08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (4325)

139. mál, dragnótaveiði í Faxaflóa

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. mínum hér áðan. Þær fsp. eru fram settar, eins og ég gat um, vegna margítrekaðra óska starfandi sjómanna í Reykjaneskjördæmi. Út af þeim atriðum, sem fsp. taka til og gengið hafa um ýmsar sögur, þar sem ýmis sjónarmið hafa stangazt á, þá tel ég, að með þeim svörum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, hafi talsvert unnizt, þannig að menn geti gert sér grein fyrir því, hvað t.d. Hafrannsóknastofnunin álítur um áhrif dragnótaveiðanna í Faxaflóa.

Ég hjó eftir því í svari hæstv. ráðh. í sambandi við 1. lið fsp., að hann talaði um, að dragnótaveiðin tvö s.l. ár hefði verið tiltölulega lítil og hefði vegið lítið í heildarafla þeirra fisktegunda, sem þar greindi. En er það ekki einmitt afleiðing þess, að þeim bátum hefur fækkað mjög mikið, sem hafa verið gerðir út á dragnótaveiðar í flóanum, vegna þess að eftirtekjan, afraksturinn hjá þessum bátum hefur farið minnkandi sökum minnkandi afla? Og er þessi samdráttur í heildaraflabrögðum í flóanum og fækkun þeirra báta, er stunda dragnótaveiði, ekki einmitt nokkur vísbending um, að þarna sé um hættulega þróun að ræða í flóanum, sem ástæða sé til að líta alvarlegum augum og fylgjast vel með og byrgja þá brunninn, áður en barnið er dottið ofan í hann?

Um rækjumiðin við Eldey vil ég aðeins segja það, að á þau hafa sótt bátar frá mörgum byggðarlögum þessa lands. Þess munu dæmi, eftir því sem sjómenn segja mér, að bátar allt frá Vestfjörðum komi suður að Eldey til þess að veiða rækjuna og það séu jafnvel stærri bátar að rækjuveiðum við Eldeyna en algengt er bæði í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirðinum, svo að dæmi séu nefnd. Margir starfandi sjómenn á þessum miðum hafa sagt við mig, að þetta svæði sé ekki stærra en svo, að ef svo haldi fram sem verið hafi um sinn, að fjöldi báta sæki þessi mið, þá sé það gefið, að þau verði uppurin á tiltölulega mjög skömmum tíma. Ég tel því meira en vafasamt að bíða eftir einhverri langri reynslu með það að setja reglur um veiðarnar við Eldeyna. Ég held, að það gefi auga leið, að setja þurfi þar einhverjar reglur svipaðar þeim, sem í gildi eru bæði í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirðinum, og með það sé ekki eftir neinu að bíða. Ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. um, að þegar þessar reglur verða settar, — ef þær þá verða settar — þá verði séð til þess, að forgangur heimabáta eða báta af þessu svæði verði tryggður.