24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (4283)

66. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Nú á tímum er mikið rætt um iðnað og iðnvæðingu sem undirstöðu atvinnulífsins ásamt landbúnaði og sjávarútvegi. Fámenn byggðarlög eiga mörg hver í vök að verjast í samkeppni við þéttbýlið, sem jafnan á léttara með að renna stoðum undir atvinnulífið. Dalasýsla er eingöngu landbúnaðarhérað, og allir þar lifa beint eða óbeint af landbúnaði. Þar eru víða þykk leirlög í jörðu, og hinn kunni listamaður Guðmundur Einarsson frá Miðdal notaði mikið Búðardalsleirinn í ýmsa muni, er hann smíðaði. Hann sagði m.a. um þennan leir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 25 ár hef ég mestmegnis notað leir frá Búðardal og unnið hann bæði í vélum og svo til vandaðasta listiðnaðar. Eru nú gripir úr því efni víða á erlendum söfnum og í einkaeign, og fyrir vorn eiginn markað hefur verið unnið meira úr þeim leir en öllum öðrum tegundum samanlagt.“

Á Alþ. 13. febr. 1957 var samþ. svo hljóðandi till., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fullrannsaka, hvort hagkvæmt muni vera að reka leirverksmiðju í Dalasýslu, og jafnframt gera athugun á því, hvar leirlög séu í landinu, sem bezt henta til leiriðnaðar í stórum stíl.“

Síðan till. þessi var samþ. eru allmörg ár liðin, og mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan. Og vafalaust hefur unnizt tími til á þessum mörgu árum að rannsaka það, sem till. þessi fer fram á. Spurning mín er þessi: Hvað líður framkvæmd þál. frá 13. febr. 1957, um undirbúning leirverksmiðju í Dalasýslu o. fl.?