03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (4184)

315. mál, endurskoðun gjaldskrár Landssímans

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi svaraði ég fsp. um þetta efni. Það, sem hefur gerzt síðan, er, að það hefur verið unnið dálítið í þessu og að það liggur dálítið ljósar fyrir með kostnað og fleira en þá.

Það er ljóst, að ef breyta ætti símaafgreiðslunni milli Brúarlands og Reykjavíkur í afgreiðslu með innanbæjartaxta, þá er áætlað, að álagið vaxi svo, að skipta þurfi um vélbúnað, fjölga rásum til Reykjavíkur og auka búnað þar, enn fremur að byggja viðbótarvélahús að Brúarlandi, og það mundi kosta um eða yfir 52 millj. kr. Þetta þyrfti að gerast í endurbótum á kerfinu milli Reykjavíkur og Mosfellssveitar, Brúarlandsstöðvarinnar, ef það ættu að vera sams konar taxtar þar á milli og innanbæjar.

Ef á hliðstæðan hátt ætti að innleiða innanbæjartaxta á Keflavíkursvæðinu, þyrfti að skipta um sjálfvirkan búnað í Sandgerði, Grindavík, Vogum og Höfnum og auka og breyta vélakosti Keflavíkurstöðvarinnar, fjölga símarásum milli staðanna og sameina Gerðastöðina og stöðina í Sandgerði. Áætlaður kostnaður við þessa breytingu er 128 millj. kr., en tekjur símans yrðu auðvitað eitthvað minni eftir breytinguna. Heildarkostnaðurinn fyrir bæði svæðin yrði þá 180 millj. kr. Enn fremur má í þessu sambandi benda á, að líkt er ástatt á ýmsum öðrum svæðum í landinu, sem mundu fara fram á hliðstæðar breytingar. Í stað þess að gera þessar breytingar fljótt, sem ekki er framkvæmanlegt kostnaðarins vegna, og eftir er að athuga, hvernig þetta gæti nú tekizt, þótt peningar væru fyrir hendi, þá hefur verið komið á móti óskum Suðurnesjamanna með því að lækka gjaldið fyrir sjálfvirk símtöl milli Gerða, Sandgerðis og Keflavíkur um 60%. Þetta var gert á s.l. ári, og þetta veit hv. fyrirspyrjandi og hlýtur að viðurkenna, að þarna hafi verið komið mjög til móts við þá menn, sem hann gerist talsmaður fyrir. Enda hef ég heyrt það á ýmsum mönnum þar syðra, að þeim finnst þessi leiðrétting mjög mikils virði. Enn fremur hefur gjaldið milli Brúarlands og Reykjavíkur verið lækkað um 47% miðað við taxtann með tilliti til þess, hvað Brúarland er stutt frá Reykjavík. Hefur þetta verið gert með því að lengja bilið milli skrefanna úr 24 sekúndum í 45 sekúndur. Er vonast til þess, að álagið við það aukist ekki svo mikið nú, að símakerfið anni því ekki, þar sem stöðin á Brúarlandi er ekki enn fullsetin. Og það hefur komið í ljós eftir að breytingin var gerð, að stöðin getur annað þessu. Hef ég einnig heyrt það á ýmsum mönnum, sem búa þarna efra, að þeir telja þessa leiðréttingu mikils virði, og tæplega er til þess ætlazt, að lengra verði gengið um sinn. Það, sem stjórn Landssímans hefur í huga, er að vinna að heildarendurskoðun og samræmingu á símagjöldum, eftir því sem unnt er, og það verður að hafa heildaryfirsýn yfir landið allt, yfir gjaldsvæðin öll, og hafa samræmi. Það má ekki gera mikið fyrir eitt svæði, en láta svo annað svæði, sem á jafngott skilið, sitja hjá. Við það skapast ósamræmi og hlutdrægni. En það hefur stjórn símamála alltaf forðazt.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi sé ánægður með það, að það hefur nú þegar verið komið til móts við óskir Suðurnesjamanna og þeirra, sem njóta Brúarlandsstöðvarinnar, en mál þessi eru enn í endurskoðun, og samræming á gjaldskránni fer fram svo fljótt sem unnt er í sambandi við endurskoðunina.