17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (4257)

317. mál, strandferðir norðanlands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Till. um sérstakt strandferðaskip gert út frá Akureyri til strandferða til Austfjarða og Vestfjarða er m.a. til komin af því, að meðan farþegaskipin Esja og Hekla voru í förum, var þeim oft að vetrinum, m.a. vegna nýtingar farþegarýmis, beitt meira á Vestfirði og Austfirði frá Reykjavík en til Norðurlandsins, þar sem farþegarýmið var mjög lítið notað, og urðu þannig fleiri strandferðir milli Reykjavíkur og Austfjarða og Vestfjarða en milli Akureyrar og nefndra landshluta, en þetta töldu verzlunar-, og iðnfyrirtæki á Akureyri sér mjög óhagstætt í samkeppni við Reykjavík. Eftir sölu Heklu og Esju, þ.e. gömlu Heklu og Esju náttúrlega, er búizt við álíka mörgum ferðum strandferðaskipa frá Reykjavík og Akureyri til Austfjarða og Vestfjarða, og ætti því mismunandi samkeppnisaðstaða að hverfa að mestu úr sögunni að þessu leyti. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort þetta eykur vörusendingar með strandferðaskipunum frá Akureyri á ný, en þær hafa á undanförnum árum farið minnkandi, án þess að beinlínis verði um kennt breytingu á ferðaáætlun strandferðaskipanna.

Samkv. skýrslu um flutninga strandferðaskipa ríkisins til og frá Akureyri á árunum 1960, 1965, 1968 og 1969 má sjá, hversu miklir flutningar hafa verið í hverri ferð. Árið 1960 voru 75 viðkomur á Akureyri og flutningsmagnið í ferð 19 tonn. Árið 1965 voru 64 ferðir og flutningsmagnið í ferð 25 tonn. Árið 1968 voru viðkomurnar 59 og flutningar í ferð 15 tonn. Árið 1969 voru viðkomurnar 44 og 15 tonn af vörum í hverri ferð. Athygli skal vakin á því, að í tölunum um meðalþunga varnings frá Akureyri á hverja ferð eru allar vörur frá Akureyri, m.a. til Hornafjarðar, Vestmannaeyja og Reykjavíkur, en í þeim flutningi hefði strandferðaskip gert út frá Akureyri varla tekið þátt. Þyrfti því að verða mikil aukning á markaði fyrir Akureyrarvörur á Austfjörðum og Vestfjörðum við tilkomu umrædds skips, ef nokkur grundvöllur ætti að vera fyrir útgerð þess.

Hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að eðlilegt væri, að erlendum vörum væri skipað út frá Akureyri í Norðurlandsskipið, og má segja, að það væri, ef erlendu vörurnar væru þar fyrir hendi. En áður en það getur orðið, þarf að breyta flutningafyrirkomulaginu þannig, að skipafélögin fáist til þess að sigla með vörurnar beint til Akureyrar og hafa þar birgðastöð. Og þegar það væri orðið, skal ég viðurkenna, að það gæti orðið breyting á með flutningsmagn frá Akureyri til Vestfjarða og Austfjarða. En það má auðvitað velta því fyrir sér, hvaða mismun það gerir á markaðsmöguleikum fyrir þær vörur, sem hér eru helzt til umr., hvort skipaferðir eru t.d. að meðaltali á 10–12 eða 16–17 daga fresti í hvora átt. En auðvitað æskja þess allir að hafa sem örastar samgöngur.

Alkunnugt er, að á Akureyri er heimahöfn myndarlegs flóabáts, Drangs, nærri 200 tonna að brúttólestatölu, sem smíðaður var 1959 til strandferða á Eyjafirði og grennd, og hefur báturinn notið ríkisstyrks samsvarandi því, að útgerðarmaðurinn, Steindór Jónsson, viðurkenndur dugnaðarmaður, gæti greitt afborganir og vexti af erlendu smíðaláni. En verkefni þessa flóabáts hafa minnkað svo, að þrátt fyrir rekstrarstyrk að upphæð 2 millj. kr. á ári 1969–1970, en þjónustuskyldu aðeins 5–6 mánuði á ári yfir veturinn, þá vill útgerðarmaðurinn losna við umrædda þjónustuskyldu og hefur í undanfarin tvö ár með leyfi rn. verið að reyna að selja bátinn. Nú hafa á undanförnum vetrum vegna fæðar skipa og viðgerða þeirra eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum orðið óeðlileg skörð í tíðni strandferða á vegum Skipaútgerðarinnar út frá Akureyri, og taldi forstjóri Skipaútgerðarinnar í þessu sambandi sjálfsagt að gefa hinum verkefnalitla Drangi tækifæri til að fylla upp í nefnd skörð með fyrir fram ákveðnum og auglýstum ferðum, enda ætti þetta heldur að bæta rekstrarafkomu flóabátsins. Fór Drangur á þessum forsendum fjórar auglýstar ferðir til Austfjarða veturinn 1968–1969 og eina ferð s.l. vetur, 1969–1970, en eigandi bátsins taldi útkomuna úr þessum ferðum svo slæma, að hann gerði aukakröfu á Skipaútgerðina um 100 þús. kr. greiðslu vegna hinna fjögurra ferða 1968 og 1969 og 50 þús. kr. kröfu vegna hinnar einu ferðar 1970. Voru ferðir þessar þó farnar á þeim tíma vetrar, þegar bílar áttu ekki að geta keppt nema að mjög takmörkuðu leyti, og einnig á þeim tíma, þegar flóabáturinn hafði þjónustuskyldu út á áðurnefndan rekstrarstyrk frá ríkinu.

Þær upplýsingar, sem fyrir liggja, benda því ekki til þess, að nægjanlegur grundvöllur sé enn fyrir útgerð allstórs strandferðaskips frá Akureyri til takmarkaðra skiptiferða til Austfjarða og Vestfjarða, sem fallið gætu með eðlilegum hætti inn í kerfi annarra vöruflutninga strandferða, þar sem ætlunin er að auka á ýmsan hátt vélræna tækni með nokkuð kostnaðarsömum búnaði, sem lítt mundi henta að hafa á smáskipi. Það er svo sjálfsagt að hafa þetta mál áfram til athugunar og fylgjast með framvindu mála og einnig því, hvort sú breyting verður á aðstæðum, að eðlilegt væri að gera út strandferðaskip frá Akureyri, eins og gert er ráð fyrir í umræddri þáltill. En að svo stöddu virðist ekki vera rekstrargrundvöllur fyrir slíku skipi, og yrði þá að leggja mikinn aukastyrk með því, til þess að það gæti annað þeirri þjónustu, sem því er ætluð.