08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í D-deild Alþingistíðinda. (4323)

139. mál, dragnótaveiði í Faxaflóa

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh., sem er í þrem liðum og hljóðar þannig:

„1. Hver er reynslan af áhrifum dragnótaveiða í Faxaflóa, sem leyfðar eru undir vísindalegu eftirliti, sbr. lög nr. 40 9. júní 1960?

2. Á ekki að setja reglur um rækjuveiðar við Eldey, er tryggi forgang báta af Faxaflóa- og Reykjanessvæðinu til þeirra, líkt og gildir um rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og víðar?

3. Er fyrirhuguð leit að nýjum rækjumiðum í Faxaflóa og út af Reykjanesi?“

Fsp. þessar eru bornar fram að gefnu tilefni og vegna margítrekaðra tilmæla starfandi sjómanna í Reykjaneskjördæmi, sem ýmsir hafa haft við mig samband og beðið mig að koma þessum fsp. á framfæri, og ég vona, að hæstv. ráðh. geti gefið við þeim glögg og skýr svör.