17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (4264)

324. mál, námslán og námsstyrkir

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Það var nú dálítið stórt upp í sig tekið, fannst mér, þegar hæstv. ráðh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að stórauknar fjárveitingar í þessu skyni hafi ekki staðið í neinu sambandi við baráttu námsmanna á síðasta ári. A.m.k. er dálítið erfitt fyrir okkur Alþb.-menn að draga aðrar ályktanir, vegna þess að við höfum á undanförnum árum á hverju einasta þingi flutt till. um óhjákvæmilegar hækkanir á framlögum í lánasjóðinn. En þessar till. okkar hafa ævinlega verið felldar. Þetta hafa ekki verið óraunsæjar till. Þetta hafa verið þær till., sem nauðsynlegar voru til þess að rétta hlut námsmanna, en eðlilegur málflutningur hér á þingi bar ekki þann árangur, sem ástæða hefur verið til að ætla. Þessi árangur fékkst ekki fyrr en eftir þá atburði, sem hæstv. ráðh. var að tala um.

Það getur vel skeð, að menn leggi á mismunandi hátt saman tvo og tvo. En ég vil benda á, að það eru fleiri en ég, sem draga þessar ályktanir. Ég las fyrir ekki ýkja löngu frásögn í Morgunblaðinu af ræðu, sem einn af forustumönnum Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, hafði haldið á Varðarfundi. Þar gerði hann einnig þessa atburði að umtalsefni og taldi, að atburðarásin leiddi til þess, að menn drægju óhjákvæmilega þá ályktun, að hæstv. ríkisstj. léti einmitt undan, ef baráttan væri háð á þennan hátt utan þingsalanna. Þetta var mat Gunnars Thoroddsens, en ekki mitt, þannig að ég held, að hæstv. ráðh. þurfi ekki að undrast neitt þessa niðurstöðu.

Hæstv. ráðh. viðhafði hér áðan ummæli, sem ég tel ástæðu til að leggja áherslu á. Hann benti á það, að með þeirri hækkun á fjárveitingum, sem kemur í næstu fjárlögum, mundi það ekki taka nema þrjú ár með sama áframhaldi að ná því marki, sem sett var í lögum um námslán og námsstyrki. Og hann sagðist lýsa því yfir, að hann teldi, að það ætti að stefna að þessu marki. Þessu fagna ég mjög, en ég mundi þá einnig vilja gera það að till. minni á óformlegan hátt hér núna, sem hægt væri þá að gera á formlegan hátt síðar, að Alþ. tæki þessa formlegu ákvörðun. Það er ekki eftir að ná nema 1/3, að því er hæstv. ráðh. taldi. Hann taldi, að nú væri fullnægt um 2/3 af umframfjárþörfinni, þannig að nú er þetta verkefni ekki svo stórt, að menn eigi að óttast að taka það á sig. Ég held, að það færi mjög vel á því, að þetta þing breytti sjálfum lögunum, t.d. þannig, að það yrði ákveðið, að á árinu 1974 skyldi þessu marki náð.

Fyrst ég er að ræða við hæstv. menntmrh. um þetta mál, langar mig til þess að beina til hans örlítilli fsp. í viðbót, um smærra atriði að vísu. Það hefur verið rætt um það í nokkur ár, og hæstv. ráðh. hefur gefið vilyrði um það, að stofnað yrði sérstakt starf í tengslum við lánasjóðinn, ráðinn yrði maður, sem hefði það verkefni að aðstoða menn við val á námsgreinum og skólum erlendis. Þarna er um ákaflega mikilvægt verkefni að ræða. Það þarf að safna vitneskju um skóla víða um lönd. Íslendingar fara víða. Þessi maður þyrfti að geta leiðbeint námsmönnum um, hvaða námsgreinar væri skynsamlegt að velja sér og við hvaða skóla væri skynsamlegt að nema. Samband íslenzkra námsmanna erlendis hefur unnið myndarlega að þessum málum á undanförnum árum, en mér er kunnugt um það, að sambandið telur sig ekki hafa bolmagn til þess lengur. Og einmitt þess vegna hefur verið rætt um það í nokkur ár að ráða mann til þess verkefnis, og hæstv. ráðh. hefur tekið vel í það, að það skuli gert, enda hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum í þessu skyni. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort ekki megi vænta þess, að það verði ráðinn maður í þetta verkefni fljótlega.