10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (4237)

318. mál, bygging fæðingar- og kvensjúkdómadeildar við Landsspítalann

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hafði hugboð um það, að framkvæmdir í þessu máli væru mjög skammt á veg komnar, en nú er ég þó ekki í neinum vafa um það lengur. Nú liggur það fyrir, að aðeins sé búið að bjóða út lóðirnar og enn þá sé verið að vinna við þær og grafa grunninn og standi til að bjóða byggingarnar út í næsta mánuði. Og svo kemur: Ef fé verður fyrir hendi, þá má gera ráð fyrir, að byggingarnar komist til notkunar 1973–1974. Þetta eru ekki björt fyrirheit um framkvæmdir í aðkallandi máli, það vil ég segja. Heilbrigðisstjórnin viðurkenndi fyrir hartnær tveim árum, að full þörf væri á að taka jákvætt í þessi mál og snarast í framkvæmdir hið fyrsta. Og um það voru vissulega gefin fyrirheit. Hér verð ég því að láta það í ljós, að ég harma mjög þennan silagang um framkvæmdir á bráðnauðsynlegri aðgerð í heilbrigðismálum.