28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (4159)

313. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var nú nokkurt álitamál í upphafi miðað við efni þessarar fsp., hvor okkar ætti að svara hér, hæstv. menntmrh. eða ég. Niðurstaðan varð þó sú, að ég svaraði; en svör mín eru nánast byggð á upplýsingum, sem fengizt hafa annars vegar frá Hjúkrunarskóla Íslands og hins vegar frá menntmrn.

Þegar hafizt var handa um þá stórfelldu stækkun á nýbyggingu sjúkrahúsa, sem nú er komin allvel á veg, var ekki samtímis gerð áætlun um, hvernig skyldi manna þessar stofnanir, hvorki hvað snertir lækna, hjúkrunarlið eða annað starfslið sjúkrahúsanna. Þetta er raunar í samræmi við það, að engin heildaráætlun hefur enn verið gerð um störf sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana fyrir landið í heild og einstök byggðarlög. Ef litið er til þess, hver nýting menntaðra hjúkrunarkvenna er, þá voru 1. jan. 1970 922 hjúkrunarkonur á landinu auk 196 nema. Þá voru starfandi 483, þar af 348 í fullu starfi. Í sambandi við skort annars sérmenntaðs fólks og starfsliðs fyrir sjúkrahús, þá hefur rn. nú ákveðið að setja á laggirnar nefnd, sem hefur það hlutverk að semja lög um námstilhögun og starfsréttindi slíks fólks, og er þess að vænta, að slíkt lagafrv. verði lagt fyrir þetta Alþingi.