10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (4243)

323. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég mun hafa vikið að því í fjárlagaræðu, að það væri gert ráð fyrir því, að hið nýja fasteignamat tæki gildi um næstu áramót. Það fól að sjálfsögðu ekki í sér ákveðna dagsetningu, þannig að það er ekkert óeðlilegt við það, að sú fsp. sé fram borin, sem hér er flutt. Matið hefur verið lagt fram, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um. Hins vegar eru mörg formsatriði, sem enn á eftir að uppfylla. Matið á að liggja frammi, hvert á sínum stað, ef svo má segja, í ákveðinn tíma, fimm vikur. Síðan eiga matsnefndir heima í héraði að fella sína úrskurði um það. Þeim er hægt að áfrýja til landsnefndarinnar, landsnefndin þarf síðan að fella sína úrskurði, og aðeins eftir að það hefur verið gert, þá er ráðgert, að fjmrh. staðfesti matið og ákveði gildistöku þess. Miðað við þær horfur, sem nú eru á þessu efni, og þá fresti, sem ég hér gat um, þá geri ég ráð fyrir því, ég get ekki fullyrt það, en ég geri ráð fyrir því, eftir samráð við landsnefndina, að stefnt verði að því, að fasteignamatið taki gildi 1. marz. Ég vil hafa fyrirvara á þessu, en ég held, að það eigi þó ekkert að geta komið í veg fyrir, að svo geti orðið. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að fasteignagjöld og önnur þau gjöld, sem falla um næstu áramót, verða miðuð við hið eldra mat.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, að það eru fjöldamörg önnur gjöld, sem miðuð eru við mat, sem falla undir verksvið hinna ýmsu ráðuneyta. Að vísu mun meginhluti gjaldanna varða sveitarstjórnir og vera á vegum félmrn., en ýmis gjöld eru einnig á vegum hinna ýmsu rn. Það er u.þ.b. ár síðan, að af hálfu fjmrn. var hafin athugun á þessum gjaldabálkum, sem hér er um að ræða. Sumt af því eru lög, annað eru reglugerðir, og síðan var viðkomandi rn. tilkynnt um það, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera af þeirra hálfu varðandi endurskoðun á þeim gjöldum, sem undir þau heyra. Fjmrn. hefur að sjálfsögðu af sinni hálfu einnig framkvæmt athugun á því, hvaða gjöld varða það rn. sérstaklega. Og að því er að sjáifsögðu stefnt, að uppfyllt verði það ákvæði, sem augljóst er, að þarf að uppfylla, hvað sem öllum lagafyrirmælum líður, að þessi gjöld verði endurskoðuð og þeirri endurskoðun lokið og lagabreytingar fengnar, eftir því sem ástæða þykir til og knýjandi er, áður en matið tekur gildi, þegar fasteignamatið verður staðfest.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að í niðurlagsorðum eða bráðabirgðaákvæði laganna um endurskoðun fasteignamatsins er mörkuð sú stefna, að þessi gjöld eigi að endurskoða með það í huga, að þau lækki, þannig að þau hækki ekki samtals þrátt fyrir hið nýja mat, sem að sjálfsögðu er margfalt hærra en eldra matið. Og fyrirspyrjandi segist ganga út frá því, að sú meginstefna, sem þar er mörkuð, sé áfram í fullu gildi. Um þetta skal ég ekkert segja, en ég veit þó um eitt atriði, sem hefur þegar verið fellt úr gildi, af þeim, sem mörkuð var stefna um samkv. þessu bráðabirgðaákvæði, og það er ákvæðið um eignarskatt og eignarútsvör. Eins og hv. þm. er kunnugt um, var fyrir nokkrum árum tekið að margfalda og er nú nífaldað gamla matið til ákvörðunar bæði eignarskatts og eignarútsvars. Og þetta er að sjálfsögðu fráfall frá þeirri stefnu, sem mörkuð var í þessu bráðabirgðaákvæði. Ég hef ekki ákaflega mikla trú á því, að það mat verði lækkað aftur. Hins vegar dettur náttúrlega engum í hug að það verði farið að viðhalda níföldun hins nýja mats, eins og einhvern tíma hefur verið orðað hér á þingi. Það held ég, að sé nú of stjarnfræðileg hugsun til þess, að ég muni láta mér detta það í hug, enda hugkvæmist það engum. En ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, að það er ekki algerlega víst, að öll gjöld verði umreiknuð á þann hátt, að þau breytist að engu leyti í samræmi við þetta, breytist að engu leyti til hækkunar þrátt fyrir hið nýja mat. Ég tel eðlilegt, og þeirri reglu mun verða fylgt varðandi þau gjöld, sem snerta sveitarfélögin, að það mun verða haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og hefur þegar verið gert varðandi ýmsa gjaldstofna. Hvort lagabreytingarnar fela þá í sér einhverja hækkun á þeim, skal ég ekkert um segja. Svo sem nú standa sakir, get ég hins vegar sagt það varðandi þau gjöld, sem varða ríkið, að ekki eru uppi neinar hugmyndir um að hækka þau, þannig að ég geri fullkomlega ráð fyrir, að endurskoðun þeirra reglna, sem hér um ræðir, verði í meginatriðum í samræmi við þá stefnu, sem hér er mörkuð. Hins vegar veit ég, að ég þarf ekki að útskýra það, a.m.k. ekki fyrir þeim hv. þm., sem hér var fyrirspyrjandi, hann er mér í rauninni miklu fróðari maður um það, — að þessi viljayfirlýsing Alþ. bindur auðvitað á engan hátt þingið um það, að þessi lög kunna, þegar þar að kemur, að verða endurskoðuð með einhverjum öðrum hætti en markað er í umræddum lögum, þannig að það verði einhverjar breytingar á þeim gjöldum.

Að lokum aðeins þetta í stuttu máli: Það er stefnt að því að staðfesta matið 1. marz, og það hefur þegar verið lengi að því unnið og einnig stefnt að því, sem er sjálfsagt óumflýjanlegt, að lokið verði endurskoðun þeirra lagaákvæða og reglugerða, sem miðuð eru við fasteignamat, áður en matið tekur gildi.

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson): Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör haus. Hér er um efni að ræða, sem almenning varðar, og ég tel það mikilsvert að fá fram þessar upplýsingar, þó að þær séu gefnar með nokkrum fyrirvara varðandi gildistökudaginn, sem ég tel ekki óeðlilegt, vegna þess að mér er kunnugt, að úr ýmsum málum þarf að greiða í sambandi við það. Ég tel það líka mikilsvert að fá yfirlýsingu um það, að það verði að sjálfsögðu staðið við þá yfirlýsingu í bráðabirgðaákvæði laganna um fasteignamat og fasteignaskráningu, að endurskoðun þeirra lagaákvæða, þar sem gjöld eru miðuð við fasteignamat, fari fram og verði lokið, áður en fasteignamatið nýja tekur gildi. Ég skil hæstv. fjmrh. einnig svo, að það séu ekki sérstakar fyrirætlanir um breytingu þeirra gjalda, og þá leiðir af því það, að öllum þeim gjöldum, sem ákveðin eru með reglugerðum, — og breyting á þeim kemur ekki til kasta Alþ. — sé óheimilt að breyta til hækkunar, þannig að þau eiga að verða hin sömu eða samsvarandi og áður, miðað við gamla fasteignamatið, á meðan þetta bráðabirgðaákvæði stendur óbreytt í lögunum. Hins vegar er mér auðvitað ljóst eins og honum, að að sjálfsögðu getur löggjafinn hvenær sem er komið til sögunnar og tekið nýjar ákvarðanir um þau efni, sem heyra undir hann. En ég er ánægður með þá yfirlýsingu hjá hæstv. ráðh., að það séu ekki uppi neinar sérstakar áætlanir um annað en að fara að meginstefnu til eftir þeirri fyrirsögn, sem í bráðabirgðaákvæðinu felst.