08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (4319)

126. mál, æskulýðsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á fundi 9. nóv. s.l. kusu aðildarfélög Æskulýðssambands Íslands og hliðstæð æskulýðssambönd þrjá fulltrúa og þrjá til vara í Æskulýðsráð ríkisins samkv. ákvæðum laga um æskulýðsmál. Kosningu hlutu þessir sem aðalmenn: Hafsteinn Þorvaldsson, formaður Ungmennafélags Íslands, Skúli Möller, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Íslands, og Bernharður Guðmundsson, æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar. Sem varamenn hlutu kosningu Þorsteinn Ólafsson stjórnarmaður, — titil hans hef ég hér ekki því miður, hann er rangritaður hér, — Þorbjörn Broddason lektor, Hannes Sigurðsson, stjórnarmaður í Íþróttasambandi Íslands.

Í bréfi dags. 10. nóv. s.l. tilnefndi Samband ísl. sveitarfélaga Gylfa Ísaksson bæjarstjóra á Akranesi sem aðalmann í Æskulýðsráð ríkisins, en sem varamann Markús Örn Antonsson, formann Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Menntmrh. hefur skipað Örlyg Geirsson, fulltrúa í menntmrn., formann ráðsins.

Hlutverk æskulýðsráðsins er að leggja grundvöll að framkvæmd laga um æskulýðsmál og að marka stefnu í æskulýðsmálum í anda laganna. Stofnun Æskulýðsráðs ríkisins er fyrsta skrefið í þá átt að hrinda í framkvæmd lögum um æskulýðsmál, sem samþ. voru á síðasta Alþ. Um stofnun ráðsins hefur verið haft fullt samráð við æskulýðssamtökin í landinu, bæði um það, hvenær æskulýðsráðið skyldi stofnað, og eins hefur verið samkomulag um, að reglugerð samkv. lögunum skyldi ekki samin fyrr en æskulýðsráðið hefði verið stofnað og því gefizt tækifæri til að semja drög að slíkri reglugerð. Meðal fyrstu verkefna æskulýðsráðs mun verða að gera till. um, að auglýst verði laust til umsóknar starf æskulýðsfulltrúa ríkisins. Með þessum ráðstöfunum hefur verið lagður grundvöllur að því, að lög um æskulýðsmál gætu komið til framkvæmda svo fljótt sem kostur er, og í öllum atriðum hefur verið haft fyllsta samráð við æskulýðssamtökin í landinu.