28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (4169)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. sagði, að sig furðaði á því, að nemendur skyldunámsins skyldu hafa verið afskiptir í þessari úthlutun, og hafði um það allstór orð. Hv. þm. virðist ekki hafa athugað, hvernig ákvæði fjárlaga um þetta efni er. Ég er hér með fjárlögin fyrir framan mig, og þar stendur í gr., sem um þetta fjallar, 15. lið:

„Til að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms.“

Það er Alþ., sem hefur ákveðið það, en ekki ég eða ríkisstj., hverjir fá skuli þessar 10 millj. Peningarnir voru til þess að jafna aðstöðu nemenda til framhaldsnáms einmitt, ekki til nemenda á skyldunámsstiginu. (EÁ: Ráðh. hefur ekkert haft með það að gera.) Hvernig þetta var orðað? Það segi ég ekki, en lagaákvæðið er svona, og engin brtt. kom fram um það að breyta þessu, áreiðanlega ekki. En í öllu falli, fyrst lagaákvæðið er svona, þá er náttúrlega algerlega út í bláinn að deila á mig eða ríkisstj. fyrir það að hafa ekki úthlutað peningunum til nemenda, sem ekki máttu fá þá og ekki áttu að fá þá.

Hv. 3. þm. Vesturl. spurði um það, hvers vegna nemendur í heimavistarskólum hefðu ekki orðið aðnjótandi styrks samkv. þessum reglum. Skýringin er sú, að þeir njóta þegar verulegs ríkisstyrks til námsins með þeim hætti, að fæðiskostnaður þeirra er stórlega niðurgreiddur, auk þess sem þeir njóta ókeypis húsnæðis í heimavistarskólunum. Í þessu er þegar fólginn verulegur styrkur, sem kemur til greina til allra þeirra, sem njóta skólavistar í heimavistarskólum, eins og raunar hefur verið margtekið fram í þessum umr. áður. Það er mikill misskilningur, að ríkið hafi fram að þessu ekki styrkt neitt vegna aðstöðumunar til að sækja skóla. Þvert á móti, allur rekstur heimavistarskólanna er stórfelldur styrkur til þeirra nemenda, sem verða að stunda nám utan síns heimilis, styrkur, sem nemur milljónatugum á hverju ári. Þessi litla fjárhæð, sem hér var bætt við, kemur til viðbótar þeim styrk, og þá var náttúrlega ekkert vit í því að ráðstafa þessari litlu fjárhæð að einhverjum hluta til þeirra aðila, sem þegar njóta mjög verulegs styrks af hálfu hins opinbera. Þess vegna var ákveðið að nota þessa litlu fjárhæð, eins og í reglugerðinni kemur greinilega fram, til þess að styrkja þá nemendur, sem ekki njóta þeirrar hagkvæmnisaðstöðu að geta stundað nám sitt í heimavist, m.ö.o. til þess að greiða ferðastyrki og til að greiða dvalarstyrki til þeirra, sem verða utan heimavistar. Þetta er tvímælalaust sanngirnisatriði.

Þá harmaði hv. þm. Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf., það, að ekki skyldi hafa verið úthlutað þegar á s.l. skólaári því fé, sem veitt var í fjárlögum á því ári. Því er til að svara, að öll byrjun er erfið. Í fyrsta lagi hlaut það að vera erfið byrjun að finna út reglur til að greiða úr jafngeysilega flóknu vandamáli og hér er um að ræða. Það var ekki hægt að hefja samningu þeirra reglna, fyrr en fjárlög lágu fyrir. Það var ekki fyrr en undir síðustu áramót. Það er langt frá því, að ég ámæli embættismönnum þeim, sem þessar reglur sömdu, fyrir það, að það tók margar vikur að koma sér niður á skynsamlega reglu um ráðstöfun jafntakmarkaðrar fjárhæðar og hér er um að ræða. En bréfin til skólanna, tilkynningin um þetta, fóru út 15. maí samkv. ljósritum, sem ég hef hér, og hefðu því átt að geta náð til skólanna. Skólum er ekki lokið 15. maí. En ástæðan til þess, að fénu var ekki úthlutað, var ekki sú, að ekki væri hægt að úthluta 10 millj. Ég dreg það ekki í efa, að embættismaðurinn hafi sagt við hv. þm., að það væri erfitt eða eitthvað því um líkt. En auðvitað trúi ég því ekki, að hann hafi sagt, að það væri bókstaflega ekki hægt. En erfitt hefur hann eflaust sagt, að það væri, og það er erfitt. (HS: Það er rétt.) Það er rétt, erfitt er það. En ástæðan til þess, að úthlutun var ekki framkvæmd, var sú, að það bárust ekki nema 104–200 umsóknir, beinlínis vegna þess, að það tekur tíma fyrir nemendur og skólastjóra að átta sig á málum, sem hér er um að ræða. M.ö.o., það var ekkert vit í því að hefja úthlutun á grundvelli 100–200 umsókna, og þess vegna var sú ákvörðun tekin, og á henni ber ég og ég einn ábyrgð, að geyma úthlutunina og freista þess að fá fleiri umsóknir, að bæta vitneskju um þetta nýja kerfi og fá fleiri umsóknir strax í haust, og það bar þann, ég vil segja gleðilega árangur, að nú bárust sem sagt u.þ.b. 1000 umsóknir, og þeim umsóknum verður sinnt núna alveg næstu daga eða vikur, og það mun verða hægt að sinna þeim svolítið ríflegar en reglugerðin hefur gert ráð fyrir, vegna þess að umsóknirnar eru 200 færri en gert hafði verið ráð fyrir, svo að styrkirnir geta orðið örlítið ríflegri auk þess, sem gert er ráð fyrir því, að um 20% aukningu verði að ræða á þessu fé, sem ég vona raunar, að verði aukið enn í meðförum þingsins.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði út af þeim aths. eða hugleiðingum, sem ég nefndi um efnahaginn, að erfitt hlyti að verða að taka tillit til ólíks efnahags nemenda og foreldra þeirra við úthlutun slíkra styrkja. Það er auðvitað fullkomlega rétt, að það er mjög erfitt. Það er líka rétt, sem hann sagði, að þrátt fyrir miklar umr. árum saman fram og til baka, umr., sem ég er nákunnugur, umr. um það, hvort taka eigi tillit til efnahags nemenda og foreldra þeirra við úthlutun námsstyrkja eða námslána, en þar er um tuga millj. úthlutun að ræða, það er rétt, sem hann sagði, að niðurstaðan hefur orðið sú að taka ekki tillit til efnahags nemendanna eða foreldra þeirra. Í nálægum löndum eru uppi tvær skoðanir eins og hér á þessum efnum, og framkvæmdin er tvenns konar. Sums staðar er tekið tillit til efnahags foreldra eftir mismunandi reglum þó, en sums staðar ekki, og hér hefur það orðið niðurstaðan, og þar hefur skoðun stúdentanna eða námsmannanna sjálfra ráðið mestu, að ekki er tekið tillit til efnahags foreldra eða nemenda. En þm. spyr, hví í ósköpunum ég láti mér þá detta í hug að nefna efnahag foreldranna í þessu sambandi? Það er vegna þess, að hér er um að ræða styrkveitingu, sem er sérstaks eðlis, sem tekur tillit til mismunandi aðstöðu, mismunandi búsetu. Þá hlýtur manni að detta í hug: Hvar eru takmörkin á milli þess að hafa efnahagsörðugleika vegna mismunandi búsetu eða réttara sagt, hvar eru takmörkin á milli þess, að menn eigi erfitt með að sækja skóla vegna búsetu eða vegna efnahags? Um námsstyrkina og námslánin til námsmanna heima og erlendis, sem úthlutað er samkv. lögum um námssjóð, þar er ekki um nein slík sjónarmið að ræða. Þar er verið að hjálpa mönnum til þess að stunda nám og hvorki tekið tillit til búsetusjónarmiðanna eða sjónarmiða skyldra þeim né heldur efnahagssjónarmiðanna. Ég nefndi hitt, efnahagssjónarmiðin, vegna þess að þarna er verið að reyna að taka tillit, með miklum vandkvæðum þó, til búsetusjónarmiðsins. Hjá öllum skynsömum mönnum hlýtur því að vakna spurningin: Hvar eru takmörkin milli erfiðleika á að sækja skóla vegna búsetu og vegna efnahags? Ég geri mér algerlega ljóst, a.m.k. eins vel ljóst og hv. þm. hafði vonað, að þar er um geysilega flókin og vandmeðfarin mál að ræða, og við höfum hugsað mikið um það, sem um þetta höfum fjallað, hvar takmörkin séu og hvernig eigi að nota það fé, sem Alþ. veitir, sem skynsamlegast og réttlátast. Og þá hlýtur efnahagssjónarmiðið að koma til greina í þessu sambandi. Mitt verk í þessu og okkar í menntmrn. er að úthluta því fé, sem Alþ. veitir, sem skynsamlegast og sem réttlátast. Það hefur verið reynt að gera fram að þessu, og þeirri viðleitni munum við halda áfram, en þá hljóta efnahagssjónarmiðin að skipta máli.