15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

170. mál, vegalög

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef undanfarna daga fylgzt af nokkurri athygli með fréttum frá Noregi, og ég geri ráð fyrir, að það séu fleiri þm., sem fylgzt hafa með þeim fréttum af nokkurri athygli. Norska ríkisstj. bar fram frv. um nokkra hækkun á þungaskatti á bifreiðum, og því frv. var tekið af það mikilli alvöru og svo mikilli festu í norska þinginu, að ríkisstj. var að því komin að falla. Tveir af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna lýstu yfir því, að þeir mundu ekki fylgja þessu frv. í óbreyttu formi. Að vísu er því haldið fram og vafalaust með réttu, að þarna hafi fleira komið til en þetta mál eitt, það hafi verið korn, sem fyllti mæli. Engu að síður litu norskir þm. slíka till. svo alvarlegum augum, að þeir töldu hana geta rökstutt það að fella ríkisstj. Og ríkisstj. sá að lokum sitt óvænna og gerði þær breytingar á þessu frv., sem nægðu til þess, að þessir tveir þm. töldu sig að lokum geta fylgt því.

Ég minnist á þetta vegna þess, að það er greinilegt, að í Noregi taka þm. vandamál af þessu tagi mun alvarlegar en gert er hér á Íslandi. Hér á Íslandi er auðsjáanlega ekki mikill hugur í þm. í sambandi við frv. af þessu tagi. Við heyrðum, hvernig hv. síðasti ræðumaður greindi frá því, að n. sú, sem um málið fjallaði, hefði verið fimm mínútur að ræða um það. Og það er greinilega engin hætta á því, að framtíð ríkisstj. sé í nokkurri hættu út af þessu máli. Það getur vel verið, að það sé ókyrrð í einhverjum þm. stjórnarflokkanna; ég veit það ekki. En hitt veit ég, að talsmaður stærri stjórnarandstöðuflokksins, Framsfl., gerði sér ferð upp í ræðustólinn gagngert til að tilkynna ríkisstj., að hann og hans flokkur mundu hjálpa henni í þessu máli. Þarna væri mál, sem Framsfl. væri í öllum meginatriðum sammála hæstv. ríkisstj. um. Og þessi hv. þm. talaði um þetta mál af miklum alvöruþunga og mikilli þekkingu, eins og honum er lagið, og hann talaði eins og stjórnarstuðningsmaður og raunar eins og ráðherrastóll væri innan seilingar, sem svo sem má vel vera.

En mér finnst það dálítið furðulegt, að menn skuli taka frv. af þessu tagi svona léttilega. Það er að vísu alkunna, að það munar ekki mikið um einn kepp í sláturtíðinni, og hæstv. ríkisstj. hefur nú að undanförnu staðið í því að fá þm. til þess að samþykkja með sér hækkun á fjárlögum, sem nemur yfir 3000 millj. kr. Kannske hefur það verið sálfræðileg athöfn hjá hæstv. samgrh., þegar hann geymdi þetta frv. fram yfir þann verknað, svo að mönnum yxu ekki í augum þær upphæðir, sem í þessu frv. felast. En engu að síður tel ég, að mönnum eigi að vaxa slík stefna sem þessi í augum. Þetta frv. gengur greinilega í berhögg við þá svokölluðu verðstöðvun, sem ríkisstj. hefur lögleitt og telur sig fylgja. Efni þessa frv. er algerlega andstætt verðstöðvuninni, og það er að minni hyggju fullkomið blygðunarleysi bæði gagnvart alþm. og gagnvart almenningi að bera slíka till. fram. Ef hæstv. ríkisstj. væri nokkur raunveruleg alvara með verðstöðvun sinni, hefði henni ekki til hugar komið að leysa vandamál Vegasjóðs á þennan hátt, en ég hygg, að alþm. öllum sé það mjög vel ljóst, að ríkisstj. er engin alvara með verðstöðvuninni. Þar er aðeins verið að fresta fram yfir kosningar þeim hlutum, sem ríkisstj. veit að eiga að gerast næsta haust, og verðbólguaukning í sambandi við benzín og akstur bíla er í fullu samræmi við hina raunverulegu stefnu hæstv. ríkisstj.

Hvernig stendur á því, að Vegasjóður er í vandræðum? Það stafar ekki af því, að ákveðið hafi verið að leggja í verulegar nýjar framkvæmdir. Það er um sáralitlar nýjungar að ræða í þessu frv. Aðalástæðan fyrir vandkvæðum Vegasjóðs er sú, að áætlanir hæstv. ríkisstj. hafa ekki staðizt. Skerðing á lífskjörum leiddi um skeið til þess, að bílum fjölgaði ekki eins ört og hæstv. ríkisstj. hafði gert ráð fyrir, og í annan stað hafa allar áætlanir um kostnað vegna vegaframkvæmda stórhækkað vegna óðaverðbólgunnar. Sú upphæð, sem gerð er till. um, að bætt verði í Vegasjóð núna, er í rauninni fyrst og fremst upphæð, sem hefur brunnið upp á báli verðbólgunnar að undanförnu.

Nú veit ég, að hæstv. samgrh. býr sig eflaust undir það að koma hér upp og halda því fram, að ég sé andvígur stórframkvæmdum í vegamálum, svo að mér þykir rétt að gera grein fyrir því nú þegar, að það er ég alls ekki. Mér hefur raunar verið það dæmi um glundroðann í stjórnarfari nú á Íslandi, hvernig stjórnarvöld hafa um langt skeið látið flytja inn bifreiðar fyrir hundruð og aftur hundruð millj. kr. án þess að gera á sama tíma ráðstafanir til þess, að hér væru vegir, sem hægt væri að aka á. Í þessari stefnu hefur falizt alveg óhemjuleg sóun — sóun, sem engum hefur að gagni komið nema þá helzt innflytjendum. Ég tel, að það sé mikil nauðsyn að stórauka framkvæmdir í vegamálum. En ég er á móti þeirri aðgerð að afla ævinlega og einvörðungu tekna með neyzlusköttum. Og það er algerlega ástæðulaust að binda till. um fjáröflun í Vegasjóð við neyzluskatta.

Þegar rætt er um að hækka vöru eins og benzín í verði, finnst mér, að hv. alþm. ættu að minnast þess, að hér á Íslandi eru starfandi þrjú olíufélög, sem halda uppi þreföldu dreifingarkerfi og þreföldum skrifstofubáknum og þreföldum tilkostnaði. Það er ríkið, sem kaupir vörurnar til landsins, en afhendir þær síðan þessum þremur félögum til þess að dreifa þeim. Þessi þrjú félög selja öll sömu vöruna. Það er engin samkeppni á milli þeirra. Í rauninni er þetta aðeins einokunarhringur — þríofinn einokunarhringur. Og þessi félög hafa á undanförnum árum safnað mjög verulegum gróða. Eitt þeirra, Olíufélagið hf., greindi frá því fyrr á þessu ári, að hreinn gróði félagsins á síðasta ári hefði verið 50 millj. kr., þegar búið var að afskrifa allt, sem afskrifa mátti, og fela allt, sem fela mátti samkv. hinum mjög svo rúmu ákvæðum skattalaga, þegar fyrirtæki eiga í hlut. Vafalaust hafa hin olíufélögin grætt engu minni upphæðir. Aðeins með því að höggva í gróða þessara félaga væri hægt að ná mjög verulegri upphæð af því, sem nú er talið skorta í Vegasjóð, og þó mundi muna miklu meira um hitt, ef Alþ. ákvæði loksins að fella niður þetta dýra og spillta kerfi og koma upp í staðinn einfaldari og nútímalegri aðferð til þess að dreifa olíu og benzíni á Íslandi. Af því mundi hljótast mikill þjóðhagslegur sparnaður, sem væri þá m. a. hægt að nota sem frambúðartekjur fyrir Vegasjóð.

Þegar farið er að ræða um þessi mál, þá eru fleiri aðilar, sem koma upp í hugann, og hægt væri að skattleggja í stað þess að leggja á nýja neyzluskatta. Hvað er t. d. að segja um verktaka þá, sem nú er falið að leggja vegi á Íslandi á sama tíma og vélar Vegagerðarinnar eru í vaxandi mæli látnar standa ónotaðar? Má ég minna á félag, sem heitir Íslenzkir aðalverktakar og hóf starfsemi sína sem þjónustufélag fyrir erlent hernámslið á Íslandi og safnaði þar mjög verulegum gróða og m. a. mjög stórvirkum tækjum. Þetta félag hefur á undanförnum árum verið að búa um sig í okkar þjóðlífi einnig með því að leggja vegi og byggja hús og standa í ýmiss konar fleiri slíkum framkvæmdum. Ég hygg, að margir þm. muni eftir því ekki síður en ég, þegar þetta félag lánaði ríkissjóði peninga, til þess að hægt væri að leggja vegarspotta hér í námunda við Reykjavík, því að þessu láni fylgdi aðeins eitt ofurlítið skilyrði, og það var það, að Íslenzkir aðalverktakar fengju að leggja veginn, án þess að verkið væri boðið út. Síðan sannaðist það á óvefengjanlegan hátt, að félagið hafði hirt tugi millj. kr. umfram venjulegan gróða af þessari vegarlagningu einni saman. Ef hæstv. ríkisstj. hefði hug á því að skerða gróða þessa auðhrings — þessa raunverulega auðhrings eftir íslenzkum aðstæðum, þá væri hægt að finna þar mjög verulegar upphæðir til þess að leggja í Vegasjóð.

Það má minna á fleiri aðila í þjóðfélaginu. Ég minntist á það áðan, að Vegasjóður væri í vanda, vegna þess að peningarnir höfðu brunnið upp fyrir honum á eldi verðbólgunnar, en þegar peningar brenna upp fyrir einum í verðbólgu, þá eru aðrir aðilar, sem safna fé. Það eru til aðilar ekki sízt hér í Reykjavík, sem á undanförnum verðbólguárum hafa hagnazt mjög stórlega á hverri einustu gengislækkun og hverri einustu óðaverðbólguskriðu. Við höfum þetta fyrir augunum nú þessa mánuði hér í Reykjavík, þegar hér er til að mynda verið að reisa veglegt verzlunarmusteri, sem áður hefur verið gert að umtalsefni hér á þingi og talið er hýsa stærstu kjörbúð á Norðurlöndum — hvorki meira né minna. Fjárfesting í þeirri höll einni saman mun, þegar allt verður talið að lokum, nema hundruðum millj. kr. Og samt hygg ég, að skortur á ágætum verzlunum hafi engan veginn háð Reykvíkingum að undanförnu. Einnig þarna væri hægt að safna fjármunum, ef einhver áhugi væri á því að leggja byrðarnar á aðra en almenning og neytendur. En eina úrræði þeirrar ríkisstj., sem nú situr, er sívaxandi neyzluskattar, söluskattur, benzínskattur, þungaskattur og hvað þeir heita allir þessir skattar. En gagnvart atvinnurekendum — gagnvart auðfyrirtækjum — er áhuginn eingöngu sá að breyta enn skattalögum, þó að þessir aðilar borgi minni gjöld hér á Íslandi en í nokkru landi, þar sem ég þekki til.

Munurinn á þeirri aðferð, sem ég hef verið að lýsa, og þeirri aðferð, sem hæstv. ríkisstj. leggur til, er einnig annar. Neyzluskattar eins og benzínskattur eru verðbólguaukandi. Þeir menn, sem fyrir slíkum skatti verða, munu vafalaust finna úrræði til þess að velta honum af sér áfram. En ef skertur væri gróði stórtekjumanna, sem ég var að benda hér á, þá er sú aðgerð ekki verðbólguaukandi. Þannig væri enginn vandi að finna leiðir til þess að leysa þennan vanda, sem hér er verið að ræða um, ef áhugi væri á því. Ég geri ráð fyrir því, að hv. framsóknarmenn hefðu einnig getað komið auga á slíkar leiðir, en þeir eiga vissulega í nokkrum vanda. Ég skil það ákaflega vel, að það sé erfitt fyrir framsóknarþingmenn að koma hér upp og tala um, að olíufélögin stundi óeðlilega starfsemi á Íslandi. Ég skil það einnig vel, að framsóknarþingmenn eigi erfitt með að koma hér upp og tala um Íslenzka aðalverktaka, vegna þess að það er gamalt helmingaskiptafyrirtæki, sem miðar að því, að Framsfl. fái hlutdeild í hernámsgróðanum til jafns við stjórnarflokkana. Það er af þessum ástæðum, sem Framsókn kemur hér og lýsir fylgi við þetta mál, vegna þess að Framsókn vill ekki ráðast að þeim forréttindaaðilum, sem hægt væri að taka þessa peninga frá, ef það ætti að hætta við að leggja á neyzluskatta.

Hv. síðasti þm. talaði í ræðu sinni hér áðan um það, að það væri hæpin stefna að taka erlend lán til vegagerðar. Ég er algerlega sammála þessu. Ég tel, að það sé mjög hæpin stefna almennt séð. Ég held, að sú skoðun sé rétt, sem lengi var ríkjandi á Íslandi, að erlend lán geti menn tekið til þess að auka útflutningsframleiðsluna, en þegar um sé að ræða mikilvæg verkefni til þess að bæta þjónustu hér innanlands og gera á ýmsan hátt lífvænlegra í landinu, þá verðum við að finna leiðir til að afla þeirra peninga fyrst og fremst innanlands, og þetta er sannarlega ekki óvinnandi vegur, þegar þjóðartekjur Íslendinga eru komnar upp í 40 þús. millj. kr. eins og þær verða á þessu ári eða vel það. Aðeins 1% af þjóðartekjunum er 400 millj. kr., en það er svipuð upphæð og búið er að taka í erlendu láni til vegagerðar. Ég held, að varla verði um það deilt, að auðvelt á að vera að finna slíka upphæð, ef eitthvert lágmarksskipulag er á fjárfestingu í landinu. Sú aðferð að taka erlent lánsfé til þjónustuframkvæmda er hvergi fráleitari en í þjóðfélagi verðbólgu og gengislækkana. Eða hafa menn hugsað þá hugsun til enda, hvernig ástatt verður hjá Vegasjóði eftir gengislækkun? Þá hækkar ekki aðeins aðalundirstaða teknanna, benzínverðið sjálft, heldur yrði að margfalda benzínskattinn til þess að standa undir hinum erlendu lánum, vöxtum og afborgunum af þeim. Menn ættu að kannast við þá endileysu í sambandi við Keflavíkurveginn. Og þá er hætt við, að byrðarnar af umferðinni, sem svo eru kallaðar, verði æðiþungar fyrir bílaeigendur, nema hæstv. ríkisstj. grípi þá til þess ráðs gjaldþrotamannsins að taka ný erlend lán til þess að geta staðið í skilum með vexti og afborganir af þeim fyrri. Þetta, sem ég er að segja hér, er engin fjarstæða. Þetta er sú þróun, sem við þekkjum á seinasta áratug. Og þetta er sú þróun, sem við sjáum óhjákvæmilega fram á.

Ég hef minnzt á það nokkrum sinnum síðustu dagana og skal ekki þreytast á því að minna á það, að sú þróun, sem nú er að gerast á Íslandi, stefnir öll á nýja óðaverðbólgu og nýja kollsteypu næsta haust. Á þessu sumri hækkaði vöruverðið á Íslandi um 2–3 milljarða. Fjárlögin munu hækka um 3–4 milljarða, og áætlanir sveitarfélaganna munu hækka um ótalda milljarða. Það getur engum manni dulizt, að með þessari stefnu er vitandi vits stefnt að nýrri gengislækkun. Og þetta mál, sem við erum að ræða um hér, þ. e. hækkun á benzíni og þungaskatti, er einn liður í þessu dæmi öllu saman. Það er vissulega rétt, að þetta er ekki stærsti liðurinn. Þetta er liður af minna taginu, en samt hefði það verið maklegt, að það hefði orðið sá dropi, sem holar steininn. Ég held, að það hefði verið enn þá eðlilegra hér á Íslandi en í Noregi, að þm. hefðu tekið máli af þessu tagi mjög illa og rætt það mjög alvarlega í sinn hóp, hvort ekki væri kominn tími til að leysa þessa ríkisstj. frá störfum. En því miður skortir okkur þm. enn einlægni og alvöru til að bregðast þannig við vandamálum. Hitt verður maður þó að vona, að sá þingmannahópur, sem kemur hér inn að afloknum kosningum á næsta ári, hafi svolítið aðra eiginleika.