16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

170. mál, vegalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með langri ræðu um þetta mál. Mig langar aðeins til þess að gera grein fyrir atkv. mínu með örfáum orðum.

Það ber talsvert á þeirri skoðun, að það sé sjálfsagt, að stjórnarandstæðingar séu yfirleitt á móti málum, sem frá stjórninni koma, og greiði atkv. gegn þeim. Það er kannske afsakanlegt, að þetta er talsvert útbreidd skoðun, vegna þess að málsgögn stjórnarinnar og stjórnarsinnar eða talsmenn þeirra hafa verið ákaflega iðnir við það á undanförnum árum að halda því fram, að stjórnarandstaðan væri ábyrgðarlaus og að hún væri bara alltaf á móti.

Allir þeir, sem hér sitja, vita, að þetta er rangt. Við höfum margoft greitt atkv. með málum, sem stjórnin hefur flutt, og í þessu sambandi er þess skemmst að minnast, að þegar vegalögin voru sett 1963, þá var samstaða um þau og stjórnarandstæðingar greiddu atkv. með þeim. Og með þeim átti miklum áfanga að vera náð, og Vegasjóður var stofnaður. En Vegasjóður hefur því miður annað slagið síðan orðið tómur eða tómahljóð nokkurt verið í honum, og þá hefur komið til kasta þm. á nýjan leik að fylla í þær eyður. Og þm. hafa brugðizt ákaflega vel við málaleitun í því efni, verð ég að segja. Og það er ekki lengra síðan en 1968, að tómahljóð var í Vegasjóði, og það varð samkomulag um það að auka þá þær tekjur, sem Vegasjóði eru ætlaðar og það mjög verulega.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að sú kenning sé rétt, að stjórnarandstaða hljóti alltaf og eigi yfirleitt að vera á móti því, sem frá stjórn kemur. Ég mun fyrir mitt leyti ekki fylgja þeirri aðferð, heldur mun ég meta þau mál, sem frá ríkisstj. koma hverju sinni, og fylgja þeim, sem mér þykja horfa til heilla og gagns, og eins fylgja þeim ráðstöfunum, sem ég tel nauðsynlegar til þess að leysa úr brýnum vanda eða úr þjóðfélagslegri þörf.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er að vísu ekkert álitlegt eitt út af fyrir sig, og það má sannarlega segja, að það sé ekkert fagnaðarefni. En ég mun samt fylgja þessu frv. Ég geri það að vísu ekki með neitt glöðu geði, heldur af illri nauðsyn. Ég tel það neyðarúrræði að þurfa að samþykkja jafnstórfelldar álögur, eins og hér er um að tefla, því að vitaskuld er þetta mjög tilfinnanlegur skattur, sem þarna er ráðgert að leggja á ökutæki og ekki sízt, þegar þess er gætt, að hér er vegið í sama knérunn, ef svo má segja. Það er ekki lengra síðan en 1968, að þessi gjöld voru hækkuð mjög verulega, þungaskatturinn t. d. hækkaður um 100%, ef ég man rétt. Það liggur í augum uppi, að ef þeir aðilar, sem þessi skattur er á lagður, eiga að bera hann án þess að geta komið honum yfir á aðra að einhverju leyti, þá er hann og verður hann þeim verulega tilfinnanlegur. En hitt finnst mér ekki ósennilegra, að þessar álögur komist með einhverjum hætti út í verðlagið og það óðar en varir. Og þá er það náttúrlega ekki ánægjuleg staðreynd að þurfa að samþykkja slíkar álögur sem þessar, rétt eftir að búið er að samþykkja verðstöðvun.

En á hinn bóginn er á það að líta, að þörf fyrir vegagerð er mjög mikil. Þörfin kallar á nýja vegi, bæði að því er snertir landsbrautir og þjóðbrautir. Því miður búa margir enn í þessu landi við algerlega ófullnægjandi vegi og nánast vegleysur. Það þarf að gera brýr, og við þurfum auðvitað að fara að vinna að því og erum byrjaðir að vinna að því — og það tel ég rétta stefnu — að gera hér varanlega vegi. Þessi þörf er því mjög mikil, og það þarf auðvitað ekki að vera að eyða orðum að því hér, hver nauðsyn góðir vegir eru og hvílík skilyrði þeir eru fyrir öðrum framförum og velferðarlífi í landinu.

Ég verð þess vegna að segja um þetta mál, að mér finnst vera um tvo kosti að velja og hvorugur kosturinn er góður. Annars vegar að láta ástand í vegamálum fara versnandi, en á það má sízt bæta, vegna þess að viðhaldi vega er, eins og flestir þekkja til, mjög ábótavant viða, og þörfin fyrir nýja vegi er, eins og ég sagði áðan, víða brýn og aðkallandi, þannig að ef ekki væri að gert og ekki væri hægt að standa við þá vegáætlun, sem síðast var gerð, þá mundi að mínum dómi ástandið í þessum efnum verða mjög óviðunandi. Hinn kosturinn er sá að auka tekjur Vegasjóðs, svo sem hér er ráð fyrir gert og með þeim hætti, sem þar er um að tefla. Og eins og ég hef lítillega vikið að, þá er sá kostur engan veginn góður, en hann er þó að mínum dómi skárri, og af tveimur slæmum vei ég skárri kostinn og mun þess vegna, eins og ég sagði, fylgja þessu frv.

Við framsóknarmenn höfum yfirleitt að undanförnu — og ég held alltaf, þegar þessi mál hefur borið á góma og þau hafa komið til kasta þingsins — fylgt því fram að veita meiri tekjum til Vegasjóðs. Og það er raunar margyfirlýst stefna okkar, sem hefur verið undirstrikuð með þingmálum æ ofan í æ, að tekjur af umferðinni á landi ættu að sem mestu leyti að ganga til veganna. Það sjónarmið hefur ekki náð fram að ganga, þó að segja megi, að nokkuð hafi þokazt í þá átt.

Hinu geta menn svo velt fyrir sér, af hverju þessi fjárþörf Vegasjóðs sé nú fyrir hendi og hvers vegna það skorti mjög mikið upp á, að tekjur hans hrökkvi til þess að standa við þá vegáætlun, sem gerð var fyrir tveimur árum síðan. Og þá geta menn auðvitað sagt eins og hæstv. ráðh.: Kostnaður hefur aukizt, og kaup hefur hækkað. Og vissulega er það rétt. Hvers vegna hefur kaup hækkað? Og hvers vegna hefur kostnaður vaxið á þessum tveimur árum? Skyldi ekki framfærslukostnaður hafa hækkað? Og skyldu menn ekki hafa haft þörf fyrir hærra kaup? Jú. Og hvers vegna hefur verðlag hækkað? Ég held án þess að fara frekar út í það að sinni, að rótin verði ekki vandfundin til þeirrar stórkostlegu verðbólgusveiflu, sem átt hefur sér stað á s. l. tveimur árum. Það eru gengisfellingarnar — gengisbreytingarnar 1967 og 1968. Þetta er mjög einfalt mál, og það skilur hver maður, þegar um er talað á venjulegan hátt, og fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt, hvernig sem menn reyna að vefja umbúðir utan um. En það er staðreynd, sem verður að horfast í augu við nú, að svona er komið, hver svo sem orsökin er til þess, og verður náttúrlega að haga sér í samræmi við það í þessu sambandi. En eigi að síður er auðvitað rétt að gera sér grein fyrir rótinni í þessum efnum. En eins og þetta frv. ber með sér, fer einmitt verulegur hluti af þessum auknu tekjum, sem hér er um að ræða og Vegasjóði eru ætlaðar, til þess að standa undir því, sem þarf til þess að halda í horfi með þá vegáætlun, sem gerð var fyrir tveimur árum síðan, og til þess að standa undir halla, sem í því efni varð á s. i. ári. Um leið hefur þó nokkuð fengizt til nýrra framkvæmda, eins og gerð er grein fyrir í þessu frv. og hæstv. ráðh. vék að. Það tel ég ávinning, og það er ein ástæðan fyrir því, að ég fylgi nú þessu frv. þrátt fyrir það, að ég sjái þarna ýmsa annmarka á.

Og það er náttúrlega satt að segja ekki ánægjuleg tilhugsun að eiga kannske von á því að þurfa alltaf á tveggja eða þriggja ára fresti — eða hvað sem það nú er — að vera að samþykkja nýjar og nýjar álögur til þess að fylla í tómarúm í þessum sjóði. En sagan að undanförnu hefur eiginlega verið á þá lund —því miður. Og þó að nú sé verið að gera hér fallega áætlun um framtíðartekjuástand í þessum efnum, hver er þá kominn til með að segja, að sagan muni ekki endurtaka sig? Hún endurtekur sig, ef sagan á öðrum sviðum verður látin endurtaka sig hér, ef það er t. d. grípið til nýrra gengisfellinga, því að það gefur auga leið, hvernig slíkt fer með aðstöðu Vegasjóðs — ekki aðeins vegna þess að auðvitað hækkar tilkostnaður og kaup, eins og hæstv. ráðh. sagði, heldur er það líka svo, að við höfum verið — sem ég tel réttmætt út af fyrir sig — að framkvæma fyrir lánsfé, og það lánsfé er fengið erlendis frá, og það liggur í augum uppi, hver áhrif það hefur á afborganir og greiðslur í sambandi við slík lán, ef þannig breytingar verða. Ég skal ekki fara lengra út í það, og ég er þegar búinn að gera grein fyrir mínu atkv., svo sem ég ætlaði að gera. Ég mun fylgja málinu, enda þótt mér sé satt að segja um og ó í því efni, og ég held, að við verðum að átta okkur á því, að það verður að eiga sér stað breyting í þessu efni. Ég held, að það verði að athuga, hvort það þarf ekki að festa meira af tekjum af umferðinni handa Vegasjóði í framtíðinni. Ég hef ekki raunverulega trú á því, að við komumst frá þessum stóru og miklu málum, sem vegamálin eru, nema með þeim hætti.

Ég skal ekki neita því, að mér hefði þótt æskilegt, að það hefði verið hægt að hafa þessar álögur á ökutækin allmiklu lægri, en ríkissjóður hefði í þess stað komið til móts við þörfina og lagt meira af mörkum en hann gerir. En um það tjóar ekki að tala. Um það hefur ekki náðst samkomulag, og allir vitum við það, að á ríkissjóð hafa þegar verið lagðir nokkuð þungir baggar, og má vera, að nokkuð sé óvíst, hvort hann stendur undir þeim þyngri. Þó hygg ég, að tekjuöflun hjá ríkissjóði hljóti að verða svo mikil, að hann hefði með góðum vilja getað lagt eitthvað meira af mörkum í Vegasjóð. Og ég held, að það þyrfti í öllu falli að marka alveg þá stefnu, að ríkissjóður tæki að sér afborganir og vaxtagreiðslur af eldri lánunum, því að hann gerir það að verulegu leyti núna. En það verður náttúrlega líka að hafa framtíðina í huga í þessu efni, og sé haldið áfram að taka lán, erlend lán, og svo skellur kannske á mjög svipað eins og áður, þ. e. gengisbreytingar, sem ég vil ekki spá og er ekki að spá, þá verður Vegasjóður alltaf magnlítill, ef honum er ætlað að standa undir slíku.

Ég skal ekkert fara út í það að ræða það, sem hæstv. ráðh. vék að í þessu sambandi, því að hann svaraði sér þar í raun og veru alveg sjálfur, þegar hann taldi það fram sem rök fyrir og réttlætingu á þessari hækkun á benzín- og þungaskatti, að þetta væri nú hærra erlendis. En eins og hann sjálfur réttilega tók fram, þá er allur slíkur samanburður út í bláinn, því að það eru svo margar óþekktar stærðir, sem er um að tefla, og mörg atriði, sem yrði að taka inn í þann samanburð, ef hann ætti að gefa rétta niðurstöðu, þannig að hann segir eiginlega ekki neitt. En hitt er vitað mál líka, sem verður að taka með í reikninginn í því sambandi, að vegirnir eru nú víðast hvar í útlöndum mun betri en hér. Þess vegna verður úthald bílanna betra en hér, kostnaður af þeim sökum minni við þá en hér og líka hygg ég — t. d. í sambandi við þungaskattinn — að þeir geti flutt þar þyngra hlass en hér. En hæstv. ráðh. vék að því, að upp úr þessu væri ekki mikið leggjandi, svo að ég skal ekki tefja tímann á því frekar.

Um einstök atriði í þessu frv. skal ég svo ekki ræða nema 2. gr., sem ég felli mig ekki við. En þar er það lagt til, að því ákvæði, sem nú er í l., um, að vegáætlun skuli lögð fram samtímis fjárlagafrv. eða hún skuli verða samferða því, verði breytt á þá lund sem segir í 2. gr., að leggja skuli fyrir sameinað Alþ. till. til þál. um vegáætlun svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Það eru í aths. færðar fram ástæður fyrir þessu, en um þær ástæður verð ég að segja, að mér þykja þær ekki sannfærandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd hefur þetta reynzt miklum erfiðleikum bundið og ekki talið æskilegt að tengja þetta tvennt jafnfortakslaust saman.“

Hver segir þetta? Og sjónarmið hvers er þetta? Það má segja, að hæstv. ráðh. hafi gert það að sínu með því að leggja þetta frv. fram. En ég lít nokkuð öðruvísi á þetta. Ég lít svo á, að vegáætlunin sé ekkert annað en þáttur fjárl. og það veigamikill þáttur fjárl., og ég álít það í alla staði eðlilegt, að þetta tvennt fylgist að, og ég álít, að á þessu eigi ekkert að slaka. Ég veit, að framkvæmdin hefur ekki verið alveg í samræmi við þetta. En ég trúi því ekki, að það séu nein veruleg vandkvæði á því að fylgja þessu fram í framkvæmd, eins og nú er lögboðið, þ. e. að vegáætlunin fylgi fjárlagafrv. Skýrslan um vegáætlunina og framkvæmdin á henni eru sitt hvað. Það er eðlilegt, að ekki sé hægt að leggja hana fram alveg í upphafi þings. Ég hef ekkert við það ákvæði að athuga. Ekki ætla ég að fara að gera þetta að neinu stóru atriði, en skýt því svona til n., sem fær þetta til meðferðar, hvort hún ætti ekki að taka þetta til yfirvegunar og hvort það sé ekki rétt að halda sig við það, sem í I. er ákveðið. Ég get ekki sætt mig við það, sem mér virðist allt of mikið bera á, að það er um sinn ekki farið eftir l. í framkvæmd, og svo kemur framkvæmdavaldið og fer þess á leit, að l. sé bara breytt í samræmi við sleifarlag, sem hefur verið. Ég held, að þetta sé ekki góður háttur. Ég held, að handhafar framkvæmdavaldsins, ríkisstofnanir — í þessu tilfelli vegamálaskrifstofan — verði að laga sig eftir l. að þessu leyti, og ég held, að það eigi ekki að vera nein veruleg vandkvæði á því.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það er ekki ástæða til þess, þar sem það er svo, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, að við höfum séð þetta áður og um það er samkomulag í meginatriðum. En ég taldi rétt að gera þessa stuttu grein fyrir mínum sjónarmiðum í þessu máli.