03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (4179)

20. mál, haf- og fiskirannsóknir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja örfá orð um þetta mál, af því að sérstaklega var vitnað í fjárlagatillögur af hálfu hv. fyrirspyrjanda, en áður en ég geri það, þá vil ég aðeins leiðrétta það, sem hann áðan sagði. Það er misskilningur á orðum hæstv. sjútvrh., að það hefði e.t.v. verið fullnægt öllum óskum, sem fram hefðu komið um fiskileit. Það, sem ráðh. átti við og tók fram í sínu svari, voru óskir frá Hafrannsóknastofnuninni í því efni, en hún hefur yfirstjórn þeirra mála. Það koma auðvitað hér fram ótal till. á Alþ. um alls kyns tegundir af fiskileit, sem að sjálfsögðu er eðlilegt, að Hafrannsóknastofnunin meti hverju sinni, því að það er ekki þar með sagt, þó að óskir komi fram um þetta efni, að þær séu allar raunsæjar.

Ég vil ekki mælast undan ábyrgð á því að hafa gert till. um það í fjárlagafrv., að Hafþór yrði seldur, og það var raunar gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. í fyrra, að svo yrði, þegar Bjarni Sæmundsson kæmi til sögunnar. Með tilkomu Bjarna Sæmundssonar og Arna Friðrikssonar, sem að sjálfsögðu þarf nú ekki eingöngu að sinna síldveiðum og getur þar af leiðandi sinnt mörgum öðrum viðfangsefnum, þá hefur að sjálfsögðu orðið gerbylting í íslenzkum haf- og fiskirannsóknum, þannig að aðstaða öll í því efni er margfalt betri en hún hefur verið nokkru sinni áður, þannig að vissulega hefur verið gert hér stórmikið átak. Hafþór var aldrei hugsaður nema sem bráðabirgðalausn, og varðandi það atriði, að ekki sé heimilt að selja Hafþór, þá lít ég ekki svo á, að það þurfi sérstaka heimild til þess, vegna þess að eignarréttur ríkisins á því skipi er þannig til kominn, að ríkisábyrgðasjóður á þetta skip og hlaut hann á nauðungaruppboði og það hefur aldrei verið skilið svo og aldrei framkvæmt svo, að leitað hafi verið sérheimilda Alþ. til sölu á ríkiseignum, sem þannig eru tilkomnar. Það má kannske deila um það, hvort það sé rétt eða ekki rétt, en þessari venju hefur alltaf verið fylgt um slíkar eignir, að þær hafa verið seldar, án þess að til þess hafi verið leitað sérstakrar heimildar.

Það var ætlunin, að Hafþór sinnti þessu verkefni, þar til hið fullkomna hafrannsóknaskip kæmi. Það er nákvæmlega sama sagan, sem hér er um að ræða, eins og í sambandi við landhelgisgæzluna, að það voru ýmis minni skip, sem önnuðust þá starfsemi, áður en hin stærri skip komu, áður en nýja landhelgisskipið t.d. kom, landhelgisgæzluskipið, það nýjasta, en það voru tekin úr notkun minni skip. Vissulega er þetta alltaf matsatriði. Það má segja, að Landhelgisgæzlan hefði e.t.v. þurft á fleiri skipum að halda, og það má jafnframt segja, að það séu, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, ótæmandi verkefni til rannsóknarstarfa í sambandi við fiskirannsóknir. Það skal ég ekkert draga í efa. En hér þarf aðeins að meta það, hvað hægt er að gera í þessu efni miðað við þó þau miklu átök, sem gerð hafa verið. En ég vil láta það koma skýrt fram, að þó að gerð sé till. um að selja Hafþór, þá er sjálfsagt, að það mál sé rannsakað.

Það er rétt, sem fyrirspyrjandi sagði, að það er gert ráð fyrir því, ef brýna nauðsyn ber til og núverandi rannsóknarskip komast ekki yfir verkefnin, að þá verði leigð sérstök skip til tímabundinna verkefna, sem iðulega hefur verið gert í sambandi við ýmiss konar fiskileit. Ég tel ekkert á móti því, að það verði rannsakað, áður en fjárlög eru afgreidd, hvort muni hagkvæmara að háfa Hafþór áfram að fullu í þessum rannsóknum, eða þá að opna þessa möguleika og rætt verði við fræðimenn í þeim efnum. En hitt legg ég áherzlu á, að það hljótum við alltaf að verða að meta hverju sinni miðað við okkar fjárhagslegu getu, hvað við getum leyft okkur á þessu sviði jafnt og öðrum. Ég játa, að hér er um eitt hið brýnasta verkefni að ræða, og verður því að reyna að sinna því, en spurningin er aðeins þessi: Hvernig getum við hagkvæmast komizt út úr þeim viðfangsefnum, en ekki það, hvort menn telja, að það sé æskilegt. Ég geri ráð fyrir, að menn teldu kannske æskilegt að hafa 4–5 skip, skal ekkert um það segja. Það er vafalaust hægt að finna verkefni fyrir þau, en hvort menn geta gert slík stökk í þessum efnum eða ekki, það er ég nokkuð efins um.

Að lokum aðeins þetta. Ég tel sjálfsagt, að þetta sjónarmið verði skoðað, enda er í rauninni gert ráð fyrir því í fjárlagatill., þar sem er viss fjárupphæð til bráðabirgða eða til tímabundinna leiguskipa. Ég tel sjálfsagt, að það verði rannsakað til hlítar, hvort verði hagkvæmara, og þá í sambandi við okkar fræðimenn í þessum efnum, hvort það verði hagkvæmara að fara þessa leið eða þá, að Hafþór verði í gangi áfram og það verði metið undir meðferð fjárlagafrv. í hv. fjvn.