28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (4160)

313. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. heilbrmrh. svörin. Ég get út af fyrir sig vel skilið það, að það hafi verið matsatriði hjá þeim og kannske nokkurt ágreiningsatriði, hvor ætti að standa hér upp til þess að flytja þessa skýrslu, og ég segi það sem mína skoðun, að ég öfunda hæstv. heilbrmrh. ekkert af því að hafa orðið fyrir valinu. Hitt er svo annað mál, að þýðingarlaust er um þetta að tala. Hitt er úrlausnarefni, hvernig hægt sé að tryggja sjúkrahúsunum, eins og þau eru í dag og þá ekkert síður eins og þau verða, þegar þau eru komin í viðunandi horf, sérmenntaða starfskrafta til þess að sinna sjúklingum og þeim, sem þangað þurfa að leita. Og ég segi það hér sem mína skoðun, að ég tel fullkomlega óverjandi, að ekki sé hægt að veita viðtöku fullri tölu nemenda í Hjúkrunarskólann, eins og hann getur frekast við tekið. Þörfin er vissulega fyrir hendi. Skólinn var stækkaður 1967, þannig að hann getur nú tekið við 80–90 nemendum, eins og ég sagði áðan, bæði til bóklegs og verklegs náms, og það er upplýst, að fyrir liggur nægilegur fjöldi og raunar fleira en hægt er að taka við af betur undirbúnu fólki en fyrr hefur sótt um inngöngu í þennan skóla til þess að gera þessi líknarstörf að ævistarfi. Og ég tel það enga afsökun, sem þó er tæpt á í þeirri grein, sem ég minntist hér á áðan, að ekki sé hægt að afla kennslukrafta. Ég hreinlega trúi því ekki, að það sé ekki hægt að fá fólk til þess að kenna við Hjúkrunarskólann. Hér hlýtur eitthvað annað að búa að baki. Hvað það er, skal ég ekki spá um, en eitt atriði vil ég nefna. Í þeirri grein, sem skólastjóri Hjúkrunarskólans skrifaði í áðurnefnt tímarit og ég las hér upp úr nokkrar setningar, minnist hún á það sem hugsanlegan möguleika, að ríkið styrki hjúkrunarfólk til náms, þannig að það geti aflað sér þeirrar menntunar, sem til þarf til kennslu. Það mun ekki hafa verið farið út á þessa braut. Er það ekki tilraun að fara út á þá braut? Er ekki tilraun að fá erlenda kennara, ef Íslendingar treysta sér á engan hátt til þess að gera þetta? Ég held það. Eitthvað verður að gera. Það er út af fyrir sig gott, sem hæstv. ráðh. sagði, að kosin verði nefnd og lagt fram frv. á Alþ. til úrbóta í þessum málum. Betra er seint en ekki. Ég skal fúslega fallast á það. En það er fullkomlega þýðingarlaust að byggja dýr sjúkrahús með fullkomnustu og dýrustu tækjum til þess að láta þau standa ónotuð, og það er óverjandi stefna að ráðast í byggingu slíkra húsa án þess fyrst að vera búinn að tryggja sér starfskrafta, til þess að húsin og tækin komi að fullum notum.

Ég vona, að þessar umr., þótt ófullkomnar séu að sjálfsögðu í fsp.-tíma, geti vakið athygli hæstv. ríkisstj. og hv. þm. á því alvarlega ástandi, sem hér er vissulega fyrir hendi, og nú taki þing og ríkisstj. höndum saman um að bæta úr þessu, þannig að ekki þurfi til þess að koma oftar, að nýjar, dýrar deildir standi fullbúnar ónotaðar, vegna þess að það er enginn til þess að vinna í þeim.