28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (4141)

314. mál, Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem niðurlagningarverksmiðja ríkisins er á dagskrá hér í þinginu. Hún hefur fyrr verið í erfiðleikum, og þá hefur verið leitað, eins og kallað er, á náðir ríkisstj., og það hefur verið hægt þá að bæta eitthvað úr, skaffa peninga til að kaupa síld og leggja niður, sem svo hefur selzt á sæmilegu verði. Mér finnst eitthvað að í þjóðfélagi eins og okkar. Við erum þjóð, sem byggjum tilveru okkar að langmestu leyti á sjávarútvegi. Við strendur Íslands hefur verið fáanlegt, þó að það sé erfiðleikum bundið núna, eitt það bezta hráefni, sem hægt er að fá, sem er síldin okkar. Hún hefur á síðustu áratugum verið flutt út sem hráefni handa öðrum þjóðum til að vinna. Svo er loksins hafizt handa um það að byggja upp niðursuðuverksmiðju. Þegar það var gert á sínum tíma, þá voru sumir með ólund í sambandi við þá stofnun og eru enn.

Ég hef líkt niðurlagningarverksmiðju ríkisins við olnbogabarn, og það er ekkert ofmælt. Fyrirtækið var fyrst sett í lélegar byggingar. Það voru alls ekki þær vélar, sem þar hefðu bezt verið komnar, og það var alltaf skortur á rekstrarfé. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst ófært, að stjórnendur svona fyrirtækis þurfi að vera inni á gafli hjá ráðh. og taka frá þeim þeirra dýrmæta tíma kannske marga tíma á dag, kannske oft á ári til að útvega rekstrarfé handa fyrirtæki eins og þessu. Ég verð að segja það, að mér finnst, að það eigi að vera bankanna verk.

Nú hefur verið skrifað um það, og það hefur komið hér fram, að þetta fyrirtæki hafi verið rekið s.l. ár og þetta ár með miklu tapi. Það er alveg rétt. Það var tap 1968. Það var hagnaður 1969. Það hefur alltaf verið sagt, að það hafi stafað af gengislækkuninni, og það er rétt, en engu að síður var hagnaður, en það er fyrirsjáanlegur halli núna 1970. En þá er vert að hafa í huga, að á árunum 1968, 1969 og 1970 er búið að borga Síldarverksmiðjum ríkisins um 6 millj. kr. í húsaleigu, sem þessar verksmiðjur, sem eru eign ríkisins líka, hefðu ekki fengið annars. Það má hafa það líka í huga. Þá má líka hafa það í huga, að á þessum árum er Síldarverksmiðjum ríkisins borgað 1.2 millj. fyrir bókhald. Það er greitt fólki, sem hefði verið þarna á staðnum hvort sem var. Þá er á þessum árum búið að borga í útflutningsgjöld um 2.6 millj. kr. Þarna er tapið. Það er á reikningunum 10 millj. Það eru 6 millj., sem eru greiddar SR, sem þær hefðu annars ekki fengið. Það eru 1.2 millj., sem hafa verið greiddar verksmiðjunum, og hitt fékk ríkið í útflutningsgjald. Ástandið er nú ekki verra en þetta. En það er á annað hundrað manns, sem fær þarna vinnu við þetta fyrirtæki.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu um niðurlagningarverksmiðju ríkisins, en ég vildi benda á þetta hérna. Ég vil þakka þá fyrirgreiðslu, sem nú hefur verið látin í té, en ég vona, að það takist að afla 2500 tunna í viðbót, svo að hægt sé að kaupa, eins og áætlað var, 10 þús. tunnur fyrir vinnslu á næsta ári í niðurlagningarverksmiðju ríkisins í Siglufirði.