10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (4241)

323. mál, fasteignamat

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til fjmrh. um gildistöku fasteignamats:

„Hvenær er áformað, að hið nýja fasteignamat taki gildi, og hvað líður endurskoðun opinberra gjalda, sem miðuð eru við fasteignamat, sbr. bráðabirgðaákvæði laga nr. 28 29. apríl 1963?“

Við höfum séð, að það er búið að gera hið nýja fasteignamat, en gildistaka þess á að fara eftir ákvörðun fjmrh. Og það er spurt um það, hvenær ætlunin sé, að það taki gildi. Það ákvæði til bráðabirgða, sem ég vitna til í fsp., er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en nýtt aðalmat fasteigna samkv. lögum þessum gengur í gildi, skal fara fram endurskoðun á gildandi ákvæðum laga, sem fasteignamat hefur áhrif á, og miðist endurskoðunin við, að skattar á fasteignum hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins.“

Það er spurt að því, hvað þessari endurskoðun líði. Það er að sjálfsögðu gengið út frá því, að í gildi standi sú stefnuyfirlýsing, sem lögfest er í þessu bráðabirgðaákvæði, að gjöld hækki ekki vegna hins nýja fasteignamats, og geng ég út frá því, að við það verði staðið, nema annað komi fram.