15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

170. mál, vegalög

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 247 með fyrirvara, og það var raunar í þeirri von, að einhverjar breytingar kæmu fram, en samgmn. Nd. hélt aðeins einn fund um málið, og sá fundur stóð ekki nema í mesta lagi í fimm mínútur. Ég hafði búizt við, að annar fundur yrði haldinn í n., en svo varð ekki. Þetta mál var engum sent til umsagnar.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir, að þm. Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. styðja málið, svo að tilgangslítið er að berjast gegn slíkum meiri hluta. Þó vil ég leyfa mér að minnast hér á nokkur atriði.

Frv. þetta um breytingu á vegalögum á að tryggja aukið fjármagn til Vegasjóðs til að fjármagna þær hraðbrautaframkvæmdir, sem nú er verið að vinna að og eru á áætlun 1971 og 1972 og að nokkru til að auka fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda við þjóðbrautir og landsbrautir. En nú vantar hvorki meira né minna en 532.7 millj. kr., sem að langmestu leyti eiga að fara í hraðbrautaframkvæmdir. Við getum allir orðið sammála um lagningu hraðbrauta upp að vissu marki og með hæfilegum framkvæmdahraða. En þegar slíkar hraðbrautaframkvæmdir eru byggðar að mestu leyti á erlendum lántökum, þá vaknar sú spurning, hversu arðbærar þær eru fyrir þjóðarheildina. Við getum verið sammála um, að rétt sé að taka erlend lán til að fjárfesta í framkvæmdum hér heima, sem eru arðbærar eða hagstæðar fyrir þjóðarheildina —framkvæmdum, sem standa sjálfar undir erlendu lánunum og efla þjóðarbúskapinn í heild. En það verður að teljast vafasamt að taka stórlán erlendis til að leggja hraðbrautir, því að mikið fjármagn þarf til að standa undir afborgunum og vöxtum af slíkum lánum. Reynslan hefur sýnt, að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar er röng, því að dýrtíðin eykst jafnt og þétt og eyðir þessum erlendu lánum jafnvel örar en við getum framkvæmt hlutina. Við tökum lán erlendis, síðan lækkum við gengið og skuldirnar vaxa.

Viðbótarfjárþörf Vegasjóðs er, eins og ég sagði áður, 532.7 millj. kr. fyrir næstu tvö ár, og þessu fjármagni skal nú náð með því að stórhækka benzínið um allt að 38% og í öðru lagi með því að hækka þungaskattinn um 50%. Og allt þetta kemur, þegar búið er að segja þjóðinni, að í landinu ríki verðstöðvun. Hefði ekki verið réttara að leita annarra ráða eða fara eitthvað hægara í hraðbrautaframkvæmdir, a. m. k. á meðan verðstöðvun á að vera í gildi? Það er mín skoðun.

Það eru sum ákvæði í þessu frv., sem ég get samþykkt, t. d. um áætlunargerðina, sem er í 1. gr. og 4. gr. Í 7. gr. í þessu frv. er heimild til ráðh. til að ákveða með reglugerð, að ökumælar skuli settir í bifreiðar, sem nota annað eldsneyti en benzín, og skulu þessar bifreiðar greiða sérstakt gjald fyrir hvern ekinn km samkv. ökumælum. Enn fremur er ráðh. heimilt að endurgreiða þungaskatt af sérleyfisbifreiðum að vissu marki, en engin slík ákvæði eru um vöruflutningabifreiðar, sem annast vöruflutninga frá Reykjavík og út á land. Allir vita, að á vorin, þegar frost er að fara úr vegunum, auglýsir Vegagerðin ákveðinn öxulþunga á mörgum vegum landsins, og það gefur auga . leið, að þegar ökumælar eru komnir í slíkar vöruflutningabifreiðar og þeim er bannað að flytja meira en t. d. hálffermi, þá mun ekki borga sig fyrir þá að standa í slíkum vöruflutningum. Þess vegna bendir allt til þess, að þessir vöruflutningar muni falla niður á ákveðnu tímabili á vorin, en það gæti skapað öngþveiti í aðflutningum, því að þessir vöruflutningar eru nú að vissu leyti lífæð margra byggðarlaga. Þarna þyrfti því einnig að koma til heimild til ráðh. til að endurgreiða þungaskattinn að ákveðnu marki, þegar Vegagerðin auglýsir ákveðinn öxulþunga á vorin.

Við 1. umr. um þetta mál var því haldið fram sem rökum, að þótt þessi hækkun á benzíni kæmi til framkvæmda, væri þó benzín hér á landi ódýrara en í öðrum nálægum löndum. Slík rök eru auðvitað léttvæg fundin, nema samtímis sé minnzt á launakjör almennings í þessum sömu löndum, svo að hægt sé að fá réttan samanburð. Allir vita, að árið 1969 var okkur hagstætt. Aukning þjóðartekna varð 6–7% og allt bendir til, að þetta ár verði enn þá hagstæðara. Í slíku árferði hefði átt að vera hægt að halda áfram hraðbrautaframkvæmdum af fullum krafti, en vegna stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur dýrtíðin aukizt jafnt og þétt, og við vitum, að á þessu ári hafa verðhækkanir dunið yfir, þar til ríkisstj. kom fram með verðstöðvun, sem gildir í dag. Og hvað skyldi fólkið í landinu hugsa um þessa verðstöðvun, þegar ríkisstj. leggur nú fram breytingu á vegalögum, sem leggur aukalega á alla bifreiðaeigendur í landinu skatt, sem nemur um 532 millj. kr.? Þeir verða vissulega margir undrandi. Við vitum líka, að ríkissjóður hefur margvíslegar tekjur af bifreiðum og rekstrarvörum til þeirra. Hvers vegna ganga ekki þessar tekjur til Vegasjóðs, ef bifreiðaeigendur eiga að standa að miklu leyti undir vegagerð landsins? Það væri sjálfsagt, að þessar tekjur gengju til Vegasjóðs. Framlag ríkissjóðs til Vegasjóðs ætti að aukast, og það ætti að vera þannig, að ákveðin prósenta af þjóðartekjum færi hverju sinni í samgöngukerfið eða vegina og þá gæti það orðið sá mælikvarði, sem farið væri eftir í vegaframkvæmdum og hraðbrautaframkvæmdum. Flestir hefðu ætlað, að í jafngóðu árferði hefði ekki þurft að leggja svona gífurlega skatta á bifreiðaeigendur til að standa undir hraðbrautaframkvæmdum í nágrenni Reykjavíkur og einmitt á sama tíma og verðstöðvunarlög ríkisstj. eru í fullu gildi. Það er mín skoðun, að ríkisstj. hefði átt að fara aðrar leiðir í þessu máli, en þar sem engar breytingar hafa komið fram til bóta, mun ég ekki greiða þessu máli atkvæði mitt.