10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (4217)

316. mál, raforka til upphitunar

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það kemur í ljós, að hér er um að ræða nokkuð fjölmenna nefnd með víðtækara verkefni en það, sem ég spurði um. Og hæstv. ráðh. upplýsir, að nokkur bið verði á því, að hún skili áliti, og mun það sennilega ekki verða fyrr en á næsta sumri eða varla fyrr en á næsta sumri, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég mun nú ekki ræða þetta mál nánar í þessum fyrirspurnatíma, en það er samt tvennt, sem ég vil leyfa mér að færa í tal. Hið fyrra er það, að í bréfinu, sem hæstv. ráðh. las, frá formanni nefndarinnar, var nokkuð mikið rætt um rannsóknir á hitunarmöguleikum í þéttbýli og hvernig þær eru framkvæmdar, en ég tók ekki eftir því, að neitt að ráði væri þar rætt um rannsókn á hitunarmöguleikum í strjálbýli, sem ég gerði sérstaklega að umtalsefni í ræðu minni áðan. Vera má, að samt hafi verið á þetta minnzt og að eitthvað hafi farið fram hjá mér, en ég vil láta það í ljós sem mína skoðun, að mikil nauðsyn sé á því að athuga þetta jafnframt, þ.e. möguleikana á rafhituninni í strjálbýlinu.

Í öðru lagi vil ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort hann telji ekki möguleika á því, að þeim þætti rannsóknarinnar, sem fjallar um rafhitun, verði sérstaklega hraðað, tekinn fram yfir önnur verkefni, en af ýmsum ástæðum er það aðkallandi að vita um möguleikana á rafhitun til húsahitunar, bæði í þéttbýli og strjálbýli.