16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

170. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér um. Vitanlega er það eðlilegt, að hv. þm. taki til máls og ræði um þetta mál, og ekkert óeðlilegt, þótt sitt sýnist hverjum í þessu máli. Hér er um stórmál að ræða. Hér er um það að ræða að afla Vegasjóði tekna. Allir þeir, sem tekið hafa til máls, eru sammála um það, að þess þyrfti. Það hefur verið á það minnzt, að æskilegt væri, að ríkissjóður legði meira fram og hægt væri að lækka þungaskattinn og benzínið jafnmikið. Ég er þessu algjörlega sammála. En nú er verið að afgreiða fjárlög, og ég held, að hæstv. fjmrh. og fjvn. séu sammála um það, að það sé óvarlega farið að auka útgjöld ríkissjóðs að þessu sinni meira en fjvn. hefur lagt til — eða a. m. k. meiri hluti hennar. Og það er alveg áreiðanlegt, að bæði ríkisstj. og þm. eru sammála um það, að það væri æskilegt, að ríkissjóður stæði þannig, að hann gæti lagt meira fjármagn til veganna, til þess að þungaskattur og benzínverð gæti verið lægra, en það eru margar kröfur á ríkissjóð, og það er talið alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að afgreiða fjárlög greiðsluhallalaus. Það hefur komið fram í þessum umr. hjá fleirum en mér, að ríkissjóður hefur í seinni tíð aukið framlög sín til veganna. Ríkissjóður greiðir á árinu 1970 82 millj. kr. til veganna í vexti og afborganir og hefur þannig tekið að sér meginhluta af þeim þunga, sem af lánunum stafar. Vegasjóður hefur hins vegar greitt á þessu ári aðeins 14 millj. kr. í þessu skyni. Þótt vextirnir vitanlega lækki vegna afborgana, sem hafa farið fram á þessu ári, má gera ráð fyrir, að með því viðbótarframlagi, sem lagt er til, að ríkissjóður leggi fram, þá verði ríkissjóðsframlagið á næsta ári 125 millj. kr. Þetta viðurkenna nú allir, að er framför og er spor í rétta átt, en það er sannleikurinn í málinu, að það þótti ekki fært að láta ríkissjóð að þessu sinni leggja meira fram en þær 47 millj. kr., sem í frv. eru.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði aths. við 2. gr. frv. og taldi eðlilegt að athuga það mál frekar og ákveða það, hvort ekki væri eðlilegt, að vegáætlun væri lögð fram um leið og fjárlagafrv. En þetta hefur ekki verið talið fært, og vegamálastjóri og rn. eru sammála um það. Ég tel ekki eðlilegt að tala um sleifarlag í þessu efni, þótt þetta hafi ekki verið talið fært, og ég tel eðlilegt, að í lögunum verði þetta orðað eins og í frv. er lagt til, að þetta verði gert, svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Það geta vitanlega mörg atvik til þess legið, að það sé ekki fært að gera þetta fortakslaust samtímis og fjárl. eru lögð fram en eins og hv. 1, þm. Norðurl. v. sagði, að hann teldi ekki ástæðu til að gera þetta að neinu stórmáli, þá gildir það sama um mig, þ. e. ef hv. alþm. að athuguðu máli sýnist sjálfsagt að breyta þessu, verður það ekki heldur neitt stórmál hjá mér.

Hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, taldi mjög óeðlilegt að leggja þetta frv. fram og bera fram svona miklar hækkunartillögur á verðstöðvunartíma. Það má segja, að þetta hefði verið óeðlilegt, ef ekki hefði verið ráð fyrir þessu gert, um leið og verðstöðvunarlögin voru rædd og hv. alþm. gert það ljóst, að það væri von á tillögum um hækkun á benzíni og þungaskatti. Og það var gert ráð fyrir því í öllum útreikningum, að þetta gæti valdið hækkun á vísitölunni, og það er allt með í dæminu. Þess vegna er það ekkert óeðlilegt, að það kemur mönnum ekkert á óvart í þessu sambandi. Það má vera, að hv. þm. hafi ekki verið hér á Alþ., þegar verðstöðvunarlögin voru rædd. Ég held, að það hafi ekki verið og þess vegna sé honum þetta ekki eins ljóst og öðrum hv. þm., og má það eðlilegt teljast, þar sem hann var fjarverandi.

Hv. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, gerði aths. við þungaskattinn og fannst hann vera of hár og ekki rétt hlutfall á milli hækkunar þungaskattsins og benzínverðsins. Hv. þm. telur eðlilegt að hækka benzínið meira, en lækka þungaskatt að sama skapi. En það er nú svo, að það hafa verið gerðir nákvæmir útreikningar í þessu sambandi. Það hefur verið gert hjá Vegagerðinni, þótt hv. þm. trúi henni misjafnlega, það hefur verið gert í Efnahagsstofnuninni og það hefur verið gert í samgrn., og það er talið eðlilegt hlutfall milli þungaskattsins og benzínverðsins, eins og lagt er til í frv. Þótt þungaskatturinn verði nú hækkaður um 50%, þá er hann ekki sérstaklega stór hluti af útgerðarkostnaði bílsins. Í samningum við Vegagerðina er gert ráð fyrir því, að þetta vegi 5% af útgerðarkostnaði eins og þungaskatturinn er nú og yrði þá væntanlega 7.5% eftir hækkunina. Af þessu leiðir, að þetta er ekki stór hluti af útgerðarkostnaðinum. Það er rétt, að þungaskatturinn hefur hækkað nokkuð mikið hjá mörgum á þessu ári, eftir að gjaldmælarnir komu í bílana, en það er vegna þess, að atvinna hefur verið meiri hjá vörubílum seinni hluta þessa árs en var t. d. í fyrra. Og ég hef rætt við forystumenn vörubifreiðastjóra um þetta, og þeir viðurkenndu það, að það hefði verið meiri atvinna seinni hluta þessa árs en oft áður. Það leiðir til þess, að það er meiri akstur, það er greitt eftir gjaldmæli og það veldur hærri skatti. En það verður ekki til þess að gera gjaldgetu þessara manna minni, þótt þeir greiði hærri skatt eftir gjaldmæli, vegna þess að skatturinn hækkar aðeins vegna þess, að það er meira ekið.

Nú var það svo, að það var gefin út reglugerð á s. l. vori, áður en gjaldmælarnir voru settir í, og þá var miðað við, að með sama akstri greiddi bifreiðarstjórinn sama gjald og áður. Það var miðað við 30 þús. km, og með því að aka 30 þús. km, þá átti hann að greiða jafnmikinn skatt og hann hafði greitt áður en gjaldið var tekið samkv. gjaldmæli. Og með því að setja gjaldmæla í bifreiðarnar leiðir það til þess, að margir borga hærra vegna þess, að gjaldmælirinn er í bílnum, en þeir munu verða fleiri, sem borga minna, af því að þeir aka lítið. Og þar vil ég nefna þá, sem aka í sjávarþorpum. Þeir borga minna, eftir að gjaldmælirinn er kominn í bifreiðina en áður. Það hafa margir talað við mig og sagt: Ja, bifreiðin mín, henni er aðeins ekið niður á bryggju og upp í frystihús, og þetta eru kannske 10 þús. km á ári. En áður en gjaldmælirinn kom, þá var þessi bifreiðarstjóri látinn greiða samkv. 30 þús. km taxtanum, og það var óréttlátt. Þess vegna voru gjaldmælarnir upp teknir. Og ég fullyrði það, að það verður meiri hluti vörubifreiðastjóra, sem greiða lægra gjald eftir þessa hækkun en þeir greiddu áður, á meðan þungaskatturinn var miklu lægri, áður en gjaldmælirinn kom. Það mun sannast og sýna sig. Og það er vitanlega réttlátt að borga þungaskatt samkv. gjaldmæli á þessum þungu bílum eftir því, hvað þeir nota vegina og hvað þeir aka mikið, eins og það er réttlátt að taka benzínskatt. Þeir, sem aka mikið á benzínbifreiðum, aka um vegina og slíta þeim, en þeir borga líka miklu meiri benzínskatt en hinir, sem aka lítið. Þannig er þetta hvort tveggja eðlilegt, þ. e. að það sé gjaldmælir í dísilbílnum og að það sé skattur á benzíninu, og að athuguðu máli hefur þetta hlutfall verið talið eðlilegt.

Það hefur stundum verið talað um, að það væri ekki nægilega gott skipulag hjá Vegagerðinni, þ. e. að framkvæmdirnar þar gengju ekki nógu vel, og það hefur þá stundum verið vitnað í það, hvað langan tíma hefur tekið að gera veginn hér út úr Reykjavík, sem nú er loksins búinn. En menn hafa ekki tekið það með í reikninginn, að þessi vegur er miklu breiðari en venjulegur þjóðvegur, þótt hraðbraut sé, og þarna hefur orðið að sprengja og brjótast í gegnum klappir, þannig að það er sem betur fer ekkert sambærilegt. Menn geta talað um 100 ár sér til gamans, en ég vil þá minna á það, að það er gert ráð fyrir því, að hraðbraut verði lokið upp í Kollafjörð á árinu 1971–1972 og austur að Selfossi á sama tíma, og það hlýtur þó að vera talinn eðlilegur hraði í vegaframkvæmdum hér á landi.

Það er talað um endurgreiðslur vegna benzíns á jeppabifreiðar. Það er gert ráð fyrir þessum endurgreiðslum, sem eru, að mig minnir, 21 millj. kr., þ. e. að endurgreiða benzín, sem notað er á dráttarvélar. Dráttarvélum, sem nota benzín, fer nú fækkandi, en eru þó allmargar til í landinu, og ég hygg, að menn séu sammála um, að það sé ekki sanngjarnt að láta greiða benzínskatt af dráttarvélum, sem aldrei fara út á vegi — skatt, sem er ætlaður til þess að byggja upp vegina. Það eru endurgreiðslur vegna benzíns á jeppa líka, dísiljeppa, landbúnaðarjeppa, og það er ekki gert ráð fyrir því að breyta því fyrirkomulagi. Það á að haldast. En ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að það er nauðsynlegt að tryggja það, að þessar endurgreiðslur séu ekki misnotaðar. Fjmrn. hefur gefið út reglugerð í þessu efni. Það hefur verið sagt stundum, að þetta fyrirkomulag hafi verið misnotað, en ég held, að það hafi aldrei verið sannað. Og ég trúi því, að hreppstjórar og sýslumenn gæti þess, að þessi reglu erð sé ekki brotin, og haldi sig innan þess ramma. E~g trúi því. Og ég veit ekki til þess, að það hafi komið fram sem staðreynd, að þetta hafi verið misnotað. En vitanlega er það sjálfsagt að tryggja það, að það verði ekki.

Hv. samgmn. tekur þetta mál fyrir. Form. hv. n. sagði mér, að vegamálastjóri kæmi til fundar í n., og tel ég það mjög gott, að hann sé kallaður fyrir n. til þess að gefa upplýsingar í málinu, sem n. kynni að óska eftir, en hv. alþm. hafa ekki enn fengið.