16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

170. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hafa hv. alþm. haft nokkuð lengi undir höndum. Fengu það sem trúnaðarmál fyrir u. þ. b. tveimur vikum, áður en málinu var útbýtt, svo að málið er hv. alþm. mjög kunnugt. Þegar verðstöðvunarlögin voru til umr. hér í hv. deild, þá var frá því sagt, að von væri á till. um hækkun á benzíni og þungaskatti til þess að auka tekjur Vegasjóðs. Um leið og þetta frv. felur það í sér að auka tekjur Vegasjóðs, þá eru ofursmávægilegar brtt. við vegalögin, sem talið er nauðsynlegt að fá fram vegna þeirrar reynslu, sem fengin er.

1. gr. frv. er breyt. á 10. gr. laganna, þ. e. að þegar vegáætlun hefur gilt í tvö ár, skuli samin ný vegáætlun til fjögurra næstu ára, þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi áætlun fyrir a. m. k. tvö ár. Það hefur verið svo, að síðasta áætlunarárið liggur ekkert fyrir um það, hvað við tekur næsta ár. Þetta hefur valdið nokkrum erfiðleikum, sem þessari breytingu er ætlað að bæta úr.

Þá er það 2. gr. frv., sem felur í sér breytingu á 14. gr. laganna, þ. e. að leggja skal fyrir sameinað Alþingi till, til þál. um vegáætlun, samkv. 10. gr., svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Eins og lögin eru núna, þá er gert ráð fyrir því, að hún skuli fortakslaust lögð fram, um leið og þing kemur saman. Þetta hefur ekki verið framkvæmanlegt og er leiðinlegt að hafa lögin þannig, að það sé ekki unnt að fylgja þeim bókstaflega fram.

3. gr. frv. fjallar um breytingu á 15. gr. l., og þar er lagt til að leggja fyrir hvert reglulegt Alþ. skýrslu um framkvæmd vegáætlunar. En eins og þetta er nú, þá er ákveðið, að það skuli leggja þessa skýrslu fram í upphafi hvers reglulegs Alþ. Þetta hefur stangazt nokkuð á. Vegaframkvæmdum er ekki lokið svo snemma hausts, þegar þing kemur venjulega saman, og því alls ekki hægt að leggja fram nákvæma skýrslu um framkvæmdir á árinu. Það er ekki unnt að gera það fyrr en undir áramót, þegar framkvæmdum er lokið, og þykir því eðlilegt að breyta lögunum í samræmi við þetta.

5. gr. frv. er um breyt. á 23. gr. l., þar sem gert er ráð fyrir að breyta vegaskattinum vegna nýs fasteignamats, sem undir flestum kringumstæðum hefur hækkað um nærri 20%. Og er þá gert ráð fyrir því í frv., að vegaskattur skuli nema 0.3 af þúsundi af fasteignamatsverði landa og lóða. Ætti þetta að verða nokkuð í samræmi við það, sem var, áður en nýja fasteignamatið kom til.

6. gr. er um breyt. á 85. gr. laganna, og er gert ráð fyrir því að greiða innflutningsgjald af benzíni, sem nemur kr. 7.87 af hverjum lítra í staðinn fyrir kr. 5.67, þ. e. hækkun um kr. 2.10 á lítra. 7. gr. er um þungaskattinn, þar sem gert er ráð fyrir, að hann hækki um 50%. Fyrir bifreiðar, sem nota annað eldsneyti en benzín og eru allt að 2000 kg að eigin þunga, greiðast 22 þús. kr. Fyrir þyngri bifreiðar greiðast auk þess kr. 750 fyrir hver full 100 kg umfram 2000 kg. Af bifreiðum, sem nota benzín að eldsneyti, skal greiða 108 kr. af hverjum 100 kg af eigin þunga þeirra í staðinn fyrir kr. 72. Og 7. gr. er einnig um mælagjald og skatt af bifhjólum, eins og fram kemur.

Í ákvæðum til bráðabirgða segir svo:

„Svo fljótt sem auðið er eftir gildistöku l. þessara, skal leggja fyrir Alþ. till. til vegáætlunar, er gildi fyrir árið 1971, og till. til bráðabirgðavegáætlunar fyrir árið 1972. Fyrir reglulegt Alþ. haustið 1971 skal leggja till. til vegáætlunar samkv. III. kafla vegalaga, sbr. 1. gr. laga þessara, og nái áætlunin yfir árin 1972–1975.“ Er þetta í samræmi við þá breytingu, sem lagt er til að gera samkv. 1. gr. frv. Og enn fremur segir í bráðabirgðaákvæðunum: „Framkvæmdaáætlanir fyrir sýsluvegi 1972–1975 skulu gerðar fyrir 1. október 1971.“

Þetta eru nú aðalatriði frv., en með því að hækka benzín og þungaskatt, eins og hér er lagt til, aukast tekjur Vegasjóðs af benzíngjaldi um 171.4 millj. kr. 1971 og af þungaskatti um 65.9 millj. kr. — samtals 237.3 millj. kr. En þá er einnig gert ráð fyrir því, að framlag ríkissjóðs verði 47 millj. kr., þannig að tekjuaukningin nemi 284.3 millj. kr. En það er talið nauðsynlegt að auka tekjur Vegasjóðs sem þessu nemur á næsta ári. Tekjur Vegasjóðs eða tekjuþörf Vegasjóðs á árinu 1972 er aftur á móti nokkru minni, vegna þess að hallinn á árinu 1969, sem nú verður að borga, var 25 millj. kr. og tekjuáætlunin hafði verið 29 millj. kr. minni en áætlað var. Nú er það leiðrétt og gert ráð fyrir, að með þessari tekjuaukningu verði byggt á réttri vegáætlun og að hallinn frá fyrra ári verði greiddur.

Nú má það vera, að það verði einhver halli á árinu 1970. Það liggur ekki ljóst fyrir enn. En það standa vonir til, að tekjurnar standist betur á þessu ári en 1969, vegna þess að nú hefur verið mikill bifreiðainnflutningur og þess vegna meiri benzíneyðsla. Það hafa sennilega orðið meiri tekjur af gúmmígjaldi, og tekjuáætlun Vegasjóðs ætti að standast betur á árinu 1970 en 1969. Meginástæðan fyrir því, að tekjuáætlun Vegasjóðs stóðst ekki á árinu 1969, var það, hversu bifreiðainnflutningur var lítill. Verði einhver halli á árinu 1970, sem ekki er gert ráð fyrir að brúa með þessu frv., þá er ekki um annað að ræða en ýta því á undan sér og nota þann varasjóð, sem verður til á árinu 1972 til þess að borga þann halla, ef einhver verður. Til þess að jafna tekjuáætlunina með sem nemur 29 millj. kr., borga halla frá árinu 1969, sem nemur 25 millj. kr., og hækka framlag til vegalagninga þjóðvega, til landsbrauta og þjóðbrauta og til vegaviðhalds og brúa bil vegna aukins tilkostnaðar, þarf 128.8 millj. kr. Þessi hækkun er nauðsynleg til þess, að hægt sé að halda fast við þá vegáætlun, sem nú er í gildi, og það er vegna þess, að verðbreytingar hafa orðið miklar, kaup hefur hækkað og kostnaður við framkvæmdirnar aukizt. Þess vegna er ekki við því að búast, að það hafi verið hægt að standa við gildandi vegáætlun nema með því að auka tekjurnar. Tekjur Vegasjóðs uxu ekki í samræmi við það, sem reiknað var með, og miklu minna en kauphækkanir og tilkostnaður við allar framkvæmdirnar. Þess vegna er nauðsynlegt að fá 128.8 millj. kr. til þess að brúa þetta bil og til að borga hallann frá fyrra ári.

Auk þess hefur Vegasjóður tekið á sig skuldbindingar, sem nema 76.3 millj. kr. vegna hraðbrauta, og ákveðið hefur verið að taka lán til hraðbrautagerða samkv. heimild í vegáætlun, sem gefin var á Alþ. fyrir rúmlega ári síðan. Þá er það skuldbinding vegna Vestfjarðaáætlunarinnar, sem nemur 2.6 millj. kr., vegna Skeiða- og Þjórsárdalsvegar 1.9 millj. kr. og vegna Landvegar 1.8 millj. kr. Skeiða- og Þjórsárdalsvegur var endurbyggður, áður en byrjað var að virkja við Búrfell, og borgaði Landsvirkjun helminginn af kostnaði, en Vegasjóður tók að láni helminginn. Eru þetta vextir og afborganir af því láni. Landvegur eyðilagðist á s. l. vori, þegar Hekla gaus og umferðin varð 50- eða jafnvel 100-föld á við það, sem venjulegt var. Þetta var, áður en klakinn fór úr jörðu, og varð því að ráðast í að endurbyggja hluta vegarins. Var tekið lán til þess til tveggja ára, sem verður að endurgreiða á árinu 1971 og 1972. Þetta eru 82.6 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að verja 39.2 millj. kr. til nýbygginga landsbrauta og þjóðbrauta, og hækkun á þéttbýlisframlagi verður 5.7 millj. kr., en þéttbýlisframlagið verður þá samtals, ef þetta frv. verður samþ., 21 millj. kr. Verði þetta lögfest, þá verða til ráðstöfunar hjá Vegasjóði á árinu 1971 auk þeirra lána, sem Vegasjóður tekur á árinu 883.8 millj. kr. Má því búast við, að vegaframkvæmdir gætu orðið allmiklar á næsta ári í hraðbrautum. Það verði þá staðið við gildandi vegáætlun, og auk þess verði nokkurt fé til nýrra framkvæmda, sem mikil þörf er á.

Með þessu frv. eru nokkrar töflur, sem sýna spá um tekjur Vegasjóðs á næstu árum og bifreiðaeign landsmanna eins og áætlað er, að hún verði nokkuð fram í tímann. Það er gert ráð fyrir því, að í árslok 1970 verði bifreiðar samtals rúmlega 45 þús., en í árslok 1972 rúmlega 52 þús. Með auknum bifreiðafjölda aukast tekjur Vegasjóðs, með því að það þarf meira benzín, það þarf meira gúmmí og þungaskattur verður meiri. Það má nú kannske ætla það, að sumum finnist hér nokkuð langt gengið í sambandi við hækkun á benzíni og þungaskatti, og vissulega er hér nokkuð stórt spor stigið. En tekjur Vegasjóðs aukast verulega með þessu, og það verður þá hægara en áður að halda í horfi og auka framkvæmdir.

Hvað hraðbrautaframkvæmdir snertir, er ákveðið að ljúka hraðbrautargerð upp í Kollafjörð á árinu 1972 og einnig austur að Selfossi á því sama ári. Hraðbrautaframkvæmdir eru ákveðnar eftir því, hversu umferðin er mikil. Umferðin á Vesturlandsvegi við Kollafjörð er um 3000 bifreiðar á dag, a. m. k. yfir sumarmánuðina. Og í Svínahrauni hefur umferðin verið mæld 1780 bifreiðar á dag. Þetta eru langfjölförnustu þjóðvegirnir, og er þess vegna fyrst lagt í það að gera hraðbrautir á þessum vegum. Þegar komið er fram hjá Kollafirði, þá snarminnkar umferðin, þannig að hún verður 1100–1200 bílar á dag. En það er vissulega það mikil umferð, að nauðsyn ber til sem fyrst að hraða betri vegagerð á þeim vegi, Vesturlandsveginum, og liggur það vitanlega fyrir, þegar þeim áföngum er lokið, sem nú eru hafnir. Þá er hægt að gera sér grein fyrir því, að þjóðbrautir og landsbrautir víða um land þurfa lagfæringar við og endurbyggingar, og er hér nokkurt fé til ráðstöfunar í því skyni.

Eins og getið er um í frv., þá er gert ráð fyrir því að gera áætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðaáætlun fyrir árið 1972. En haustið 1971 verði hins vegar gerð áætlun fyrir árið 1972 til 1975, og hef ég lýst því, hvers vegna talið er eðlilegt að breyta þessu í lögunum frá því, sem verið hefur.

Frv. þetta var samþ. í hv. Nd. í gær með 24 atkv. gegn einu, og kom það fram, að alþm. voru yfirleitt fylgjandi því að auka tekjur Vegasjóðs með þeim hætti, sem hér er lagt til. Benzínverð eftir þessa hækkun verður hátt á 16. kr. Það er nú kr. 13.30. Það hækkaði á s. l. sumri um 80 aura lítrinn vegna hækkana á flutningsgjöldum og innkaupsverði erlendis. Það er auðvitað engu hægt að spá um það, hvort innkaupsverð lækkar á benzíni eða flutningsgjöld lækka á næstunni, en vissulega getur maður vonað það. Það kom á óvart þessi mikla hækkun, og kæmi það þá til góða. En eins og ég sagði, þá má segja, að benzínið verði hátt á 16. kr. — 15 kr. og 60–70–80 aura. Það er vitanlega nokkuð hátt, en þess má geta, að í Noregi er benzínverðið nú kr. 1.50 norskar, sem gerir kr. 1 18.45 íslenzkar. Það má einnig geta þess, að benzínverð í Svíþjóð mun vera nú sem svarar um 19 kr. íslenzkum, og benzínverðið í nágrannalöndunum er víðast hvar hærra en hérna.

Þungaskattur er einnig mjög hár í flestum nágrannalöndunum, en hagast er að bera sig saman við Noreg, sem hefur gjaldmæla í dísilbifreiðum eins og við. Og í fréttum heyrðum við það, að það varð nokkur úlfaþytur í stjórnarliðinu út af þungaskattinum. En þungaskatturinn í Noregi er allmiklu hærri nú fyrir þá hækkun, sem er fyrirhuguð hjá þeim, en hann verður hér, þó að þetta frv. verði lögfest. En menn geta sagt sem svo: Það þýðir ekkert að vera að bera þetta saman, hvorki benzínverð né þungaskatt, m. a. vegna þess að greiðslugeta er hærri þar en hér. Þetta geta menn sagt, en jafnvel þótt launatekjur undir vissum kringumstæðum séu hærri erlendis en hér, þá er ekki þar með sagt, að kaupmáttur launanna þar sé mun betri en hér eða að það sé hægara að lifa af laununum þar en hér. En þegar tillit er tekið til alls, svo sem trygginga, verðs á nauðsynjum — brýnustu nauðsynjum, húsnæði og því um líku — og skatta, kemur í ljós, að það er mjög vafasamt, að þótt menn í nágrannalöndunum fái sums staðar nokkru hærra mánaðarkaup, verði launin nokkuð drýgri hjá þeim eða lífskjörin betri hjá þeim en okkur.

En það, sem máli skiptir, er það, að þegar þungaskattur og benzín er hækkað í Noregi og nágrannalöndunum, þá eru rökin fyrir þeirri hækkun nákvæmlega þau sömu og hér. Ég las það í norsku blaði fyrir stuttu, að þeir þyrftu að nota þessa hækkun til þess að endurbyggja vegina, gera burðarþol þeirra meira og gera vegina betri til aksturs víða um Noreg en þeir nú eru. Og það er nákvæmlega þetta, sem við ætlum að gera. Við notum þessa tekjuaukningu til þess að bæta vegina. Og við erum sannfærðir um það, að þegar til lengdar lætur, þá er það betra fyrir bifreiðaeigendur og fyrir vegfarendur að borga nokkuð meira fyrir benzínið og meira í þungaskatt til þess að fá betri vegi til þess að aka eftir. Með því verður slitið minna á ökutækinu og minna brennsluefni þarf til en ef við búum áfram við lágt benzínverð, lágan þungaskatt en lélega vegi. Þetta veit ég, að hv. alþm. í Ed. vita allt saman.

Ég veit einnig, að þeir hafa kynnt sér nákvæmlega þetta frv., og það er þess vegna ekki þörf á því að hafa fleiri orð að sinni um málið til skýringar því, sem er ætlunin með þessu frv. Ég vænti þess, að það verði samstaða í þessari hv. d. eins og í hv. Nd. um málið og við getum afgr. það og gert það að lögum nú fyrir jólin. Ég legg til, herra forseti, að að aflokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.