28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í D-deild Alþingistíðinda. (4147)

310. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Varðandi það, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til frá umr. hér á hinu háa Alþingi í fyrra í tilefni af till., sem þá lá fyrir, að æskilegt væri að rýma geymslur safnsins og koma þeim verkum, sem þar eru geymd, fyrir annars staðar, þá er það að segja, að ég bauð stjórn Listasafnsins þegar í stað að taka húsnæði á leigu annars staðar, til þess að hægt væri að koma þessum verkum í geymslu utan Þjóðminjasafnshússins og sú leiga mundi verða greidd. En að vandlega athuguðu máli og eftir að ýmiss konar húsnæði hafði verið skoðað, varð stjórn Listasafnsins á einu máli um það að þiggja ekki þetta boð, heldur leggja áherzlu á það, að heildarhúsnæðismál safnsins yrðu leyst sem fyrst, og að sjálfsögðu taldi ég mér skylt að gera þessa skoðun að minni, þ.e. gera ekki meira í málinu af hálf u rn., þegar skoðun listaráðs var þessi sem raun bar vitni.

Það, sem fyrirspyrjandi sagði um breytilegt hitastig í safninu er vitanlega alveg rétt. Þetta er vandamál, sem öll lítil söfn eiga við að etja. Fyrir þessu hafði ekki verið hugsað, þegar húsið var byggt á sínum tíma, og óframkvæmanlegt er að koma við í gömlu húsnæði eins og þessu þess konar ráðstöfunum, sem tryggja mundu fullkomlega jafnt hitastig og þannig fullkomið öryggi málverkanna, þegar yfir áratugi er litið. Raunar er þetta ekki bara vandamál okkar safns hér heldur vandamál, sem alls staðar er við að etja, og tiltölulega fá söfn í nálægum löndum eru búin hinum fullkomnustu tækjum, sem þó eru þekkt í þessu efni, enda mjög dýr. Sjálfsagt er þó að hafa nýjustu þekkingu til hliðsjónar, þegar ráðizt verður í byggingu nýs listasafns.

Varðandi það, að hann lýsti vonbrigðum sínum yfir því, að ekki skyldi meira hafa gerzt en orðið er frá því í fyrra varðandi úthlutun lóðarinnar, vegna þess að fyrir lægi einróma skoðun stjórnar Listasafnsins á því, hvar hún kysi væntanlegu listasafni stað, þá er það að segja, að hérna eru ekki allir á einu máli. Það er algerlega rétt, að stjórn Listasafnsins er á einu máli um það, að við Öskjuhlíðina sé hinn æskilegasti staður, og er sú skoðun þó ekki gömul í hópi meðlima stjórnar Listasafnsins. Ég er persónulega, að vandlega athuguðu máli, á þeirri skoðun. En ýmsir skipulagsmenn eru á annarri skoðun og vilja heldur, að safninu verði valinn staður í hinum nýja miðbæ. Ástæðan til þess, að ekki hefur endanlega verið tekin ákvörðun um þetta, er sú, að ekki er fullkomlega hægt að gera sér grein fyrir því, hver aðstaða safnsins mundi vera í hinum nýja miðbæ, fyrr en aðalskipulag hans liggur fyrir. En eins og ég tók fram í svari mínu áðan, þá mun það verða nú á þessu ári. En ég hef fulla ástæðu til þess að ætla það eftir þær ítarlegu viðræður, sem fram hafa farið við borgaryfirvöld, að ef rn. og stjórn Listasafnsins halda fast við ósk sína um það að fá lóð undir safnið við Öskjuhlíð, þá muni verða orðið við þeirri ósk, og sú niðurstaða á að geta legið fyrir, áður en þessu ári lýkur.