28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (4172)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er ekki oft, sem ráðh. er í þeirri ánægjulegu aðstöðu, þegar ósk er beint til hans frá þm., að geta sagt: Það er búið að verða við henni. Hv. þm. óskar eftir því, að ég eða menntmrn. auglýsi aftur og tilkynni rækilega, hverjir eigi að sækja og hverjir muni fá styrkinn. Þetta var gert 1. okt. s.l. Það er búið að því. Svona líkt hugsuðum við í rn. þeim, sem eru velviljaðir dreifbýlismönnum, að við erum búnir að þessu. (SE: Þá hefur það verið í Alþýðublaðinu.) Nei, nei, það var sent dreifibréf til allra skólastjóra á landinu, og þetta hefur eflaust verið auglýst í Lögbirtingablaðinu líka og útvarpinu. Hvort það hefur verið auglýst í dagblöðum, man ég ekki. Við erum ekki vanir að auglýsa þar. En hver einasti skólastjóri á landinu fékk vitneskju um þetta 1. okt. Frestinum lauk 25. okt., og það er verið að vinna að úthlutuninni. Mér þykir reglulega vænt um að geta meira að segja orðið á undan óskum hv. þm. varðandi umhyggju fyrir dreifbýlinu.

Út af því, sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson sagði um styrkinn til gagnfræðaskólanemendanna, er okkur algerlega ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem mikið hefur verið hugsað um og mikið rætt við forustumenn ýmissa skóla. Fyrst svo fór, — það er hugmynd, sem ég varpa fram núna, — að færri umsóknir bárust en við höfðum gert ráð fyrir, kæmi til álita, — og þann möguleika skal ég kanna eða láta kanna í fullri alvöru, — hvort hægt væri að nota það fé, sem ekki þarf til þeirra, sem sóttu eftir reglunum, til þess að greiða að einhverju leyti fyrir nemendum í heimavistarskólunum. Ég lofa engu um þetta, því að sérfróðir menn þurfa um þetta að fjalla, og málið er flókið, en málið skal verða athugað.