11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

170. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir góðar undirtektir við málið, þar sem hann lýsir því, að hann muni fylgja því og þá væntanlega hans flokkur. Það er eðlilegt, að menn hugsi sem svo, að það væri gott að fá eigið fé frá ríkinu til veganna. Þannig hugsum við vitanlega allir, en höfum um leið það í huga, að það eru takmörk fyrir því, sem ríkissjóður getur látið af hendi, og það kemur svo greinilega í ljós, þegar verið er að semja fjárl. En það er þó augljós framför í þessu. Ríkissjóður hefur aukið mikið framlög sín til Vegasjóðs frá því, sem áður var, þannig að hann hefur borgað 82 millj. kr. á þessu ári, þar af 56 millj. kr. afborgun af vegalánunum. Og með þessum 47 millj., sem nú er lagt til að lögfesta, mun framlag ríkissjóðs á næsta ári verða, að mér skilst, 125 millj. kr., enda þótt vextir af eldri lánum lækki á næsta ári frá því, sem var á árinu 1970. En það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að vegirnir gætu vissulega tekið við meira fjármagni — við gætum notað meira fjármagn en það, sem lagt er til að lögfesta hér, og það, sem ríkissjóður leggur fram. En við erum svo fáir, Íslendingar, og við búum í stóru landi, en vegamálin þurfa að vera ofarlega á dagskrá hjá okkur, og nú leggjum við tiltölulega mikið fjármagn til veganna, þótt enn megi segja, að við það megi bæta.

Hv. þm. spyrst fyrir um það, af hverju breytt hafi verið um vegarstæðið á Vesturlandsvegi. Vegamálastjóri og verkfræðingar hans gerðu till. um það að fara ekki að sinni í hið fyrirhugaða vegarstæði, sem er talsvert neðar og stytti leiðina nokkuð vestur, eins og hv. þm. gat um. Og það var vegna þess, að það sparast allmikið fjármagn með því að fara gömlu leiðina — ekki aðeins í lagningu þessarar hraðbrautar, heldur einnig í vegalagningu um byggðina, sem komin er þarna í Mosfellssveitinni í kringum Brúarland og Lágafell. Þar verður vitanlega að vera vegur — og allgóður vegur, og vegamálastjóri hefur talað um, að næstu 10 árin mundi ekki verða lagður vegur á hinu áður fyrirhugaða vegarstæði, en það eru vitanlega hugmyndir hans, en ekki þó ólíklegt, að það verði dregið talsverðan tíma. Ég býst við, að flestir sætti sig við þessa breytingu, ef vegurinn verður góður á þessari leið, sem hann hlýtur að verða. Og þarna er umferðin mest, það er rétt. Það eru yfir 3000 bílar á dag frá Reykjavík og upp í Kollafjörð, a. m. k. yfir sumarmánuðina. En þegar komið er vestur í Kollafjörð, þá dettur umferðin niður, þannig að umferðin verður ekki yfir 1000 bílar á dag. Á leiðinni austur yfir fjall til Selfoss hefur umferðin verið mæld í Svínahrauni og reynzt vera eitthvað tæplega 1800 bílar.

Hv. þm. talar um, að ákvæðin í 2. og 3. gr. séu nokkuð teygjanleg og óljós. Þetta má nú vera. En er nú ekki betra að hafa ákvæðin svona eins og lagt er til í frv. en lögfesta einhvern ákveðinn mánaðardag, sem ekki er svo mögulegt að fylgja? Ég held, að það þurfi ekki að efast um það, að till. til þál. um vegáætlun samkv. 10. gr. verði lögð fyrir þingið, svo fljótt sem auðið er, enda þótt ekki sé nánar kveðið að orði. Ég held það. En vitanlega er það á valdi þingsins að breyta þessu — á valdi samgmn., sem fær málið til athugunar, hvort ástæða þykir til þess. Og sama máli er að gegna um 3. gr. Mér er vitanlega ekki svo fast í hendi að halda alveg við þetta orðalag, ef það þykir að athuguðu máli hentara að breyta því. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta.