeirri stjórnarstefnu, sem greinilega hefur að sama skapi mikla velþóknun á einkarekstri sem hún hefur hana litla á félagslegum rekstri eða ríkisrekstri.