10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (4238)

318. mál, bygging fæðingar- og kvensjúkdómadeildar við Landsspítalann

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þegar bréf barst frá Bandalagi kvenna um ástandið á fæðingardeildinni og kvensjúkdómadeildinni, þá var það vissulega rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. lýsti hér, að það vakti hljómgrunn meðal þm. Einn af þessum þm., sem vildi gjarnan leggja þessu máli lið, var ég, sem hér stend. Ég flutti ásamt fleirum till. í þessu máli. Það er rétt, sem hann sagði líka, að það virtist svo sem þessar till. okkar, mín og hans, mundu ekki fá neina sérstaka meðferð hér fremur en aðrar till., sem við erum vanir að flytja. Svo fór þó fyrir þunga utan að, fyrir atfylgi þeirra, sem að málinu stóðu, að yfirmenn heilbrigðismála töldu, að ekki gæti við svo búið staðið, og viðurkenndu, að hér væri mál, sem þyrfti bráðrar úrlausnar. Í fyrstu, þegar gefnar voru skýrslur um, hvernig byggingarmál þessara stofnana stæðu, þá var sagt, að byggingarframkvæmdir mundu hefjast 1972 og þeim mundi þá ljúka á hæfilegum tíma þar frá. En undir meðferð málsins breyttist þessi tónn, og menn fóru að tala um, að þetta mál skyldi hafa forgang, og við, sem stóðum að flutningi þessara mála, trúðum því, að þessi mál mundu raunverulega verða tekin fram fyrir í heilbrigðisbyggingarmálum landsmanna, vegna þess hvernig ástand þeirra var. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef nú trúað þessu hingað til. En nú kemur skýrslan, og þó að ég hafi ekki við höndina til samanburðar þá skýrslu, sem gefin var hér, þegar mál þessi voru fyrst rædd hér á Alþ., þá get ég ekki betur heyrt en það sé upphaflega byggingarframkvæmdaáætlunin, sem verið er að framkvæma, m.ö.o., að það hafi ekkert verið flýtt fyrir málinu. Nú segir hæstv. heilbrmrh., að byggingin verði fokheld, ef ég hef tekið rétt eftir, 1972 og tilbúin til notkunar 1973–1974, ef fé verður veitt til þess á fjárlögum. Ef þetta er nú niðurstaðan, þá sé ég ekki betur en að ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur hafi áunnizt og þessi málatilbúnaður og umræður, bréfaskriftir, hópgöngur og fjársöfnun hafi allt verið til einskis. Manni verður þá á að spyrja, til hvers er þá verið að þessu? Og ég verð að lýsa sárum vonbrigðum með þessa málsmeðferð. Ég skal ekki ræða málið frekar að þessu sinni.