17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (4275)

326. mál, raforkuframkvæmdir í Norðurlandskjördæmi vestra

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þm. úr Framsfl. að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh. um raforkuframkvæmdir í Norðurl. v.:

„1. Er þess að vænta, að frv. frá ríkisstj. um virkjun Reykjafoss í Skagafirði verði flutt á yfirstandandi Alþingi?

2. Hafa farið fram athuganir á frekari orkuöflun fyrir Norðurl. v., og ef svo er, þá hverjar?“

Ég vil með fáeinum orðum fylgja þessum tveim fsp. úr hlaði og þá minna á, að samkv. viðtali, sem Ríkisútvarpið flutti seint í sumar við yfirverkfræðing frá Orkustofnuninni, kom fram, að verja þyrfti um 250 millj. kr. á næstu fimm árum til svo kallaðra forrannsókna á fallvötnum, og var þá miðað við verðlag á s.l. ári. Með þessum forrannsóknum virðist vera stefnt að áframhaldandi röð stórvirkjana á Þjórsársvæðinu syðra, flutningi stórvatna milli landshluta og Austurlandsvirkjun. Þær rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið í sumar, hafa, að ég tel, staðið í sambandi við þessar stórvirkjanir, og svo er að sjá, að stórvirkjanir í Þjórsá og Tungnaá séu á næsta leiti. Því er nú spurt: En hvað um Norðurland v.? Mikill áhugi ríkir á Norðurl. v. fyrir virkjun Reykjafoss í Svartá í Skagafirði, og munu samtök mynduð um svæðið allt til þess að knýja hana fram. Kapp er og á það lagt, að heimamenn gerist eignaraðilar að virkjuninni. Rannsóknum mun lokið eða a.m.k. munu þær vera á lokastigi. Rafmagnsskortur er þegar orðinn á svæðinu. Menn hafa vænzt þess, að frv. um virkjun yrði lagt fram og afgr. á yfirstandandi þingi. Ég vil minna á, að þótt af Reykjafossvirkjun verði, leysir hún ekki til langframa úr orkuþörf svæðisins, því að hún verður að teljast smávirkjun á nútímamælikvarða. Því er spurt: Hvað tekur þá við? Hafa athuganir farið fram á virkjunarmöguleikum annarra fallvatna á svæðinu og þá hverra, eða hvað hafa þær athuganir leitt í ljós?