08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (4318)

126. mál, æskulýðsmál

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Hinn 6. apríl s.l. var afgr. sem lög frá Alþ. frv. til l. um æskulýðsmál. Samkv. lögum þessum skal stofna sérstakt Æskulýðsráð ríkisins, og skal hlutverk þess vera samkv. 3. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að skipuleggja og samræma opinberan stuðning við æskulýðsstarf í landinu og örva starfsemi þeirra samtaka, sem að æskulýðsmálum vinna.

2. Að leitast við að samræma æskulýðsstarfsemi félaga, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál og efla þá til sameiginlegra átaka um lausn ákveðinna verkefna.

3. Að gera till. til menntmrn. um fjárveitingar til æskulýðsmála.

4. Að efna til umræðufunda og/eða ráðstefna um æskulýðsmál eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

5. Að safna gögnum um æskulýðsmál hérlendis og erlendis, fylgjast með þróun þeirra mála og láta í ljós umsagnir til stjórnvalda um mál, er varða æskulýð og æskulýðsstarfsemi. Ráðið hlutist til um, að fram fari fræðilegar rannsóknir á sviði æskulýðsmála.

6. Að sinna öðrum verkefnum, sem talin eru í lögum þessum eða rn. kann að fela því.“

Í 5. gr. er heimild til þess að stofna æskulýðsnefndir eins eða fleiri sveitarfélaga, sem þá að sjálfsögðu ynnu í samstarfi við Æskulýðsráð ríkisins að framkvæmd þeirra mála, sem í þessum lögum felast.

Þá er í 6. gr. ákvæði um stuðning ríkissjóðs við félagsog tómstundastarfsemi, og skal hann m.a. fólginn í þátttöku í kostnaði við þjálfun leiðbeinenda.

Í 7. gr. er rætt um menntun æskulýðsleiðtoga: „Æskulýðsráð ríkisins gengst fyrir því, að haldin séu námskeið fyrir æskulýðsleiðtoga.“ Þá segir einnig í sömu gr.: „Heimilt skal að styrkja efnilega æskulýðsleiðtoga til framhaldsnáms og þjálfunar erlendis, eftir því sem fjárveitingar leyfa.“

Fleira er í þessum lögum, sem ýmsir hafa markvert talið. Með lögum þessum er sem sé stefnt að víðtæku og skipulegu æskulýðsstarfi. Hæstv. menntmrh. beitti sér sjálfur fyrir setningu laganna. Undirbúningur var umfangsmikill og kostnaðarsamur. Fjölmenn nefnd viturra manna starfaði að undirbúningnum árum saman, og af hálfu ríkisstj. voru lögin talin marka tímamót í æskulýðsmálum. Mörgum mun því eflaust leika forvitni á að frétta um framkvæmdirnar, og því hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. um það, hvað líði framkvæmd laga um æskulýðsmál.