15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

170. mál, vegalög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Mér var það ljóst, að skoðanir mínar og hv. 6. þm. Reykv. eru um margt ólíkar. Mér var það ekki eins ljóst, að hans afstaða til mála byggðist fyrst og fremst á einhverjum annarlegum sjónarmiðum. Þegar ég lýsi stuðningi mínum eða andstöðu, þá get ég gert það út frá málinu einu saman, en þarf ekki að hafa neitt annað annarlegt sjónarmið, eins og þessi hv. 6. þm. Reykv. taldi mig hafa. Ég hef oft og mörgum sinnum talað um vegamál hér á hinu hv. Alþ. Ég hef alltaf lýst þeirri skoðun minni og þeirri bjargföstu stefnu, að það yrði að gera verulegt átak til þess að bæta vegakerfi landsins. Framsfl. hefur sýnt það í afstöðu sinni til vegamála hér á Alþ., að hann hefur lagt sig allan fram um það að hverfa að því, að einmitt yrði bætt úr vegamálunum. Þess vegna er aðdróttunum hv. 6. þm. Reykv. um annarleg sjónarmið vísað hér með heim til föðurhúsanna.

Ég vil í því sambandi minna á það, að Framsfl. stóð að vegalögunum 1963. Hann stóð líka að tekjuöflun í sambandi við Vegasjóð oft og mörgum sinnum. Ég minni einnig á það, að við höfum bent á það, framsóknarmenn, og sérstaklega hef ég haldið því á lofti, að meira af tekjum þeim, sem ríkissjóður fær af umferðinni, yrði að ganga til Vegasjóðs. Ég man ekki til þess, að hv. 6. þm. Reykv. hafi þá staðið upp og reynt að leggja því máli lið, en það er þó eitt af höfuðatriðunum til þess, að við getum gert stórt átak í vegamálum. Hv. 6. þm. Reykv. drap á það, hver væri ástæðan til þess, að Vegasjóð skorti fé. Við 1. umr. þessa máls hér á hv. Alþ. benti ég á það með rökum, að ástæðan væri verðbólgan. Hv. 6. þm. Reykv. var ekki einn um að benda á það. Ég sýndi fram á það, að gengisbreytingarnar hefðu kostað Vegasjóð 164 millj. kr. og verðhækkanirnar á þeim hluta vegáætlunartímabilsins, sem eftir er, þ. e. 1971 og 1972, ásamt gengisbreytingunni kostuðu Vegasjóð um 400 millj. kr. Ég vil benda á, að mergur málsins er, að það þarf að fá meira af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur nú beint frá umferðinni í landinu í vegagerðina, til þess að hægt sé að gera þar stórt átak. Ég vil líka taka það fram, að það hefur ekki verið út í bláinn, þegar er verið að tala um að bæta vegakerfið í landinu. Það er ekki lítill benzínsparnaður í því að keyra góða vegi fremur en þá vegi, sem við verðum að keyra nú. Þarna eru í húfi miklu meiri fjármunir fyrir bílaeigendur en hækkunin á benzínskattinum. Það er stórfelldur munur á benzíneyðslunni, þegar vegirnir eru orðnir góðir eða þegar þeir eru eins og okkar vegir eru almennt.

Ég vil líka benda á það m. a. í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 8. landsk. þm., Steingrími Pálssyni, að eitt af því, sem við höfum orðið að standa frammi fyrir í vetur, hv. alþm., ef þessi breyting væri ekki gerð, yrði að skera niður vegáætlunina. Það var ekki eingöngu verið að afla fjár til hraðbrautanna. Til þess að standa við þær fjárhagsskuldbindingar, sem þegar voru orðnar, hefðum við orðið að skera niður vegaframkvæmdir, sem næmi 128 millj. kr., ef við hefðum ekki haft meiri tekjur til ráðstöfunar en vegáætlunin gerði ráð fyrir. Og ég er ekki reiðubúinn að trúa því, að hv. 8. landsk. þm., Steingrímur Pálsson, eða aðrir hv. þm. hefðu viljað taka þátt í þeim niðurskurði. Ég vil benda á það, að það hafa næstum árlega hrunið brýr á aðalleiðum, eins og á Norðurlandsleiðinni, vegna þess að þær þola ekki orðið þá umferð, sem á þær er lögð. Síðast í fyrra hrundi brú í Heiðarsporði á Holtavörðuheiði. Hvernig var hún byggð? Hún var byggð með því að færa fjárveitingu frá brú, sem á að ljúka við að byggja á næsta ári. Hefði nú hv. 8. landsk. þm. viljað taka þátt í því að skera niður þessa framkvæmd? Ég trúi því ekki. Hv. þm. verða að gera sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að skjóta sér þar á bak við hraðbrautaframkvæmdirnar, vegna þess að við urðum að skera niður áætlaðar framkvæmdir um 128 millj. kr.

Ég vil líka spyrja þess í sambandi við hraðbrautaframkvæmdirnar hér út frá Reykjavík: Hvaða hv. þm. hefði viljað koma í veg fyrir það að byggja nýjar brýr yfir Elliðaár? Þegar flóðin miklu voru hér fyrir 2–3 árum, þá gat farið svo, að Elliðaárbrýrnar hefði tekið af. Hvernig hefði staða hv. þm. verið þá? Við skulum gera okkur grein fyrir því, að hér er ekki um neitt smámál að ræða og hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. Það er engin löngun hjá stjórnarandstöðu til þess að taka þátt í því að leggja á skatta, en stjórnarandstaðan og aðrir hv. þm. verða að gera sér grein fyrir málunum og meta þau, eins og hér hefur verið gert.

Ég skal ekki fara að orðlengja þetta, en ég vil endurtaka það, að það, sem ég sagði hér um daginn, var yfirlýsing um mitt fylgi við þetta mál, og ég vil undirstrika það, að ég met mál að verðleikum, en þarf engin annarleg sjónarmið til þess að fylgja þeim eftir.