28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (4171)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Sigurvin Einarsson:

Þetta eru nú aðeins örfá orð. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það væri rétt, að það væri erfitt að flokka nemendur niður eftir efnahag foreldranna. Ætli það sé ekki alveg óhætt að bæta því við, að það verði ekki framkvæmanlegt. En ég tók hitt fram, að þó að við tökum tvö heimili, bæði fátæk, annað getur sent börnin sín í skóla heima hjá sér, en hitt heimilið verður að senda þau burtu, ætli það séu ekki nokkurn veginn glögg skil á milli þess, hver aðstöðumunurinn er? Ég held, að það sé enginn vandi að sjá það.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi líka, að það væri rétt, sem ég hélt fram áðan, að þessa sjónarmiðs efnaðra og fátækra foreldra hefði aldrei gætt í úthlutun námsstyrkja eða námslána til háskólastúdenta. Þetta er auðvitað staðreynd. Treystir yfirleitt nokkur sér til þess að fara út í þá sálma? A.m.k. verður það ekki gert núna á næstunni viðvíkjandi þeim námsstyrk, sem nú á að fara að úthluta.

En aðalerindi mitt hingað er það að fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann endurtaki nú auglýsinguna um námsstyrkina, sem birtist í maí í vor, af því að hún mun hafa farið fram hjá mönnum einmitt á þeim tíma, sem skólarnir voru að hætta, og nú eru nemendurnir komnir hingað og þangað, en samt eiga styrkirnir að vera fyrir námsárið í fyrra, — að hann endurtaki þessa auglýsingu nú með ákveðnum umsóknarfresti, svo að mönnum gefist nú kostur á að sækja um styrk, og það sé tekið fram, hverjum þýði að sækja, alveg eins og var gert í sumar. Þar er tekið skýrt fram, að það þýði ekkert fyrir neinn á skyldunámsstiginu að sækja um styrk, og að það þýði ekki fyrir neinn, sem hefur verið í heimavistarskóla, að sækja um styrk. Þetta er reglan, sem búið er að gefa út. Ég fer fram á það, að hæstv. ráðh. endurtaki auglýsinguna.