10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (4218)

316. mál, raforka til upphitunar

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er aðeins til áréttingar. Þess var getið, að á fullskipuðum rannsóknarnefndarfundum í árslok 1969 og snemma á þessu ári hafi orðið þær niðurstöður, að rétt væri að taka fyrir:

1. Hitun húsa í þéttbýli með olíu, jarðhita og raforku.

2. Hitun húsa í strjálbýli með olíu eða raforku. Stefnt skyldi að því að vinna að þessu hvoru tveggja samtímis. Síðan var gerð grein fyrir því, að Rafmagnsveitur ríkisins hefðu tekið að sér seinni liðinn, athugun á hitun húsa í strjálbýli með olíu eða raforku. En jafnframt kom fram, að Rafmagnsveiturnar hefðu tekið málaleituninni mjög vel, en vegna mikilla anna hjá Rafmagnsveitunum og skorts á mansafla hefur aðeins að litlu leyti verið unnt að vinna að þessum lið enn þá. En það kom hér fram í sambandi við aðra þál. fyrir skömmu og reyndar frv. um Lagarfossvirkjunina, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa einmitt hugsað sér í sambandi við það mál að vinna að því að byggja upp nýjan markað fyrir raforku til upphitunar húsa á því takmarkaða svæði. En að öðru leyti er það rétt, að þessar athuganir hér byggjast á mismunandi hagkvæmni á upphitun með olíu, jarðhita og raforku og í strjálbýlinu með olíu eða raforku.

Ég sagði, að iðnrn. legði áherzlu á, að þessum rannsóknum yrði hraðað, og ég skal sérstaklega taka til athugunar þau tilmæli, sem fram komu um að líta sérstaklega á, hvort hraða mætti öðru fremur verkinu um hitun með raforku. En ég hygg, að e.t.v. verði samanburður mismunandi hagkvæmni það, sem sker úr um það, en engu að síður verð ég að taka það til athugunar.