24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (4297)

103. mál, samgöngumöguleikar yfir Hvalfjörð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hinn 17. maí 1967 skipaði rn. þriggja manna nefnd samkv. þál. frá 18. apríl 1967 til þess að gera fullnaðarrannsókn á samgöngumöguleikum yfir Hvalfjörð. Skyldi nefndin skila áliti eigi síðar en í árslok 1968. Í nefnd þessa voru skipaðir Björgvin Sæmundsson bæjarstjóri á Akranesi, Gústaf E. Pálsson borgarverkfræðingur, Reykjavík, og Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, og var sá síðastnefndi skipaður formaður. Nefndin hélt fyrsta fund sinn 8. júní 1967, og var þá gerð starfsáætlun fyrir það ár. Á þeim fundi var einnig ákveðið að ráða Guðlaug Þorvaldsson prófessor sem hagfræðilegan ráðunaut nefndarinnar.

Samkvæmt starfsáætlun nefndarinnar var þetta gert á árinu 1967: Komið var fyrir sjálfritandi umferðarteljara við Fossá í Kjós, og einnig var umferð talin í eina viku allan sólarhringinn við vegamót Vesturlandsvegar og Akranesvegar í júlí, ágúst og okt. Til þess að fá hugmynd um vöruflutninga um Hvalfjörð og hvernig þeir dreifast, var öllum flutningafyrirtækjum, sem afgreiðslu annast fyrir langferðabíla, skrifað og einnig öllum kaupfélögum vestan Hvalfjarðar svo og nokkrum öðrum fyrirtækjum, sem vitað var, að rækju sjálfstæða flutninga þessa leið. Bárust svör frá allmörgum þessara aðila, en aðrir kváðust reiðubúnir að láta nefndina kynna sér gögn í þessu efni, ef nefndin vildi taka að sér úrvinnslu þeirra. Kannaðir voru fjórir lendingarstaðir fyrir ferjur beggja vegna Hvalfjarðar, og að þeirri athugun lokinni var ákveðið að láta gera loftmyndakort af tveim stöðum beggja vegna fjarðarins, þ.e. á leiðinni Saurbær—Innrihólmur og leiðinni Kiðafellsá-Galtavík. Voru grunnmælingar fyrir loftmyndakort gerðar á þessum stöðum og loftmyndir teknar. Var áformað að teikna loftmyndakort snemma á árinu 1968 og gera þá einnig nauðsynlegar sjómælingar á ofangreindum lendingarstöðum. Í samráði við vitamálastjóra og straumfræðistöð Orkustofnunar var tekinn á leigu sérstakur öldumælir hjá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn. Var öldumælir þessi settur niður 16. des. 1967 út af Brautarholti og lögð út í hann liðlega 2 km löng leiðsla frá landi. Fljótlega komu í ljós miklir erfiðleikar við rekstur mælisins, bæði við sjálfan mælisbúnaðinn og leiðsluna frá mæli og í land. Var mælingum þessum hætt í júní 1968, og var árangur af þeim mjög takmarkaður. Þar sem engin fjárveiting fékkst til áframhaldandi starfa nefndarinnar á árinu 1968, tilkynnti rn. nefndinni með bréfi dagsettu 12. marz 1968, að fresta yrði frekari störfum hennar um sinn. Engin fjárveiting fékkst tekin á fjárlög fyrir árið 1969 til greiðslu kostnaðar við áframhaldandi störf Hvalfjarðarnefndar.

Er unnið var að undirbúningi vegáætlunar fyrir árin 1969–1972 á Alþ. fyrri hluta árs 1969, gerði Hvalfjarðarnefnd ítarlega grein fyrir störfum sínum fram til þess tíma svo og áætlun á kostnaði við að ljúka störfum nefndarinnar. Var þar gert ráð fyrir, að kostnaður við að ljúka þeim störfum yrði 1.5 millj. kr., og ættu niðurstöður væntanlega að geta legið fyrir í árslok 1970 eða við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1971 og 1972. Í vegáætlun fyrir árin 1969 og 1970 var tekin upp 700 þús. kr. fjárveiting til Hvalfjarðarnefndar árið 1969 og 800 þús. kr. fjárveiting árið 1970.

Eftir að fjárveiting fékkst til áframhaldandi starfa nefndarinnar, hefur þetta verið gert: Haldið hefur verið áfram umferðartalningu við Fossá í Kjós með sjálfvirkum umferðarteljurum. Einnig voru gerðar ítarlegar kannanir á umferð við Ferstiklu í Hvalfirði á öllum vörubifreiðum og almennings- og áætlunarbifreiðum sumarið 1969. Voru þessar kannanir gerðar eina viku í senn í júlí, ágúst, sept., okt. og nóv. og enn fremur eina viku í marz 1970. Voru allar bifreiðar af framangreindum gerðum stöðvaðar og bifreiðastjórar spurðir ýmissa spurninga, eins og hvert ferðinni væri heitið og í hvaða tilgangi, hvaðan væri komið, hvaða vörutegundir væru fluttar og hve mikið að þyngd. Skráð var gerð bifreiðar, burðarþol, tími sólarhrings, hve margir voru í bifreiðinni o.s.frv. Hefur prófessor Guðlaugur Þorvaldsson nú unnið ítarlega skýrslu úr þeim gögnum, sem fengust við þessar talningar, svo og hinum sjálfvirku umferðartalningum, sem framkvæmdar voru jafnhliða. Gefur þessi umferðarkönnun mjög veigamiklar upplýsingar um alla umferð fyrir Hvalfjörð og raunar einnig að verulegu leyti fyrir Borgarfjörð.

Þar eð könnun nefndarinnar á veðurathugunum beggja vegna Hvalfjarðar leiddi í ljós, að Veðurstofan hafði engar mælingar á vindstyrkleika í sjálfum Hvalfirði, en hins vegar er vitað, að vindstyrkleiki í Hvalfirði í norðan- og norðaustanátt getur orðið mjög mikill og gæti torveldað ferjurekstur á fyrirhuguðum ferjuleiðum, þá var samið um það við Veðurstofu Íslands sumarið 1969 að koma upp vindmælum við Hjarðarnes á Kjalarnesi. Hófust þær vindmælingar í ágúst 1969 og hafa staðið óslitið til októberloka 1970. Hefur ekki enn verið unnið nema að litlu leyti úr þessum vindmælingum, en þær hafa hins vegar leitt í ljós, að um mjög snöggar vindbreytingar er að ræða á þessu svæði.

Á árinu 1969 var lokið gerð loftmyndakorta af væntanlegum ferjustöðum á þeim tveimur ferjuleiðum, sem nefndin hefur látið kanna. Hafa sjómælingar á ferjustöðum einnig verið felldar inn á þessi kort. Er því unnt að gera áætlanir um kostnað við ferjuhafnir á þessum stöðum, þegar stærð á ferju hefur verið ákveðin. Jafnhliða sjómælingum á ferjustöðum hafa verið gerðar dýptarmælingar yfir Laxárvog og leiðina frá Múlafjalli yfir í Þyrilsnes. Könnun hefur einnig farið fram á hugsanlegum vegarstæðum í sambandi við framangreindar ferjuleiðir. Einnig mun liggja fyrir á næstunni loftmyndakort í stærðarhlutföllunum 1:5000 úr Kollafirði að Eyri í Kjós, sem gerir áætlunargerð um vegarlagningu á þessari leið tiltölulega auðveldari. Haft hefur verið samband við norsku vegamálastjórnina um ýmsar upplýsingar varðandi ferjurekstur, en Norðmenn hafa flestum þjóðum meiri reynslu í ferjurekstri, þar sem reknar eru þar um 150 bílferjur.

Hvalfjarðarnefnd telur sig nú hafa lokið að mestu nauðsynlegustu gagnasöfnun til úrlausnar verkefnum sínum. Hins vegar er eftir mikið starf við úrvinnslu gagna og samningu lokaskýrslu. Ráðgerir nefndin að leita eftir sérfræðilegri aðstoð frá norsku vegamálastjórninni varðandi ýmis tæknileg atriði, og hefur aðstoð verið heitið í því efni. Ráðgerir Hvalfjarðarnefnd að geta skilað lokaniðurstöðum í marz n.k., svo framarlega sem úrvinnsla gagna leiðir ekki í ljós einhver atriði, sem krefjast alveg nýrrar gagnaöflunar, en það er ekki óalgengt um rannsóknir af þessu tagi.