24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (4286)

66. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Till. þá, sem hér um ræðir, flutti ég á sínum tíma, og var hún samþ. snemma árs 1957. Till. var mótuð í samráði við Guðmund Einarsson myndhöggvara frá Miðdal, eins og hér hefur komið fram, því að hann hafði þá allra manna mest og bezt unnið að rannsókn þessara mála hér á landi. Hann átti þá þegar allmikið af vélakosti til að hefja slíka vinnslu. Það, sem hann taldi, að fyrst og fremst þyrfti að vera fyrir hendi til þess að slíka verksmiðju mætti reisa, var gnægð hráefnis, góðar samgöngur og næg raforka.

Það er rétt, að enda þótt þessi till. hlyti einróma samþykki hér á hv. Alþ., þá er mér ekki kunnugt um, að hið opinbera hafi unnið mikið að könnun málsins. Hins vegar minnist ég þess, að á sínum tíma ræddi ég við tvo kunningja mína frá skólaárunum, tvo verkfræðinga, Aðalstein Júlíusson og Einar Sigurðsson, og voru þeir áhugamenn um þetta mál. Man ég, að athuganir komust svo langt okkar á meðal, að til Búðardals kom sænskur leirverksmiðjuforstjóri, sem hér var á ferð, kynntur íslenzkri konu. Tók hann sýnishorn nokkur af leir frá Búðardal og lét rannsaka þau erlendis, í Svíþjóð og Danmörku, og gáfu þau góða raun. Þá voru ýmsar hugmyndir á lofti, m.a. þær, að efnafræðingar einhverjir höfðu látið í ljós þá skoðun sína, að e.t.v. mætti vinna úr leir bauxít, sem er undirstöðuefni í áliðnaði, og fleiri hugmyndir voru á kreiki. Þetta hefur lítið verið rannsakað, og e.t.v. er þetta atriði meira út í bláinn en það sé raunhæft.

En ég vil aðeins benda á, að sé miðað við þau meginskilyrði, sem Guðmundur frá Miðdal nefndi, þá eru aðstæður allar betri nú. Það er í fyrsta lagi gnægð hráefnis. Samgöngur eru orðnar mun betri og verða væntanlega á næstu árum enn þá betri. Ég vil aðeins benda á Heydalsveg. Þegar þeim áfanga verður náð, að hægt verður að fara Heydalsveg, þýðir það, að unnt verður að fara yfir Snæfellsnesfjallgarð í aðeins 150–160 m hæð yfir sjó í staðinn fyrir veginn um Bröttubrekku, sem er fast að 400 m yfir sjávarmáli. Einnig vil ég nefna, að 1957 var engin rafveita í Dalasýslu. Það var fyrst 1960, að rafstöðin var byggð í Búðardal. Hitt er svo annað mál, og það vitum við allir, að jarðefni Íslands eru lítt rannsökuð enn. Þar er áreiðanlega víða um gnægð verðmæta að ræða, sem rannsaka þarf og vinna betur að en gert hefur verið. Þess vegna ber að fagna því, að þetta efni er nú aftur tekið á dagskrá. Væntanlega verður unnið að því að safna saman öllum upplýsingum, sem fyrir hendi eru um þetta mál, og stuðla að lausn þess á grundvelli þeirra gagna, ef þau reynast nægilega traust.