28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (4154)

312. mál, endurskoðun fræðslulaganna

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja það, að með nefndarstarfi átti ég ekki við þau embættisstörf, sem starfsmenn menntmrn. inna af höndum, og satt að segja tel ég það svo sjálfsagt, að þeir séu að vinna að menntamálunum í sínum vinnutíma, að ástæðulaust sé að geta þess hér sérstaklega. En ef það er eina undirbúningsvinnan, sem undir þessi frv. hefur farið fram, þá skal ég afturkalla það, sem ég sagði hér um nefnd, sem hafi verið að vinna að þessu, en hitt hygg ég þó, að sé rétt, að fyrr hafi nefnd verið skipuð til þess að endurskoða þætti menntamála. Það kunna að vera aðrir þættir menntamála heldur en hér er um að tefla. Ég þekki þetta ekki nægilega vel til þess að fullyrða það gegn andmælum ráðh., að nefnd hafi áður starfað að þessari endurskoðun, en ég endurtek það, að ég átti ekki við þau venjulegu störf, sem starfsmenn hans í menntmrn. vinna hversdagslega. Þau hefði ég ekki gert hér að umtalsefni og tel satt að segja ekki neitt umræðuvert, þó að þeir vinni að endurskoðun menntamála.