24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (4291)

329. mál, virkjunarmöguleikar í Skjálfandafljóti

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en það er auðvitað enginn tími nú til þess að ræða þau mál, sem hér er fjallað um. Ég vil þó segja það, að mér þykir þetta dálítið einkennilegt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., þegar hann skýrði frá því, að Orkustofnun hefði að eigin frumkvæði verið að láta fara fram rannsókn á vatnaflutningum milli landshluta. Ég hefði haldið, að þar sem hér er um kostnaðarsamar rannsóknir að ræða, þá mundi Orkustofnunin ekki gera slíkt að sínu eigin frumkvæði, heldur að tilmælum rn.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að athugun hefði farið fram frá því í vor á þessum virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti og við Dettifoss, og auðvitað er það svo, fyrst hann segir það, en fólk á þessum svæðum hefur ákaflega lítið orðið vart við þessar rannsóknir. Þetta hljóta því aðallega að hafa verið rannsóknir, sem gerðar hafa verið á Orkumálaskrifstofunni, sjálfsagt eftir kortum. Mér er kunnugt um það, að verkfræðingur hefur gert einhverjar lauslegar athuganir á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn. Og ég hygg, að það hafi verið, eins og ég sagði áðan, mjög lausleg áætlun, þannig að á henni sé nú varla hægt að byggja ályktanir varðandi kostnað við orkuna. Ég hef séð eina slíka skýrslu, sem tók yfir eina bls., og mér sýnist það, að sú grg, sé það ófullkomin, að það sé varla hægt að gera sér grein fyrir kostnaðinum, þannig að hægt sé að bera saman við annað, en hæstv. ráðh. sagði, að niðurstaðan væri sú, að orkan frá Skjálfandafljóti mundi verða 30% dýrari heldur en orka frá Laxá við Brúar miðað við 23 m vatnsborðshækkun í Laxá. Þessir 23 m er tala, sem mér kemur að vísu nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir. Um hana hefur ekki verið talað fyrr en þá mjög nýlega, heldur aðrar tölur.

Hæstv. ráðh. sagði, að Dettifossvirkjun kæmi ekki til greina fyrir almennan markað á Norðurlandi. Það er nú svo, að ég er honum sammála um það, að virkjun 100 þús. kw við Dettifoss kemur ekki til greina, ef ekki er um annað að ræða en hinn almenna markað, eins og hann er nú, en ef Dettifoss væri virkjaður og komið upp iðnaði, sem þyrfti á mikilli raforku að halda, þá gæti það auðvitað farið saman, að hann fullnægði slíkum iðnaði. Ég get nefnt t.d. 30 þús. tonna alúmínverksmiðju, svo að eitthvað sé nefnt, og hinum almenna markaði.

Það er haft eftir jarðfræðingum nú, að það sé að verða vafasamara, að hentugt sé að byggja neðanjarðarstöð vegna jarðvegsins við Jökulsá, og kemur mér þetta nú reyndar nokkuð á óvart, því að þannig var komizt að orði á sínum tíma í skýrslu Orkumálastofnunarinnar, að Dettifossáætlunin væri traust áætlun, eða a.m.k. hefði verið rætt um að gera trausta Dettifossáætlun. Um sprungurnar í hraununum hefur mönnum náttúrlega lengi verið kunnugt eða frá ómunatíð.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég tel mér fært að ræða að þessu sinni, af því að tíminn er svo takmarkaður, en ég vil mega treysta því eftir að hafa heyrt svar hæstv. ráðh., að þessum rannsóknum verði haldið áfram af fullum krafti og að þær verði látnar sitja fyrir öðrum meiri háttar rannsóknum á fallvötnum landsins, því að fyrirheit hefur verið gefið um, að þessum rannsóknum verði hraðað.