17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (4249)

311. mál, vöruflutningar innanlands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrsti liður fsp. er: „Hvað hefur verið gert til þess að bæta aðstöðu Skipaútgerðar ríkisins til vöruafgreiðslu í Reykjavík?“

Því er til að svara, að það hefur ýmislegt verið gert til athugunar á því, og hafnarstjórinn í Reykjavík hefur bent stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar á það, að hann hefði helzt hugsað sér framtíðarbækistöð Skipaútgerðarinnar á sömu stöðvum og áður, en e.t.v. með því að yfirtaka vöruhús SÍS, sem líklega fengjust til kaups. En við byggingu hábrautar í framhaldi af nyrzta hluta tollhússins mundi fást aukið skemmurúm í grennd við Grófarbryggju, þar sem nú er Geirsgata. Þá benti hafnarstjóri á hugsanlega uppfyllingu vestan við Grófarbryggju með möguleika til byggingar vöruskemmu. Hafnarstjóri kvaðst helzt hafa hugsað sér nefnda framtíðarstöð fyrir Skipaútgerðina í miðri gömlu höfninni m.a. með tilliti til farþegaflutnings með strandferðaskipunum. Á þessu ári var Efnahagsstofnuninni falið að gera nokkra undirbúningskönnun í þessu sambandi, og hefur hún alveg nýlega skilað grg. um málið og virðist helzt hallast að því að mynda framtíðaraðstöðu fyrir Skipaútgerðina við Sundahöfn. Hefur nefnd álitsgerð Efnahagsstofnunarinnar ekki enn verið nánar athuguð af stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar. En það verður vitanlega gert innan skamms. Þessir möguleikar tveir verða athuganir, hvort flytja skal afgreiðsluna inn í Sundahöfn eða reyna að fá bætta aðstöðu við gömlu höfnina, t.d. þá með því að fá þarna hugsanlega uppfyllingu við Grófarbryggju með möguleikum til byggingar vöruskemmu eða þá að yfirtaka vöruhús SÍS, ef það væri falt, sem ekki hefur enn verið kannað til fulls. En þessir möguleikar eru í athugun. Hvaða möguleiki sem valinn verður mun verða kostnaðarsamur, en öllum ber saman um það, að nauðsyn beri til að athuga afgreiðsluaðstöðuna og bæta úr henni frá því, sem verið hefur. En menn skulu ekki láta sér bregða við það, þótt það taki nokkurn tíma, því að nauðsynlegt er að vanda það, sem gera á, og taka þann kostinn, sem beztur reynist eftir nákvæma athugun.

Annar liður fsp. er svo: „Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að greiða fyrir hagkvæmum framflutningi innfluttrar vöru með strandferðaskipunum?“ Það getur nú orðið erfitt að gera mikið í þessu sambandi, en það, sem helzt er hugsanlegt að gera, er það að reyna að taka upp samninga við skipafélögin um það, að þau flytji vöruna eða annist vöruflutningana til viðkomandi hafna með þeim hætti, sem gert var áður, en fyrir nokkrum árum var því hætt, og hefur það vitanlega orðið til þess, að allir flutningar út á land hafa orðið mun dýrari. Það er ekki gott að bæta úr þessu, ef ekki nást samningar við skipafélögin um þetta, en það verður að sjálfsögðu reynt.

Þriðji liður fsp.: „Eru nokkrar sérstakar ráðstafanir fyrirhugaðar til þess að stuðla að sem fyllstri nýtingu á flutningagetu nýju strandferðaskipanna, t.d. með samræmingu á hafnargjöldum og breytingu á farmgjöldum eða á annan hátt?“ Jú, jú, þetta er fyrirhugað. Og ég hygg, að hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, telji, að það hafi verið stigið þýðingarmikið spor, þegar settir voru gjaldmælar í vörubifreiðar, þannig að það verður allt önnur og betri samkeppnisaðstaða hjá Skipaútgerðinni með vöruflutningana eftir að gjaldmælarnir eru komnir í en áður var. En það út af fyrir sig er ekki nóg til þess að tryggja Skipaútgerðinni nægilegan flutning geri ég ráð fyrir. Það verður vitanlega einnig að taka til athugunar farmgjöldin og hafnargjöldin, hvort hægt er að samræma þau og breyta þeim, þannig að samkeppnisaðstaða Skipaútgerðarinnar verði betri. Þetta er allt í athugun, en það tekur einnig tíma, og er ekki hægt að flaustra því af, án þess að það sé vel undirbúið. Seinna strandferðaskipið kemur nú ekki í not fyrr en í febrúar, og það er þá fyrst, sem hægt er að skipuleggja flutningana eins og bezt má verða, en það er unnið að því núna af stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar að skipuleggja þetta og gera till., sem hníga í þá átt að gera aðstöðu Skipaútgerðarinnar betri.