03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (4192)

322. mál, símasamband milli Reykjavíkur og Vesturlands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. finnst símasambandið slæmt í sveitum landsins. Þetta má nú vera, að það sé ekki nógu gott, en alltaf er þetta nú að batna ár frá ári. Í fyrstu þótti gott, að það væri ein símstöð í hverjum hreppi, en allir aðrir bæir voru símalausir. Nú er sími á hverjum bæ, og nú er hægt að ná símasambandi á tiltölulega stuttum tíma og tala við nágrannana og einnig þá, sem fjarri eru. Á hverju ári er alltaf verið að endurbæta símann. Það er verið að fækka númerum á hverri línu. Það var einu sinni byrjað með að hafa 12 bæi á sömu línu. Það þótti ekki gott, það truflaði. Nú er þetta víðast hvar komið niður í 5–6 bæi, og alltaf er verið að laga og endurbæta, og símastjórnin hefur þetta allt á sinni könnu og er að reyna að bæta þetta smátt og smátt. Það kemur ekki allt í einu. En svo standa yfir tilraunir við að koma sjálfvirku símakerfi einnig fyrir í sveitum landsins, og það eru merkilegar tilraunir, og það er vonazt til, að tækninni fleygi það fram, að það verði hægt að hafa marga bæi á sömu línu í sambandi við sjálfvirka kerfið og að það geti orðið tiltölulega ódýrt að fá sjálfvirkt símasamband í sveitunum. Það skapar vitanlega þægindi í sveitunum, og það skapar þægindi líka fyrir þá, sem þurfa að ná til manna úti í sveitum, en það dregur líka úr rekstrarkostnaði Landssímans, þegar meiri hlutinn er orðinn sjálfvirkur. Þá sparar það fyrst, reynir á það, hvað það er mikill sparnaður, ef hægt er að hafa allt sjálfvirkt. Að þessu er unnið, en það tekur allt sinn tíma. Og það þarf að tileinka sér nýjustu tækni, sem fleygir fram með hverju ári.

Ég er bjartsýnn á það, að sveitirnar fái sjálfvirkt símasamband innan tiltölulega fárra ára, því að nú er langt komið að setja sjálfvirkan síma í kauptúnin, og þá koma sveitirnar næst á eftir.