10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (4225)

321. mál, sjónvarpsmóttaka í Ólafsvík, Rifi, Hellisandi og nágrenni

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég biðst aftur afsökunar á því, að ég skuli enn vera farinn að sletta mér fram í annarra manna fsp., en ég þekki nokkuð til þessara mála og vil því nota tækifærið til þess að segja aðeinsfáein orð.

Það er rétt, að móttökuskilyrði sjónvarps í ólafsvík og á Hellissandi eru ekki eins góð og þau gerast t.a.m. hér í Reykjavík og mættu gjarnan batna, sérstaklega í Ólafsvík, sem fær sendingar í gegnum stöðina á Hellissandi, og þar koma fram þær truflanir, sem sú stöð verður fyrir. En þó tekur út yfir, þegar maður kemur suður fyrir fjallgarðinn, á Breiðuvíkursvæðið, þar eru skilyrðin fyrir neðan allar hellur. Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með sjónvarpi á þessum slóðum, og það er ekki ofmælt, að að því er ekkert gagn eins og er. Hins vegar er þess krafizt, að fólk greiði sín afnotagjöld þarna eins og annars staðar. Menn hafa þybbazt við, sumir greitt ekkert, að ég held, — og lái þeim það hver sem vill, — sumir hálft gjald, og er vissulega vel borgað fyrir það, sem menn fá í sjónvarpinu þarna. Og ég verð að segja, að ég harma það, þegar ég heyri ráðh. taka það hér fram, að endurbætur fyrir þetta fólk séu ekki enn komnar á dagskrá. Ég tel, að þetta megi ekki bíða. Fólkið í þessum byggðarlögum er afskipt um marga hluti, samgöngur, hafnarmál og fleira, og ég tel, að það sé ekki til of mikils mælzt, að hvað sjónvarp snertir verði því gert nokkru lífvænlegra á þessum slóðum.

Mér sýnist, að sjónvarpsmál almennt, hvað dreifbýlið snertir, þurfi nokkurrar athugunar við og endurbóta. Maður tekur t.d. eftir því, þegar maður flytur sjónvarpstækið sitt ofan úr Reykholti og hingað til Reykjavíkur, að það er mikill munur að horfa á það hér í Reykjavík eða þar efra, þar sem við notum Skáneyjarbungustöðina, sem er aðeins rétt fyrir ofan okkur, og maður ætti þess vegna að hafa full not af endurvarpinu þar. Það virðist vera mjög ófullkomið og þyrfti að endurbæta. Og enn eitt vildi ég segja í þessu sambandi, og það er það, að þjónusta við fólkið úti í dreifbýlinu, að því er varðar sjónvarpið, er allt of lítil. Sjónvarpið þarf að senda menn til þess að leiðbeina fólki um stillingu á tækjum og hjálpa til við minni háttar viðgerðir. Það er ekki hægt að senda þessi tæki hingað suður, en í stórum byggðarlögum eru engir menn til þess að leita til með hjálp í þessum efnum. Ég veit ekki nema það ætti jafnvel að skylda þá, sem selja sjónvarpstækin og græða vel á því, að taka einhvern þátt í kostnaði við slíkt. En skipulagið yrði auðvitað að vera í höndum sjónvarpsins sjálfs.