28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (4164)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. 1. fsp. hljóðar þannig:

„Eftir hvaða reglum er úthlutað því fé, 10 millj. kr., sem ætlað var á fjárlögum þessa árs til jöfnunar námskostnaðar skólafólks, er stunda verður nám fjarri heimilum sínum?“

Þær reglur, sem lagðar eru til grundvallar við úthlutun styrkja vegna skólaársins 1969–1970, eru í stórum dráttum þær, að veittir verða tvenns konar beinir styrkir til framhaldsskólanema, ferðastyrkir og dvalarstyrkir. Ferðastyrkir allt að 3/4 verða veittir vegna ferðakostnaðar nemenda frá dvalarstað hér innanlands í byrjun skólaárs og frá skóla við lok skólaárs. Dvalarstyrkir verða veittir þeim nemendum, er verða að dvelja utan heimila sinna án þess að eiga kost á skólaheimavist. Dvalarstyrkur fyrir skólatímabilið er allt að 1200 kr. á mánuði eða fyrir 9 mánaða skólagöngu 10 800 kr. Styrkirnir voru auglýstir í maí s.l. og reglugerð ásamt umsóknareyðublöðum send til skólanna. Umsóknir bárust mjög dræmt, og aðeins 100–200 umsóknir höfðu borizt í júlí. Var því ákveðið að bíða með úthlutun styrkja, þar til skólar hæfust að nýju nú í haust og tryggt væri, að sem flestir nemendur fengju vitneskju um styrkina. Var því sent út nýtt bréf til skólanna, þar sem mælzt var til þess, að umsóknum yrði skilað eigi síðar en 25. okt. og athygli nemenda yrði vakin á styrkjum þessum, ef slíkt hefði ekki verið gert áður. Úthlutunarnefnd kom saman til fundar einum degi eftir að umsóknarfrestur var útrunninn, og má vænta, að úthlutun styrkja hefjist nú á næstunni. Jafnframt er í undirbúningi útsending á umsóknareyðublöðum fyrir skólaárið 1970–1971, sem ætlunin er að afgreiða fyrir vorið.

2. spurning er svo hljóðandi:

„Til hve margra náði úthlutunin og á hvaða skólastigum voru þeir?“

Þegar liggja nú fyrir umsóknir frá 994 nemendum, sem skiptast þannig milli skólastiga: Gagnfræðaskólar 204 umsóknir, menntaskólar 347 umsóknir, kennaraskólar 269 umsóknir, sérnámsskólar 174 umsóknir. Þessi umsóknafjöldi er nokkru lægri en áætlun rn. gerði ráð fyrir, en hún var 1200 umsóknir. Hins vegar eiga eflaust eftir að bætast við umsóknir á næstunni.

3. og síðasta spurningin er þannig:

„Til hvers bendir reynsla þessa árs um fjármagnsþörf til viðunandi jöfnunar á aðstöðumun námsfólks að þessu leyti?“

Þó að sjálfsögðu sé erfitt að ákveða, hver viðunandi jöfnun á aðstöðumun námsfólks ofar skyldunámi sé vegna búsetu þess, þá er samt rétt að taka eftirfarandi fram: Það er ljóst, að viðunandi jöfnun á aðstöðumun vegna búsetu er ekki hægt að ná nema með verulega auknum fjárframlögum frá því, sem nú er, en einnig ber að hafa í huga, að þyngsti aðstöðumunurinn er ekki vegna búsetu heldur vegna efnahagsaðstöðu nemenda og aðstandenda þeirra. Það getur því verið álitamál, hve langt hið opinbera eigi að ganga í því að jafna aðstöðumun eingöngu með tilliti til búsetu, áður en gripið er föstum tökum á aðstöðumun vegna efnahags. Þeirri fjárveitingu, 10 millj. kr., sem Alþ. hefur veitt til þess að jafna aðstöðumun nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms, er m.a. ráðstafað til þess að veita einbirni tekjuhárra foreldra í strjálbýli ferðastyrk og einnig mánaðarlegan fæðisstyrk, búi hann ekki í heimavist. Hins vegar er tveimur, þremur eða fleiri systkinum, sem við lélegan efnahag búa, en eru búsett í grennd við þann framhaldsskóla, sem þau sækja, ekki veittur neinn styrkur, og námslána eru þau heldur ekki aðnjótandi fyrr en á háskólastigi eða á sambærilegu stigi. Væri fæðisstyrkur veittur til nemenda, sem búsettir eru í strjálbýli og verða að vista sig annaðhvort í heimavist eða við skóla á annan hátt, þannig að nemendur greiddu litlu meira en sem næmi efniskostnaði, mundi til þess þurfa u.þ.b. 24 millj. kr. Væri húsaleigustyrkur til þeirra af þessum nemendum, sem ekki komast í heimavist, ákveðinn 1500 kr. á mánuði, mundi til þess þurfa um 18 millj. kr. Væri enn fremur ferða- og akstursstyrkur til þeirra miðaður við tvær ferðir fram og aftur milli heimilis og skóla, mundi til þess þurfa um 6 millj. kr. Alls mundi því þurfa um 48 millj. kr. miðað við nemendafjölda á yfirstandandi skólaári. Það liggur því í augum uppi, að þær 10 millj. kr., sem Alþ. veitti í fyrra til þess að jafna þennan aðstöðumun, nægja ekki til þess, sem ég þykist vita, að flm. eigi við með viðunandi jöfnuði vegna búsetu eingöngu.