03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (4188)

322. mál, símasamband milli Reykjavíkur og Vesturlands

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 68 hef ég leyft mér að gera fsp. um sitthvað í sambandi við símasamband við Vesturland og gjaldskrá þar að lútandi. Fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Er unnið að því að gera eða eru til áætlanir um endurbætur á talsímasambandi milli Reykjavíkur og Vesturlands?

Er fyrirhuguð sú breyting á gjaldskrá Landssímans, að eitt gjald gildi á Vesturlandi, þ.e. innan svæðis 93, svo sem er um innanbæjarsamtöl í Reykjavík og Hafnarfirði?“

Ástæðan fyrir þessum fsp. er í fyrsta lagi sú, að símasambandið á milli Vesturlands og Reykjavíkur sérstaklega er mjög slæmt, þannig að það getur tekið nokkra klukkutíma að ná hér sambandi á milli í gegnum sjálfvirka símann. Þetta hefur farið versnandi síðan álagið jókst, og þess vegna er spurt um það, hvort gerð sé áætlun um að bæta úr þessu.

Í öðru lagi er það svo, að eins og gjaldskrá Landssímans er nú háttað, þá eru sérstök gjöld innan svæðis 93 eða 91, eftir því hvort svæðið er, og þess vegna spyr ég um það, hvort ekki sé fyrirhugað að breyta þessu og hafa eitt gjald innan þessa svæðis.