10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (4209)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vil, eins og hv. síðasti ræðumaður, biðjast afsökunar á því, að ég skuli sletta mér fram í annars manns fsp., eins og hann orðaði það, en ég get ekki orða bundizt í sambandi við þetta mál og þá fyrst og fremst þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að fá lækna frá Skandinavíu til þess að gegna læknisstörfum í strjálbýlinu hér á Íslandi, þar sem ekki hefur tekizt að fá íslenzka lækna til starfa. Mér finnst þetta vera okkur til lítils sóma, sérstaklega til lítils sóma fyrir íslenzka læknastétt, og þegar till. þessi var flutt hér í fyrra, þá fylgdi það með í grg., að þetta væri mannúðarmál; og það er rétt, að hér er um mannúðarmál að ræða, og sízt vildi ég gera of lítið úr vandamálum dreifbýlisins, að því er varðar læknaþjónustuna. Við, sem búum úti í sveitunum, þekkjum þetta af eigin raun. En sé hér um mannúðarmál að ræða, þá sýnist mér, að auglýsingar eftir læknum úti í Skandinavíu séu það sama og að auglýsa þar eftir mannúð, sem okkur skortir hér á Íslandi.

Ég er sömu skoðunar og hv. síðasti ræðumaður, að að sjálfsögðu vantar okkur fleiri lækna, en ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að hversu svo sem um verður bætt varðandi fyrirkomulag læknaþjónustunnar, t.d. með læknamiðstöðvum og öðru slíku, þá verður þessi vandi aldrei leystur til fulls, nema til komi hugarfarsbreyting hjá læknum sjálfum og þá fyrst og fremst þeim ungu, að þeir leggi metnað sinn í það að láta fólkið úti í dreifbýlinu njóta þekkingar sinnar- og hæfileika ekki síður en fólkið hér á þéttbýlissvæðinu, fólkið hér á Reykjavíkursvæðinu. Okkur vantar sem sé fleiri lækna, sem prýddir séu eiginleikum þeirra manna, sem starfa nú sem læknar víðs vegar úti um hinar dreifðu byggðir landsins, þeirra ágætu manna, sem una þarna þrátt fyrir skort á lífsþægindum og ýmissi þeirri aðstöðu, sem stéttarbræður þeirra njóta hér á Reykjavíkursvæðinu, — una þarna, vegna þess að þeim eru fullt eins mikils virði þau persónulegu kynni við mannlífið í öllum sínum margbreytileik, sem eru samfara störfum þeirra úti á landsbyggðinni. Ég vil ítreka þetta sem sagt og tel, að það verði aldrei of oft gert og vænti þess, að læknastéttin leggi við eyrun, til þess að þessum málum verði skipað í viðunandi horf, þ.e. að ekki skorti lækna úti á landsbyggðinni. Það þarf að koma til hugarfarsbreyting hjá læknastéttinni sjálfri.